STOFNUNIN Matvælarannsóknir Keldnaholti, sem er samstarfsvettvangur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar, kynnti niðurstöður ítarlegs verkefnis um gæði grænmetis á málþingi síðastliðinn fimmtudag.
Málþing um gæði grænmetis frá sjónarhóli neytenda Íslenskt grænmeti ekki eftirbátur

þess erlenda

STOFNUNIN Matvælarannsóknir Keldnaholti, sem er samstarfsvettvangur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar, kynnti niðurstöður ítarlegs verkefnis um gæði grænmetis á málþingi síðastliðinn fimmtudag.

Í verkefni Matvælarannsókna var fylgst með gæðum grænmetis á íslenskum markaði í heilt ár, þ.e. frá mars 1998 til sama mánaðar árið 1999. Gæðin voru metin út frá sjónarhóli neytenda, en í erindi Vals N. Gunnlaugssonar, sem bar heitið "Hvað ræður gæðum grænmetis?", kom fram að gæði ákvarðast af bragðgæðum, útliti, efnainnihaldi og hollustu. Gæði eru, samkvæmt erindi Vals, það sem neytendur og úrvinnsluaðilar segja að þau séu.

Verkefnið hvati að auknum gæðum grænmetis

Í verkefninu voru upplýsingar um uppruna, afbrigði og ræktunaraðferð skráðar þannig að niðurstöðurnar nýtast framleiðendum jafnt sem neytendum og geta orðið hvati að auknum gæðum framleiðslunnar. Þá var notað skynmat til að meta bragðgæði og útlit grænmetisins en efnagreiningar til að mæla einstaka efnisþætti, svo sem þurrefni, nítrat og nokkur vítamín. Að lokum var framlag grænmetis til neyslu Íslendinga á hinum ýmsu næringarefnum reiknað.

Bragðgæði íslensks og innflutts grænmetis voru borin saman. Íslensku tómatarnir höfðu að jafnaði meira tómatbragð en þeir erlendu, en í þeim síðarnefndu kom oftar fram aukabragð. Að meðaltali var einnig meira af hollustuefnunum beta-karótíni og lýkópeni í íslenskum tómötum en í innfluttum. Hins vegar var heldur minna af beta- karótíni í íslenskum gulrótum en þeim innfluttu, en íslenskar gulrætur veita samt sem áður mjög mikið af þessu efni borið saman við önnur matvæli. Jafnframt má taka fram að meira gulrótarbragð var af íslenskum gulrótum þegar borið var saman við erlendar og eins voru þær safaríkari en þær síðarnefndu.

Gæði framleiðslunnar jöfn og góð

Gæði íslensku framleiðslunnar voru almennt mjög jöfn og góð. Lítill munur var á skynrænum þáttum milli vetrar og sumars á salati á meðan gæði gulróta rýrnuðu yfir vetrartímann. Íslenskt grænmeti, sem framleitt er við raflýsingu yfir vetrartímann, kom ávallt vel út úr gæðamatinu og og vítamíninnihald var síst minna en á öðrum árstímum. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að íslenskt grænmeti stendur því innflutta fyllilega jafnfætis varðandi þau vítamín sem mæld voru, þau voru fólasín, E-vítamín og beta-karótín, en það er forveri A-vítamíns. Engin ein grænmetistegund veitir mest af öllum vítamínunum og því er æskilegt að neytendur borði fjölbreytt úrval grænmetis.