NÝ rússnesk kvikmynd, Skyttan (Voroshilovskíj strelok), verður sýnd í bíósal MÍR, Vatnsstíg 10, sunnudaginn 3. október kl. 15. Mynd þessi hefur vakið mikla athygli og umtal í Rússlandi m.a.
Skyttan ­ ný rússnesk kvikmynd í MÍR

NÝ rússnesk kvikmynd, Skyttan (Voroshilovskíj strelok), verður sýnd í bíósal MÍR, Vatnsstíg 10, sunnudaginn 3. október kl. 15.

Mynd þessi hefur vakið mikla athygli og umtal í Rússlandi m.a. vegna þess að leikstjórinn Stanislav Govorúkhín, sem sæti á í dúmunni, rússneska löggjafarþinginu, fjallar á gagnrýninn hátt um ýmsar meinsemdir í rússnesku samfélagi svo sem glæpi og gróðahyggju, tillitsleysi og virðingarleysi gagnvart lögum og rétti, svartamarkaðsbrask og spillingu yfirvalda, segir í fréttatilkynningu.

Í kvikmyndinni segir frá öldruðum manni sem barðist á vígstöðvunum í síðari heimsstyrjöldinni og hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir vasklega framgöngu. Þegar dótturdóttur hans, unglingsstúlku, er nauðgað á hrottafenginn hátt af þremur ungum piltum og lögregluyfirvöld eru treg til að rannsaka málið og refsa glæpamönnunum, finnst afanum nóg komið og hann ákveður að taka til sinna ráða. Í hlutverki skyttunnar er frægur rússneskur leikari, Mikhaíl Úljanov, en stúlkuna Kötju leikur Anna Sinjakina. Myndin er sýnd ótextuð.

Á bíósýningartíma er einnig opin á Vatnsstíg 10 myndasýning helguð rússneska skáldinu Alexander Púshkín í tilefni 200 ára afmælis. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.