SAMKAUP hf. hefur keypt verslunina Vöruval í Bolungarvík af Benedikt Kristjánssyni kaupmanni og hafa nýir eigendur þegar tekið við rekstrinum, en Benedikt mun verða stjórnandi verslunarinnar fyrir þeirra hönd. Verslunin verður rekin með óbreyttu sniði fyrst um sinn, en síðar í vetur mun hún bætast í hóp Sparkaupsverslana sem þá verða einnig á Suðurnesjum, Austfjörðum og í Reykjavík.
ÐSamkaup hf. hefur keypt

Vöruval í Bolungarvík

SAMKAUP hf. hefur keypt verslunina Vöruval í Bolungarvík af Benedikt Kristjánssyni kaupmanni og hafa nýir eigendur þegar tekið við rekstrinum, en Benedikt mun verða stjórnandi verslunarinnar fyrir þeirra hönd. Verslunin verður rekin með óbreyttu sniði fyrst um sinn, en síðar í vetur mun hún bætast í hóp Sparkaupsverslana sem þá verða einnig á Suðurnesjum, Austfjörðum og í Reykjavík.

Samkaup hf. rekur nú verslanir í Reykjavík, Hafnarfirði, Bolungarvík og á Ísafirði og Suðurnesjum. Þá hafa Samkaup gert samkomulag við Austfirðinga um keðjusamstarf sem tekur gildi um næstu áramót. Innkaupum í verslanir Samkaups er stýrt frá skrifstofu félagsins í Reykjanesbæ, en félagið kaupir alla þurrvöru í samvinnu með Kaupási, KEA og fleiri kaupfélögum í gegnum Búr ehf. í Reykjavík.

Rekstrarhagnaður jókst um 30,4%

Rekstrartekjur Samkaups fyrstu sex mánuði þessa árs voru rúmlega 1,3 milljarðar króna samanborið við tæplega 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra, sem er 22,4% breyting milli ára. Rekstrargjöld jukust um 22,2% milli ára, en þau voru 1,3 milljarðar á fyrstu sex mánuðum þessa árs borið saman við tæplega 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður milli ára jókst um 30,4% eða úr 31,6 milljónum í 41,2 milljónir. Fjármagnsliðir á fyrri árshelmingi nú eru 2,5 milljónir króna, en voru rúmar 2 milljónir á sama tímabili í fyrra, og er hagnaður fyrir skatta nú rúmar 43,7 milljónir króna borið saman við rúmlega 33,6 milljónir í fyrra, eða 30% meiri.

Að sögn Guðjóns Stefánssonar, framkvæmdastjóra Samkaups hf., er hagnaðurinn á fyrri hluta ársins umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir og sagði hann útlit fyrir að seinni hluti ársins yrði ekki lakari.

"Það er samþjöppun á markaðnum og við höfum bæði tekið þátt í henni og horft á hana með opnum huga. Tíminn er hins vegar ekkert að rjúka frá okkur og ég dreg í efa að hinn almenni neytandi vilji að þetta lendi í höndum tveggja stórra aðila," sagði Guðjón.