Auk þess legg ég til, segir Erlingur Sigurðarson, að boðað verði til stjórnlagaþings.

Draumaþingmaður

Kosningaúrslit Auk þess legg ég til, segir Erlingur Sigurðarson , að boðað verði til stjórnlagaþings.

MIG dreymdi í fyrrahaust þann draum, að ég væri orðinn þingmaður. Ég vaknaði af honum kátur og hress, enda löngu orðið tímabært að ég kæmist á þing. En það hlýt ég að hafa gert, þó að ég vissi það fyrst eftir á að hyggja. Hvernig væri annars hægt að skýra þá tilfinningu, að mér hefði verið hafnað í alþingiskosningunum í vor ­ tilfinningu sem er stundum svo ofurnæm að ég trúi því meira að segja að hafa fallið í þeim sömu kosningum. Sat ég þó alls ekki á þingi ­ var ekki einu sinni í framboði!

Það er vart að furða þótt trúartilfinning af þessu tagi leiði til hugsýki og uppdráttarsýki af versta tagi, ekki síst þegar fjölmiðlar landsins hafa það hver eftir öðrum ­ og hafa haft það mánuðum saman ­ að ég hafi tapað í kosningunum og fallið. Enda versna draumfarirnar stöðugt, þar er ég þegar margfallinn og fell enn viku eftir viku. Þó hef ég aldrei verið á þingi ­ og er ekkert á leiðinni þangað. Samt fell ég, segja mér blöðin.

Hafi menn eitt sinn trúað öðrum fyrir draumum sínum, þá taka þeir ­ og síðan enn aðrir ­ skjótt trú á þær frásagnir. Hið sama gildir um flesta ­ því miður líklega alla ­ fjölmiðla landsins þegar kemur að kosningadraumum og kosningaspám. Þannig næra þeir sjálfa sig og hætta um leið að greina frá staðreyndum máls. Þannig er ég nú með tap í kosningum á bakinu ­ sem eykst jafnt og þétt eftir því sem frá líður og er löngu orðið óbætanlegt. ég ­ sem aðeins dreymdi eina nótt að ég væri þingmaður.

Er ekki kominn tími til að menn reyni að komast til nokkurs þroska þegar kemur að umræðu um kosningadrauma, kosningaspár og kosningaúrslit. Það gengur ekki að sagan sem "Dýrleif í Parti sagði mér ­ en ég hafði áður sagt henni" ­ sé endurtekin sí og æ sem staðreynd máls. Sama er þótt sagan sé góð ­ og gæti verið sönn. Hún verður það aldrei ­ ekki einu sinni þótt útvarpið láti sem svo. Hversu afstæður sem sannleikurinn kann að vera þá eru niðurstöður kosninga hin eina mælanlega ­ og oft sárbitra ­ staðreynd í því þjóðfélagi sem kennir sig við lýðræði.

Það sem tíðkast í hinum sjálfhverfa fjölmiðlaheimi ­ þar sem menn gera ekki mun á draumsýn og veruleika í kosningum ­ gengur einfaldlega ekki. Þannig verður tap og sigur aðeins miðað við fyrri kosningar en ekki ­ ég endurtek: ekki ­ við það sem menn sögðust einhvern tíma kannski ætla að kjósa. Trúi menn öðru sannar það aðeins að hin óþægilega framtíðarsýn sem Stephan G. Stephansson sá um "Kveld" fyrir einni öld er orðin vor daglegi veruleiki: "En hugstola mannfjöldans vitund og vild / er villt um og stjórnað af fám."

En nú skal nefna nokkur dæmi um furðulega ­ en sennilega meðvitaða ­ túlkun úrslita alþingiskosninga undanfarinn aldarþriðjung ­ síðast í vor er leið.

1971: Samtök frjálslyndra og vinstri manna fá rúm 9% atkvæða og 5 þingmenn (­ 1 fljótlega!) ­ þar af tvo sem höfðu setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Eru jafnan í umræðunni talin vera stórsigurvegari kosninganna ­ enda féll "Viðreisnarstjórnin".

1978: Framsóknarflokkurinn missir þriðjung þingmanna sinna ­ átti 18 ­ fékk 12. Er almennt talinn hafa beðið afhroð (enda þótt honum sé falin forysta ríkisstjórnar)

1983: Bandalag jafnaðarmanna fær 4 þingmenn kjörna ­ einn þeirra hafði verið þingmaður Alþýðuflokksins. Árangurinn ekki ólíkur og hjá SFV áður. En nú ber svo við að hið nýja framboð er ekki talið hafa unnið neinn sigur! ­ (Skoðanakönnun hafði skapað væntingar í skýjum ­ og af þeim tóku fjölmiðlar og forystumenn nú mið.)

1995: Þjóðvaki ­ annað nýtt framboð utan um fv. þingmann Alþýðuflokksins ­ fær svipað fylgi og BJ áður og 4 þingmenn kjörna. Aftur ber svo við að fjölmiðlar miða við það sem "gerðist í huga Guðs" við getnað barnsins ­ og túlka úrslitin sem mikið tap! (Hafði þó framboðið engu að tapa miðað við fyrri kosningaúrslit.)

1999: Framsóknarflokkurinn tapar fjórðungi þingmanna sinna: ­ átti 16 ­ fékk 12 (Kristinn H. Gunnarsson var í þingflokknum fyrir kosningar líka). Það sem einhvern tíma hefði verið talið afhroð er nú í umræðunni alls ekki talið mikið tap ­ eða miklu minna en margir höfðu vænst. Sumir ganga svo langt að tala um "sigur" flokksins ­ og þá einkum formanns hans ­ í kosningunum! Það getur verið að þetta gangi sé verið að tala um blautlega drauma eftir erfiða martröð. En er þetta gild umræða um úrslit kosninga? Ekki þarf að taka það fram að flokkurinn sat áfram í ríkisstjórn.

1999: Samfylkingin ­ sameiginlegt framboð Alþýðuflokks, leifarinnar af Þjóðvaka og annarrar af Kvennalistanum, auk drjúgs hluta af klofnu Alþýðubandalagi, heldur til kosninga með 16 manna þingflokk ­ hefur tapað einum í sendiherrastól fyrir kosningar ­ þannig að 16 þingmenn teljast til hennar á kjördegi. Útkoman í kosningunum: Einn tapast. Sameiginleg túlkun fjölmiðla: Stórtap ­ jafnvel "afhroð".

1999: "Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð" er í fjölmiðlaumræðunni nær einróma talin hafa unnið stórsigur ­ fær 6 þingmenn, (þar af 2 sem áður höfðu verið í þingflokki Alþýðubandalagsins). Þetta er í samræmi við túlkunina frá 1971 ­ en tæpast þá frá 1983 eða 1995. Hér allt í einu er fortíðin núllstillt og gengið framhjá þeirri staðreynd að fyrir kosningar var undir merkjum forystunnar 6 manna hópur ­ þingflokkur ­ sem allir utan einn (Kristín Ástgeirsdóttir) leituðu endurkjörs. Helmingurinn féll hins vegar fyrir ofurborð í leit sinni að leið til áframhaldandi þingsetu ­ ýmist við ákvörðun framboðs í hópi "félaga" (eins og Guðrún Helgadóttir) eða þeir náðu ekki kjöri af listum sínum (Hjörleifur Guttormsson og Kristín Halldórsdóttir). Enda þótt þeir Steingrímur og Ögmundur hafi tekið með sér 4 nýja menn inn á þing er þingflokkurinn nýi ekki manninum liðfleiri en sá er fyrir var undir "Óháðu" nafni. Og hlutfallslega á flokkurinn langflesta fallkandidata.

Ef það er stórsigur að halda af þingi 6 og koma aftur 6 ­ en stórtap að fara 16 til kosninga og koma aftur 16 ­ þá hvorki skil ég kosningaúrslit né einföldustu hlutfallstölur. Þá er líka ástæða til að hafa áhyggjur af ályktunarhæfni ­ jafnvel stærðfræðiþekkingu ­ að ekki sé minnst á innræti ­ þeirra sem leyfa sér að túlka kosningaúrslit á þann hátt að telja 25% fækkun þingmanna Framsóknarflokkisins góða útkomu ­ fyrir hann? Eða er e.t.v. í því tilviki vísað til þjóðarinnar allrar?

Auk þess legg ég til að boðað verði til stjórnlagaþings um breytta kosningalöggjöf og önnur stjórnarskrármál.

Höfundur er forstöðumaður Sigurhæða.

Erlingur Sigurðarson