ALÞJÓÐASAMNINGAR og umhverfismál voru til umræðu á Fiskiþingi sem lauk í gær. Formaður Fiskifélags Íslands segir ljóst að mikil samstaða sé innan sjávarútvegsins um að fylgjast með og taka þátt í umræðu um umhverfismál.
Umræðuhópar á Fiskiþingi Samstaða um

umhverfismál

ALÞJÓÐASAMNINGAR og umhverfismál voru til umræðu á Fiskiþingi sem lauk í gær. Formaður Fiskifélags Íslands segir ljóst að mikil samstaða sé innan sjávarútvegsins um að fylgjast með og taka þátt í umræðu um umhverfismál.

Þingfulltrúum á Fiskiþingi var skipað í umræðuhópa sem fjölluðu um ýmsar spurningar sem upp hafa komið varðandi umhverfismál í alþjóðlegu samhengi, t.d. mengun í hafinu, samstarf sjávarútvegs og stjórnvalda í umhverfismálum, áhrif umhverfismála á markaði og kynningu á alþjóðlegum vettvangi. Í umræðum spunnust talsverðar umræður um umhverfismerkingar á sjávarafurðum og hvernig að þeim skuli staðið. Ljóst þykir að enn er margt óljóst hvað umhverfismerkingar varðar en margir bentu á að FAO væri heppilegur vettvangur en lögðu áherslu á að Íslendingar verði virkir þátttakendur í mótun reglna. Lagt var til að Fiskifélagið óskaði eftir viðræðum við stjórnvöld um samstarf stjórnvalda og sjávarútvegs um stefnu í umhverfismálum. Þar komi að, auk Fiskifélagsins, fulltrúar utanríkisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, umhverfisráðuneytis og jafnvel landbúnaðarráðuneytis.

Enn er langt í land

Pétur Bjarnason, formaður Fiskifélags Íslands, sagðist ánægur með umræðurnar að þinginu loknu. Sagði hann umræðu um umhverfismál hafa farið vaxandi innan sjávarútvegsins að undanförnu. Á Fiskiþingi á síðasta ári hafi umræða um umhverfismál verið á almennum nótum en nú sé greinilegt að menn hafi öðlast meiri þekkingu og skilning á þessum málum. En enn væri langt í land. Nefndi hann sérstaklega að enn væri margt óljós hvað varðar umhverfismerkingar á sjávarafurðum. "Ástæðan fyrir því að sjávarútvegurinn hefur áhuga á þessum málum er auðvitað sú að hann vill hafa áhrif á hver lendingin verður í þessum málum. Ég held að allir séu þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn getur ekki þagað umhverfismálin í hel, eins og tilhneigingin virtist vera fyrir fáum árum. Menn eru hinsvegar ennþá að reyna að átta sig á því hvaða leiðir eru bestar. Einnig eru menn að gera sér betur grein fyrir því að óskir eða krafan um betri umgengni við auðlindina er ekki sett fram af illgirni, heldur er þar um sameiginlega hagsmuni að ræða."

Mikil gagnleg vinna verið unnin

Pétur sagði menn hafa rætt í hvaða farveg Fiskifélagið ætti að fara í umhverfismálaumræðunni og hvernig samstarfi við yfirvöld eigi að vera háttað. "Við höfum greint sama vilja hjá yfirvöldum og þar hefur greinilega verið unnin mikil vinna hvað varðar umhverfismál og mun betri en þegar umhverfismál voru til umræðu á Fiskiþingi fyrir fimm árum. Ég tel þannig að í þessum málum hafi mikil gagnleg vinna verið unnin á undanförnum árum og það verður örugglega þannig áfram."

Pétur segir Fiskifélagið fyrst og fremst vera samstarfs- og samvinnuvettvangur aðildarfélaganna. "Félagið á að vera tæki sem greinin á að nota sameiginlega til að menn séu ekki að vinna hver í sínu horni eða láta verk óunnin," sagði Pétur.