ÞÚSUNDIR rússneskra hermanna réðust í gær inn í Tsjetsjníu í kjölfar yfirlýsingar stjórnvalda í Moskvu þess efnis að hún viðurkenni ekki lengur stjórn Aslans Maskhadovs, forseta landsins. Meira en eitt þúsund brynvagnar og skriðdrekar tóku þátt í innrásinni sem náði um 15 kílómetra inn í landið.
Rússneskur her gerir

innrás í Tsjetsjníu

Washington, Berlín, Grozny. AFP, Reuters.

ÞÚSUNDIR rússneskra hermanna réðust í gær inn í Tsjetsjníu í kjölfar yfirlýsingar stjórnvalda í Moskvu þess efnis að hún viðurkenni ekki lengur stjórn Aslans Maskhadovs, forseta landsins. Meira en eitt þúsund brynvagnar og skriðdrekar tóku þátt í innrásinni sem náði um 15 kílómetra inn í landið. Rússneski herinn mun hafa náð um fimm þorpum á vald sitt en tsjetsjneskir hermenn segjast hafa fellt 10 menn úr innrásarliðinu. Tölurnar hafa ekki fengist staðfestar af rússneskum stjórnvöldum.

Í meira en viku hafa rússneskar herflugvélar gert stöðugar loftárásir á Tsjetsjníu og er talið að allt að 100.000 manns hafi flúið heimili sín vegna þeirra. Yfirvöld í Tsjetsjníu segja að tæplega 600 manns hafi látist í árásunum en flóttamenn hafa aðallega streymt til Ingúsetíu, nágrannaríkis Tsjetsjníu, þar sem þeir hafast við í tjaldbúðum. Stjórnvöld í Ingúsetíu hafa bannað sölu og neyslu áfengis í landinu af ótta við að áfengisneysla geti leitt til þess að átök brjótist út milli flóttamanna og innfæddra.

Áhyggjur á Vesturlöndum Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að stjórnvöld vestra hefðu áhyggjur af þróun mála í Tsjetsjníu en sagði þó að Bandaríkjamenn skildu að Rússar vildu ganga milli bols og höfuðs á hryðjuverkamönnum sem bæru ábyrgð á sprengingunum í fjölbýlishúsum Moskvu. Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, ræddi í gær símleiðis við Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um ástandið í Tsjetsjníu. Ráðherrarnir hvöttu ráðamenn í Moskvu og Tsjetsjníu til að hefja tafarlaust viðræður um pólitíska lausn deilunnar og sögðu að átökin væri aðeins hægt að leysa með friðsamlegum hætti.

Maskhadov, forseti Tsjetsjníu, hefur áður lýst því yfir í viðtali við þýska blaðið Frankfurter Rundschau að innrás Rússa í Tsjetsjníu hefði í för með sér allsherjarstríð í Kákasushéraði. "Við munum gleyma öllum okkar innri deilum," segir Makahdov í samtali við blaðið og bætir við að stríð muni leiða til þess að Rússland missi öll yfirráð sín í Kákasuslöndum.