LAGADEILD Háskóla Íslands efnir til málþings laugardaginn 2. október kl. 14­17, í Hátíðasal Háskólans, og verður þar fjallað um réttarþróun á ýmsum sviðum lögfræðinnar. Málþingið er haldið til heiðurs dr. Ármanni Snævarr prófessor, sem varð áttræður 18. september sl. Dr. Gunnar G. Schram prófessor stýrir málþinginu. Aðgangur að málþinginu er öllum opinn.
Málþing lagadeildar til heiðurs Ármanni Snævarr áttræðum

LAGADEILD Háskóla Íslands efnir til málþings laugardaginn 2. október kl. 14­17, í Hátíðasal Háskólans, og verður þar fjallað um réttarþróun á ýmsum sviðum lögfræðinnar. Málþingið er haldið til heiðurs dr. Ármanni Snævarr prófessor, sem varð áttræður 18. september sl.

Dr. Gunnar G. Schram prófessor stýrir málþinginu. Aðgangur að málþinginu er öllum opinn.

Dagskráin hefst með því að Jónatan Þórmundsson, forseti lagadeildar, flytur setningarávarp. Því næst flytur dr. Páll Skúlason, háskólarektor, ávarp. Að því loknu flytja erindi þau Guðrún Erlendsdóttir, hæstaréttardómari: Sifjaréttur á 20. öld ­ Breytingar á fjölskyldugerð, Sigurður Líndal, prófessor: Að selja þekkingu, dr. Páll Sigurðsson, prófessor: Straumhvörf í kirkjurétti.

Að loknu kaffihléi flytja erindi þau Jónatan Þórmundsson, prófessor: Þróun refsiréttar í ljósi mannréttinda, dr. Einar Sigurbjörnsson, prófessor við guðfræðideild: Upphaf laga vorra og dr. Ármann Snævarr flytur lokaorð. Því næst verður heimasíða lagadeildar formlega tekin í notkun og fundarlok.