TRÍÓ Reykjavíkur hefur sína árlegu tónleikaröð í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, annað kvöld, sunnudagskvöld, kl. 20. Þetta er tíunda árið sem Tríó Reykjavíkur og Hafnarborg hafa samvinnu um tónleikaröð og af því tilefni verða tónleikarnir alls fimm á þessum vetri í stað fjögurra áður.
TÓNLEIKARÖÐ TRÍÓS REYKJAVÍKUR Í HAFNARBORG HEFST Á MORGUN ROSSINI OG SCHUBERT

Á FYRSTU TÓNLEIKUNUM

TRÍÓ Reykjavíkur hefur sína árlegu tónleikaröð í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, annað kvöld, sunnudagskvöld, kl. 20. Þetta er tíunda árið sem Tríó Reykjavíkur og Hafnarborg hafa samvinnu um tónleikaröð og af því tilefni verða tónleikarnir alls fimm á þessum vetri í stað fjögurra áður.

Á tónleikunum á morgun munu tveir gestir leggja tríóinu lið, þeir Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari og Sigurbjörn Bernharðsson, sem leikur jöfnum höndum á fiðlu og víólu, en Tríó Reyjavíkur skipa þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Gunnar Kvaran sellóleikari og Peter Máté píanóleikari.

Á efnisskrá þessara fyrstu tónleika í röðinni eru tvö verk eftir Rossini, kvartett fyrir tvær fiðlur, selló og kontrabassa og dúó fyrir selló og kontrabassa, auk Silungakvintetts Schuberts, fyrir píanó og strengi. "Rossini er nú þekktur fyrir annað í heiminum en kammertónlist, hann er fyrst og fremst frægur fyrir sínar óperur. Ég vissi það raunar ekki fyrr en nýlega að hann samdi sex sónötur fyrir þessa hljóðfæraskipan, tvær fiðlur, selló og kontrabassa, þegar hann var einungis tólf ára gamall. Þessu má eiginlega líkja við undrið Mozart, þetta eru svo geysilega vel gerð og þroskuð verk ­ og skemmtileg," segir Gunnar. Eitt þessara bernskuverka fá hlustendur að heyra í Hafnarborg annað kvöld. Guðný segir tvennt mjög óvenjulegt við verkið; samsetningu strengjahljóðfæranna, það að þar eru tvær fiðlur, selló og kontrabassi en engin víóla og það að tónskáldið dregur ekki fiðlurnar í dilka, eins og oftast var raunin á þeim tíma sem verkið er ritað. "Fyrsta fiðlan var oftast með allar erfiðu strófurnar meðan önnur fiðlan hummaði bara með. En þarna gerir Rossini engan greinarmun, fyrsta og önnur fiðla eru eiginlega í kappi hvor við aðra allan tímann," segir hún.

Dúóið er að sögn Gunnars samið árið 1824. "Þá var Rossini staddur í London og kynntist þar auðugum bankaeiganda, gyðingnum Sir David Salomons, sem lék á selló í frístundum. Hann bað Rossini um að semja verk fyrir selló og kontrabassa, sem hann greiddi ríkulega fyrir. Verkið var síðar frumflutt heima hjá auðmanninum, af Salomons sjálfum á selló og Dragonetti á kontrabassa. Verkið er í þremur köflum og gerir miklar virtúósískar kröfur til beggja hljóðfæra en það er mjög sjaldgæft að heyra dúóverk fyrir selló og kontrabassa. Og ég hef reyndar ekki orðið var við að það hafi verið flutt hér á landi áður," segir Gunnar.

Silungakvintettinn sívinsæli

Tónleikunum lýkur svo með hinum þekkta Silungakvintetti Schuberts, sem Gunnar segir eitthvert allra vinsælasta kammerverk sem samið hefur verið fyrir strengi og píanó. "Nafn sitt dregur kvintettinn af því að í millikaflanum notar Schubert lag sem hann hafði áður samið fyrir rödd og píanó, Die Forelle, eða Silungurinn, og gerir við það alveg stórkostleg tilbrigði," heldur hann áfram.

Aðrir tónleikar raðarinnar, 28. nóvember nk., verða helgaðir franskri tónlist. Þá verða leikin tríó eftir Fauré og Chausson og sónata eftir Franck. Gestur tríósins á sónötukvöldi 30. janúar verður píanóleikarinn Philip Jenkins og þar leikur hann og Guðný sónötur eftir Elgar, Beethoven og fleiri. Slavnesk tónlist verður leikin á fjórðu tónleikunum, 27. febrúar, tríó eftir Rachmaninoff, Schostakovitch og Smetana. Gestur á lokatónleikum raðarinnar verður tenórsöngvarinn Finnur Bjarnason. Á efnisskránni eru verk eftir Grieg, Jónas Tómasson, Beethoven og fleiri.

Morgunblaðið/Árni Sæberg Tríó Reykjavíkur ásamt gestum: Peter Máté, Sigurbjörn Bernharðsson, Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Kvaran og Hávarður Tryggvason.