TVEIR helztu stórmarkaðir Bretlands hafa boðið verulegar verðlækkanir, þær síðustu í harðnandi verðstríði, sem sérfræðingar segja að muni hafa í för með sér minnkandi afrakstur. Tesco Plc. tilkynnti að keðjan mundi verja 250 milljónum punda á ári til viðbótar til "mestu verðlækkana, sem um getur í Bretlandi," til að lækka verð á um 1.000 mikilvægum vörutegundum um tíu af hundraði.


Verðstríðið í Bretlandi harðnar enn



London. Reuters.

TVEIR helztu stórmarkaðir Bretlands hafa boðið verulegar verðlækkanir, þær síðustu í harðnandi verðstríði, sem sérfræðingar segja að muni hafa í för með sér minnkandi afrakstur.

Tesco Plc. tilkynnti að keðjan mundi verja 250 milljónum punda á ári til viðbótar til "mestu verðlækkana, sem um getur í Bretlandi," til að lækka verð á um 1.000 mikilvægum vörutegundum um tíu af hundraði.

Verzlanakeðjan Sainsbury Plc hét því að bjóða lægsta verð á 1.500 vörutegundum, sem seldust mest og sagði að kostnaðurinn mundi nema aðeins 20 milljónum punda.

Samkeppni Wal-Mart

Stóru verzlanakeðjurnsar í Bretlandi hafa hvað eftir annað lækkað verð á vöru sinni vegna samkeppni frá bandaríska keðjurisanum Wal- Mart Stores Inc.

Bandaríska risafyrirtækið náði fótfestu á brezkum markaði þegar það keypti brezku verzlunarkeðjuna ASDA Plc í júní fyrir 6,7 milljarða punda. ASDA hóf síðustu lotu verðstríðsins í síðustu viku með tilkynningu um að verð á 10.000 vörutegundum yrði lækkað um 5­20% á næstu 18 mánuðum.

Safeway Plc, minnsta verzlanakeðjan af fjórum í Bretlandi, hefur sagt að fyrirtækið muni standa við loforð sitt um að viðskiptavinir fyrirtækisins muni ekki bíða ósigur í verðstríðinu.

Talsmaður fyrirtækisins kvað affarasælast að taka gylliboðum með varúð og benti á að venjulegur stórmarkaður í Bretlandi byði upp á 20.000 vörutegundir og samanburður væri varasamur.

Svokölluð smásöluvístala hefur verið 20% lægri en FTSE-aðalhlutabréfavístalan síðan í apríl og lækkaði enn á föstudag. Mest lækkuðu bréf í Sainsbury, um 368 pens eða 2,9%.

"Kaupmönnum reynist sífellt erfiðara að trúa því sem sagt er um verð í stórmörkuðum," sagði forstjóri Sainsbury, Dino Adriano, og kvað viðskiptavini gera góð kaup í verzlunum keðjunnar.