FJÓRIR íslenskir júdómenn hafa sett stefnuna á Ólympíuleikana í Sydney í Ástralíu 2000. Gísli Magnússon, Ármanni, Vernharð Þorleifsson og Friðrik Blöndal, KA og Bjarni Skúlason, Selfossi, sem taka allir þátt í heimsmeistaramótinu sem fer fram í Birmingham 7. til 10. október. "Við ætlum okkur að gera atlögu að farseðlinum til Sydney.




JÚDÓ

Fjórir á

HM í Birmingham

FJÓRIR íslenskir júdómenn hafa sett stefnuna á Ólympíuleikana í Sydney í Ástralíu 2000. Gísli Magnússon, Ármanni, Vernharð Þorleifsson og Friðrik Blöndal, KA og Bjarni Skúlason, Selfossi, sem taka allir þátt í heimsmeistaramótinu sem fer fram í Birmingham 7. til 10. október. "Við ætlum okkur að gera atlögu að farseðlinum til Sydney. Til að tryggja okkur hann verðum við að vera í eins af sjö efstu sætunum í okkar flokkum," sagði Gísli, sem tryggði sér tvö gull á NM í sumar er hann varð Norðurlandameistari í yfirþyngdarflokki og opnum flokki.

Gísli sagði að ef ekki tækist að ná sætum á ÓL í Birmingham, þá væri möguleiki að ná rétti til að keppa í Sydney með góðum árangri í sex af tíu mótum sem eru framundan í Evrópu. "Best er að tryggja sér farseðilinn strax í Birmingham, þannig að við getum tekið þátt í Evrópumótunum án mikillar spennu.

Tveir þjálfarar fara með fjórmenningunum til Birmingham. Sævar Sigursteinsson, nýráðinn þjálfari Ármanns, og Jón Óðinn Óðinsson, þjálfari KA.

Þess má geta að júdódeild Ármanns hefur ákveðið að styrkja tvo félagsmenn sína ­ Gísla og Þorvald Blöndal til þátttöku í alþjóðlegum mótum í vetur, til að auka möguleika þeirra á að ná Ólympíulágmörkum.