Einelti er þema sýningarinnar Ber sem Dansleikhús með Ekka frumsýnir í Tjarnarbíói í kvöld, laugardag. RAGNA SARA JÓNSDÓTTIR spjallaði við tvo meðlimi dansleikhússins, þær Ernu Ómarsdóttur dansara og Hrefnu Hallgrímsdóttur leikara, sem sögðu henni að markmiðið með sýningunni væri að gera fólk sér meðvitandi um einelti.
DANSLEIKHÚS MEÐ EKKA FRUMSÝNIR VERKIÐ BER Í TJARNARBÍÓI Í KVÖLD

EINELTI

TEKUR Á SIG

ÝMSAR

MYNDIR

Einelti er þema sýningarinnar Ber sem Dansleikhús með Ekka frumsýnir í Tjarnarbíói í kvöld, laugardag. RAGNA SARA JÓNSDÓTTIR spjallaði við tvo meðlimi dansleikhússins, þær Ernu Ómarsdóttur dansara og Hrefnu Hallgrímsdóttur leikara, sem sögðu henni að markmiðið með sýningunni væri að gera fólk sér meðvitandi um einelti.

HUGMYNDIN að því að gera einelti að umfjöllunarefni í dansleikhúsi kviknaði út frá ljóði sem 13 ára stúlka samdi og barst til dansleikhússins. Stúlkan hafði orðið fyrir einelti í skóla og fjallaði ljóðið um þá reynslu hennar. "Ljóðið hafði svo sterk áhrif á okkur að við spunnum síðasta verk okkar, sem sýnt var um síðustu jól í Þjóðleikhúskjallaranum, útfrá því," segir Hrefna Hallgrímsdóttir, leikari og einn meðlimur í dansleikhúsinu.

Við nánari skoðun á einelti komust dansleikhúsmeðlimir að því að einelti væri mjög útbreitt, ekki einungis í skólum heldur einnig á hinum ýmsu stöðum í þjóðfélaginu. Þeim þótti því ótrúlegt að fyrirbærið fengi jafn litla athygli og raun ber vitni miðað við hversu sterk neikvæð áhrif það hefur á þolendur þess.

"Fólk gerir sér ekki grein fyrir því þegar einelti á sér stað að það sé að gerast og krakkar sem leggja aðra krakka í einelti gera sér enga grein fyrir því hvað þolandinn þarf að ganga í gegnum," útskýrir Hrefna, og Erna Ómarsdóttir dansari bætir við: "Þær myndir sem við bregðum upp eru allar byggðar á reynslu sem við höfum orðið fyrir, ýmist sem þolendur, gerendur eða áhorfendur eineltis. Það rifjast upp fyrir manni ýmsir atburðir sem gerðust í æsku og geta flokkast undir einelti, þótt maður hafi ekki litið á það sem slíkt þá."

Unnið út frá texta

"Sýningin hlaut nafnið Ber vegna þess að þegar einstaklingar verða fyrir einelti eru þeir berskjaldaðir, naktir gagnvart öllum og öllu og geta hvergi falið sig," segi Hrefna. Auk þess að byggt er á eigin reynslu vinnur Dansleikhúsið einnig út frá texta eftir ýmsa ólíka höfunda. "Við vinnum mikið út frá ljóðum Jacques Prévert og ýmsum öðrum texta svo sem okkar eigin. Við höfum safnað í möppu með fjölda greina og viðtala um einelti," segir Hrefna.

Í dansleikhúsi er leiklist, dansi og tónlist blandað saman. "Leikarar dansa og dansarar leika, það eru engin skýr mörk þarna á milli. Texti, dans, tónlist og leiklist renna saman í eitt og styðja hvert annað á sviðinu," segir Erna, en Dansleikhús með Ekka er einn af fyrstu hópum listamanna sem leggur fyrir sig þetta listform hérlendis þótt það sé mjög þekkt erlendis undir nafninu "physical theatre".

Sýningin Ber er að hluta til unnin út frá sýningunni sem haldin var um jólin. Hún er þó mun viðameiri og hafa þær stöllur í Dansleikhúsi með Ekka fengið liðsauka: þá Friðrik Friðriksson og Richard Kolnby leikara og Guðmund Elías Knudsen dansara. Þá er Árni Pétur Guðjónsson listrænn stjórnandi sýningarinnar og Belginn Frank Pay semur tónlistina og sér um flutning hennar. Sýningin er unnin með styrk frá menntamálaráðuneytinu, Ungu fólki í Evrópu og Hinu húsinu.

Skólasýningar og verkefni tengd einelti fyrir skólakrakka

Almennar sýningar á Ber verða fimm og er sú síðasta fyrirhuguð 9. október. Til þess að gera skólakrakka sér meðvitandi um vandamálið einelti og hve mikil og djúpstæð áhrif það hefur á þá sem verða fyrir því verða einnig skólasýningar á verkinu. Þær bekkjardeildir sem koma á sýninguna munu jafnframt vinna verkefni um einelti, bæði áður en þau koma á sýninguna og að henni lokinni. Með þessu móti vonast Dansleikhús með Ekka til þess að fræða börn um þetta alvarlega vandamál.

Dansleikhús með Ekka var stofnað árið 1995 af þeim Aino Freyju, Ernu, Kolbrúnu Önnu og Karen Maríu. Allir meðlimir hópsins eru menntaðir dansarar eða leikarar. Hópurinn hefur áður sett upp fjórar styttri sýningar hérlendis sem voru byggðar á ólíku þema en meðlimir þess starfa með leik- eða danshópum ýmist hérlendis eða á erlendri grund.



Morgunblaðið/Ásdís Einelti er þema sýningarinnar Ber sem Dansleikhús með Ekka frumsýnir í Tjarnarbíói í kvöld.

Dansleikhús með Ekka samanstendur af bæði leikurum og dönsurum. Þátttakendur í sýningunni Ber eru frá vinstri: Erna Ómarsdóttir, Friðrik Friðriksson, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Karen María Jónsdóttir, Aino Freyja Järvelä, Guðmundur Elías Knudsen og Hrefna Hallgrímsdóttir. Einn leikarann vantar á myndina, Richard Kolnby.

Sýningin Ber er samblanda af dansi, leik og tónlist. Hér má sjá Karen Maríu Jónsdóttur og Guðmund Elías Knudsen í einu atriðanna.