TÁNINGURINN fullyrðir að hann geti ekki sofnað fyrr en eftir miðnætti. Á hverjum morgni þarf hróp og köll til að vekja hann svo hann verði ekki of seinn í skólann. Honum finnst mannkynssögutímarnir skemmtilegir, en það eru fyrstu tímarnir og hann á til að sofna í þeim. Svona er tilvera milljóna skólabarna og foreldra þeirra.

Þreyttir

táningar

þurfa meiri svefn

Washington, AP.

TÁNINGURINN fullyrðir að hann geti ekki sofnað fyrr en eftir miðnætti. Á hverjum morgni þarf hróp og köll til að vekja hann svo hann verði ekki of seinn í skólann. Honum finnst mannkynssögutímarnir skemmtilegir, en það eru fyrstu tímarnir og hann á til að sofna í þeim.

Svona er tilvera milljóna skólabarna og foreldra þeirra. Sé einhverjum huggun í að vita það, þá fullyrða vísindamenn að ekki sé við táningana að sakast; ástæða óreglulegs svefns táninga er líffræðileg, og það leysir engan vanda að skipa unglingnum að fara fyrr í háttinn.

Umfangsmiklar rannsóknir á svefnvenjum unglinga hafa leitt í ljós að þeir þurfa meiri svefn ­ níu klukkustundir og fimmtán mínútur ­ en þær átta klukkustundir sem mælt er með fyrir fullorðna. En þegar líður á kynþroskaaldurinn leysir líkaminn hormónið melatónín, sem hefur áhrif á svefn, úr læðingi á öðrum tímum en venjulega, og þá breytist hin venjulega dægursveifla sem stjórnar svefnvenjum fólks. Þótt táningurinn fáist til að slökkva ljósið klukkan tíu er allt eins líklegt að hann liggi vakandi fram yfir miðnætti.

Svefnskortur venst ekki

Í mörgum framhaldsskólum í Bandaríkjunum hefst kennsla klukkan 7.15 og unglingar þar í landi sofa að meðaltali 6,5 klukkustundir á nóttu, sumir mun minna. Svefnleysi dregur úr minni og heftir sköpunargáfuna, þannig að þreyttir unglingar geta ekki lært mikið.

Einnig bendir margt til þess að nægur svefn sé mikilvægur fyrir öflugt ónæmiskerfi. Það gerir svo illt verra, að margir vansvefta unglingar aka í skólann á morgnana, þegar þeir vildu helst vera sofandi. Ekki er vitað hversu mörg bílslys, þar sem unglingar eiga í hlut, má rekja til svefnskorts, en vísindamenn segja nauðsynlegt að rannsaka það.

Talið hefur verið að líkaminn aðlagist minni svefni, en dr. Mary Carskadon við Brown-háskóla í Bandaríkjunum segir svo ekki vera. Hún hefur gert ítarlegar rannsóknir á svefnvenjum unglinga. "Heilinn í manni venst þessu ekki," segir hún. Komið hefur í ljós, að margir unglingar geta sofnað djúpum svefni mun hraðar en fullorðnir.

En um hálfátta á kvöldin hætta unglingarnir að geta blundað, þegar hin óvenjulega dægursveifla þeirra fer að hafa áhrif og þeir verða glaðvakandi. Þessar niðurstöður hafa leitt til þess að í sumum skólum í Minnesotaríki hefur byrjun skóladagsins verið seinkað frá 7.20 til 8.30 á morgnana. Þótt enn sé of snemmt að fullyrða nokkuð segja rannsakendur að einkunnir nemenda hafi hækkað og dregið hafi úr hegðunarvandamálum.

Reuters Bandarískir unglingar sofa að meðaltali 6,5 klukkustundir á nóttu, sumir mun minna.