MJÖG er misjafnt hversu mikill kostnaður er við nemendur hinna ýmsu framhaldsskóla landsins. Er hann einna hæstur á hvern nemanda Listdansskólans eða 1.536 þúsund krónur en lægstur er hann í Verslunarskóla Íslands eða 301 þúsund krónur.

Misjafn kostnaður á hvern framhaldsskólanema

MJÖG er misjafnt hversu mikill kostnaður er við nemendur hinna ýmsu framhaldsskóla landsins. Er hann einna hæstur á hvern nemanda Listdansskólans eða 1.536 þúsund krónur en lægstur er hann í Verslunarskóla Íslands eða 301 þúsund krónur.

Framlag menntamálaráðuneytisins til almenns rekstrarkostnaðar dagskóla framhaldsskólanna verður á næsta ári rúmir 5,2 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Er það um 220 milljóna króna hækkun umfram verðlag. Gert er ráð fyrir að um 16.800 nemendur verði í dagskóla á næsta ári. Framlög til skólanna eru að miklu leyti byggð á sérstökum mælikvarða um það hversu mikið nám nemendur stunda miðað við námseiningar á einni önn og er þessi mælikvarði nefndur nemandaígildi.

Meðalkostnaður er þannig um 365 þúsund krónur á nemandaígildi í dagskóla án sérverkefna. Er hann lægstur í fjölmennum bóknámsskólum en hæstur í fámennum skólum á landsbyggðinni þar sem hann er á bilinu 400 til 600 þúsund krónur. Dæmi sem tekin eru af handahófi úr töflu fjárlagafrumvarpsins um þennan kostnað sýna að kostnaður við nemandaígildi er 517 þúsund kr. í Framhaldsskólanum á Laugum, 364 þúsund í Flensborgarskóla, 623 þúsund í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, 808 þúsund í Leiklistarskóla Íslands og 440 þúsund í Borgarholtsskóla.