Ef hvorki ættjarðarást né afbrýðisemi var ástæðan fyrir því að Gunnar sneri aftur heim, hver er þá skýringin á hegðun hans? Þeirri spurningu verður líklega seint svarað á óyggjandi hátt, en benda má á, að í þessum punkti sögunnar rís stílsnilld og listfengi höfundar Njálu einna hæst.

HVERS VEGNA

SNERI GUNNAR Á

HLÍÐARENDA AFTUR?

EFTIR ÞORVALD SÆMUNDSSON

Ef hvorki ættjarðarást né afbrýðisemi var ástæðan fyrir því að Gunnar sneri aftur heim, hver er þá skýringin á hegðun hans? Þeirri spurningu verður líklega seint svarað á óyggjandi hátt, en benda má á, að í þessum punkti sögunnar rís stílsnilld og listfengi höfundar Njálu einna hæst.

Flestum, sem lesið hafa Njálu, mun einna hugstæðastur sá kafli hennar, þar sem segir frá því, er þeir Gunnar og Kolskeggur bróðir hans búast til brottfarar frá Hlíðarenda og ríða til skips, albúnir þess að hlíta útlegðardómi sínum og hverfa af landi brott. Á leiðinni drepur hestur Gunnars niður fæti; hetjan stekkur úr söðlinum og verður henni þá litið upp til hlíðarinnar og bæjarins á Hlíðarenda og segir: "Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi." Kolskeggur biður hann halda áfram förinni, en Gunnar segir: "Hvergi mun eg fara og svo vildi eg að þú gerðir." Skildi þar leiðir með þeim bræðrum fyrir fullt og allt.

Mörgum mun hafa fundist sú skýring, á þeirri ákvörðun Gunnars að snúa aftur heim, einna nærtækust, að ættjarðarástin, þ.e.a.s. tengsl hetjunnar við heimahagana hafi hér ráðið úrslitum um þá ákvörðun. Hafa og sumir fræðimenn á sviði Njálurannsókna hallast að þeirri skýringu í ræðu og riti. Þá minnast margir orða Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Gunnarshólma:

"Því Gunnar vildi heldur bíða hel

en horfinn vera fósturjarðar ströndum,"

svo og annarra ljóðlína fyrr í því kvæði um hugrenningar Gunnars um landið. Vitanlega eru þau orð, sem skáldið leggur Gunnari í munn í kvæðinu, rómantísk skáldsýn Jónasar á landinu til forna en ekki orð Gunnars sjálfs. En fullvíst má telja, að landið og náttúra þess hafi haft djúp áhrif á marga landnámsmenn og afkomendur þeirra, eins og víða kemur fram í fornsögunum og einna gleggst má sjá af fjölmörgum örnefnum, er þeir gáfu ýmsum stöðum í landnámi sínu. Hvort sú ættjarðarást var lík þeirri tilfinningu, sem nútímafólk ber til landsins, skal hins vegar ósagt látið.

Nú hefur allnýstárleg skýring verið sett fram á hughvarfi Gunnars. Í Lesbók Morgunblaðsins, 26. tölubl. hinn 10. júlí sl., birtist grein um þetta efni eftir Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Heldur greinarhöfundur því fram að afbrýðisemi hafi ráðið gerðum Gunnars, er hann sneri heim aftur. Orðrétt segir greinarhöfundur: "Hver er hin sálfræðilega rétta skýring á hegðun hans? Hún er augljós, þegar Njála er vandlega lesin. Gunnar óttaðist, að í fjarveru hans myndi Hallgerður, kona hans, leggjast með öðrum mönnum. Þetta gat hann ekki þolað, og á þetta var hann minntur, þegar hesturinn drap niður fæti og hann leit upp til bæjarins á Hlíðarenda. Þar var Hallgerður." Nefnir greinarhöfundur máli sínu til skýringar, að Njáluhöfundur gefi í skyn, að um slíkt samband hafi verið að ræða milli hennar og Sigmundar Lambasonar, frænda Gunnars, og vitnar í því sambandi í 41. kafla Njálu, þar sem ýjað sé að samdrætti Hallgerðar og Sigmundar.

Dálæti Hallgerðar á Sigmundi virðist í sögunni aðallega stafa af því, að Sigmundur er sagður skáld gott og nýtti Hallgerður sér þann hæfileika hans til að eggja hann til að yrkja flím um Njál og Bergþóru og syni þeirra. Vera má, að Hallgerður hafi beitt kynþokka sínum til þess að örva Sigmund til dáða við kveðskapinn. En er sú skýring sennileg, að hetjan og glæsimennið Gunnar hafi óttast svo mjög, að meintir eljarar hans kæmust yfir Hallgerði í fjarveru hans, að hann sneri aftur af þeirri ástæðu og legði með því líf sitt í hættu? Sigmund Lambason þurfti Gunnar að minnsta kosti ekki að óttast, í því efni, er hann reið til skips, því að Sigmundur var þá löngu dauður, hann féll við lítinn orðstír fyrir öxi Skarphéðins í 45. kafla sögunnar.

Í 44. kafla Njálu segir frá því, er Gunnar kom heim af þingi. Þá hafði Sigmundur Lambason drepið Þórð leysingjason, fóstra (fóstbróður) Njálssona, en Gunnar bætt víg hans. Gunnar kom þá að máli við Sigmund og mælti: ,Meiri ertu ógiftumaður en eg ætlaði og hefur þú til ills þína mennt ... Ert þú mér ekki skaplíkur; þú ferð með spott og háð, en það er ekki mitt skap; kemur þú þér því vel við Hallgerði, að þið eigið meir skap saman."

Af þessari frásögn að dæma virðist Gunnar ekki líta á samband Sigmundar og Hallgerðar sem ástarsamband, heldur tengi þau saman óvildarhugur til hjónanna á Bergþórshvoli og sona þeirra. Sá skapgerðareiginleiki sé ríkur í báðum að reyna að koma illu til leiðar, svo að af hljótist vígaferli og vandræði, sem og raunin varð. Þá hlýtur og glögga lesendur Njálu að renna grun í, (enda sums staðar óbeint gefið í skyn í sögunni), að ást Gunnars til Hallgerðar hafi verið farin að kólna nokkuð, er hér var komið sögu, svo mikla skapraun og erfiðleika, sem ætla má að hann hafi oft haft af tiltækjum konu sinnar.

En ef hvorki ættjarðarást né afbrýðisemi var ástæðan fyrir því, að Gunnar sneri aftur heim, hver er þá skýringin á hegðun hans? Þeirri spurningu verður líklega seint svarað á óyggjandi hátt, en benda má á, að í þessum punkti sögunnar rís stílsnilld og listfengi höfundar Njálu einna hæst. Hann lætur lesandanum eftir að geta í eyðuna, hver ástæðan raunverulega var. Hefði höfundur látið Gunnar hverfa af landi burt, datt saga hans botnlaus niður og enginn hetjuljómi hefði leikið um kappann. Sagan varð að enda á dramatískan hátt, annað var ekki samboðið miklu listaverki. Hetjudauðinn varð óhjákvæmilega að vera endirinn á sögu Gunnars á Hlíðarenda.

Að síðustu skal minnt á orð Gunnars við Kolskegg, er leiðir þeirra skildi á bökkum Markarfljóts og áður er vikið að: "Hvergi mun eg fara og svo vildi eg að þú gerðir." Kolskeggur var svo mikill drengskaparmaður, að honum kom ekki til hugar að ganga á gerða samninga og rjúfa þannig sættina, kaus því heldur að fara. En í augum Gunnars hefur þetta ef til vill litið öðruvísi út, sættin verið hálfgerður nauðasamningur, sem hann gat illa sætt sig við. Kemur þessi hugsun skýrt fram í 78. kafla sögunnar, þar sem Gunnar er látinn kveða vísu í haugi sínum. Þar segir hann, að hann vildi heldur berjast og deyja með hjálm á höfði en vægja fyrir óvinum sínum. Hann hafði ekki, að þeirrar tíðar dómi, framið neinn stórglæp á við morð eða húsbrennu, þótt hann væri sekur fundinn fyrir mannvíg. Hann átti oftast hendur sínar að verja eða var að hefna fallinna ættingja og vina, er í odda skarst með honum og andstæðingum hans. Sjálfur lét Gunnar svo ummælt, að honum félli þungt að þurfa að vega menn og gengi nauðugur til þeirra verka. Hann hefur því líklega talið það réttlætanlegt að rjúfa sættina, láta óvini sína, þótt voldugir væru, ekki hrósa sigri og flæma sig úr landi sem ótíndan glæpamann frá óðali sínu og ættingjum og eiga máski ekki afturkvæmt til Íslands. Á þann hátt - að falla með sæmd - var samboðið hetjunni að hverfa af sjónarsviðinu með glæsibrag. Þannig hlaut hin stórbrotna og áhrifaríka saga hans að enda og verða ævinlega í minnum höfð.

Höfundurinn er fyrrverandi kennari í Reykjavík.

Gunnar og Hallgerður. Útsaumsmynd Sigríðar Einarsdóttur í Byggðasafninu í Skógum, gerð eftir málverki Tryggva Magnússonar.