NEYTENDASAMTÖKIN lýsa yfir vanþóknun á framferði fyrirtækja sem misnota aðstöðu sína til þess að forðast eðlilega samkeppni og halda þannig uppi óeðlilega háu verði á grænmeti og ávöxtum. Neytendasamtökin fagna rannsókn Samkeppnisstofnunar á heildsölufyrirtækjum á grænmetismarkaði og telja hana löngu tímabæra.
Neytendasamtökin boða aukið aðhald gegn verðhækkunum

Herða þarf aðgerðir gegn fákeppni

NEYTENDASAMTÖKIN lýsa yfir vanþóknun á framferði fyrirtækja sem misnota aðstöðu sína til þess að forðast eðlilega samkeppni og halda þannig uppi óeðlilega háu verði á grænmeti og ávöxtum. Neytendasamtökin fagna rannsókn Samkeppnisstofnunar á heildsölufyrirtækjum á grænmetismarkaði og telja hana löngu tímabæra. Ljóst er að grænmeti hefur hækkað verulega í verði umfram aðrar vörur á undanförnum árum vegna ofurtolla og fákeppni og þannig hefur neyslu á þessari hollustuvöru verið haldið í skefjum þvert á opinber manneldissjónarmið. Neytendasamtökin hafa ítrekað varað við þessari þróun á undanförnum árum.

Grænmetismarkaðurinn er því miður aðeins eitt dæmi um að fyrirtæki forðist eðlilega samkeppni og haldi þannig uppi verði á vörum og þjónustu. Verð á matvöru hefur til að mynda hækkað að undanförnu og að mati Neytendasamtakanna á vaxandi fákeppni og samruni fyrirtækja drjúgan þátt í þeirri þróun. Einnig telja Neytendasamtökin að verðhækkanir olíufélaga og tryggingafélaga á sama tíma bendi til að um samráð sé að ræða. Samtökin hvetja stjórnvöld því til að flýta endurskoðun samkeppnislaga með það í huga að gera samkeppnisyfirvöldum auðveldara að grípa til aðgerða gegn fákeppni og samráði.

Samtökin munu bregðast við hækkandi vöruverði með hertu aðhaldi og eftirliti enda er mikið í húfi fyrir neytendur. Vegna vísitölubindingar lána hafa verðhækkanir og aukin verðbólga alvarleg áhrif á skuldastöðu heimilanna. Samtökin óska eftir stuðningi almennings í landinu við þetta verkefni og hvetja neytendur jafnframt til þess að halda vöku sinni og láta samtökin vita um óeðlilegar verðhækkanir.

Sjaldan hefur verið meiri þörf en nú á því að neytendur í landinu bindist samtökum um að gæta hagsmuna sinna. Neytendasamtökin hyggjast því leita eftir stuðningi almennings til þess að efla starfsemi sína verulega. Á næstu vikum og mánuðum mega neytendur eiga von á símtali frá samtökunum þar sem þeim verður boðið að gerast félagar og taka þannig þátt í að efla aðgerðir samtakanna gegn verðhækkunum og fákeppni. Stuðningur almennings er Neytendasamtökunum mjög mikilvægur, þar sem þau byggja tilveru sína að langmestu leyti á félagsgjöldum frá almenningi."