FJÁRLAGAFRUMVARPIÐ hefur nú að geyma í fyrsta sinn sérstakt yfirlit yfir útgjöld ríkisstofnana til rannsókna og þróunarstarfs en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru áform um að auka veg menntunar og rannsókna sem forsendu nýsköpunar í atvinnulífinu.

Um 6,5 milljörðum króna

varið til rannsókna

FJÁRLAGAFRUMVARPIÐ hefur nú að geyma í fyrsta sinn sérstakt yfirlit yfir útgjöld ríkisstofnana til rannsókna og þróunarstarfs en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru áform um að auka veg menntunar og rannsókna sem forsendu nýsköpunar í atvinnulífinu.

Helstu niðurstöður eru þær að áætluð útgjöld til þessa málaflokks nemi um 6,5 milljörðum króna á næsta ári en í ár er framlag til rannsókna um 6,3 milljarðar króna. Bent er á að túlka verði tölurnar með varúð þar sem einstök verkefni geti valdið miklum sveiflum milli ára. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins kemur fram að árið 1995 hafi þessi upphæð numið 4,5 milljörðum króna og 5,3 árið 1997.

Á næsta ári verður framlag ríkissjóðs til rannsókna 5,5 milljarðar en sértekjur koma einnig til sögunnar. Þær stóðu árin 1995 til 1998 undir um 30% af heildarútgjöldum.

Unnið hefur verið úr ríkisreikningi áranna 1995, 1997 og 1998, fjárlögum 1999 og fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2000 yfirlit um útgjöld til þessara mála. Farið var yfir fjárreiður allra ríkisaðila og hlutur rannsókna áætlaður með hliðsjón af könnun sem Rannsóknarráð Íslands gerði árið 1997 meðal þeirra sem stunda rannsóknir. Fram kemur að ætlunin sé að þróa aðferðir til að áætla með meiri nákvæmni en verið hefur útgjöld til rannsókna og er það viðfangsefni næstu ára að þróa og birta mælikvarða á þann árangur sem rannsóknir hafa í för með sér.

Hæst framlag frá menntamálaráðuneyti

Hæsta framlagið til rannsókna er frá menntamálaráðuneyti, nærri 3,9 milljarðar króna, og 1,3 milljarðar koma frá sjávarútvegsráðuneyti. Ráðuneyti landbúnaðar og iðnaðar verja kringum 480 milljónum hvort til rannsókna, heilbrigðisráðuneytið um 375 milljónum og umhverfisráðuneyti 290 milljónum. Önnur ráðuneyti verja nokkrum tugum milljóna til rannsókna nema fjármálaráðuneyti, sem leggur 9 milljónir til málaflokksins, og dóms- og kirkjumálaráðuneytið 7 milljónir. Þá ver Hagstofa Íslands þremur milljónum króna í rannsóknir.