Mikið verður lagt í hið spánnýja margmiðlunarbókasafn sem opnað verður í gamalli hallarbyggingu í hjarta Bologna á næsta ári. Höllin var eitt sinn kauphöll en hefur í gegnum aldirnar hefur hýst ýmiss konar viðskipta- og menningarstarfsemi. Á síðustu mánuðum hefur húsnæðið verið rýmt svo fyrir komist bókasafn sem mætir þörfum allra kynslóða upplýsingasamfélagsins.
STÆRSTA BÓKASAFN ÍTALÍU OPNAÐ Í BOLOGNA

FRÆÐASETUR

OG LIFANDI

SAMKOMUTORG

Mikið verður lagt í hið spánnýja margmiðlunarbókasafn sem opnað verður í gamalli hallarbyggingu í hjarta Bologna á næsta ári. Höllin var eitt sinn kauphöll en hefur í gegnum aldirnar hefur hýst ýmiss konar viðskipta- og menningarstarfsemi. Á síðustu mánuðum hefur húsnæðið verið rýmt svo fyrir komist bókasafn sem mætir þörfum allra kynslóða upplýsingasamfélagsins.

"Bókasafnið verður hið stærsta á Ítalíu, en rýmið telur 26 þúsund fermetra," segir doktor Anna Maria Brandinelli, bókasafnsfræðingur og faglegur ráðgjafi við uppsetningu safnsins. "Yfir 900 nettengdar tölvur verða til reiðu fyrir gesti auk 400 vinnusvæða til viðbótar þar sem fletta má upp í gagnagrunnum og ýmsu margmiðlunarefni. Þörfum stúdenta, barna og almennra borgara verður mætt á aðskildum hæðum, án þess þó að stíf aðskilnaðarstefna verði rekin."

Brandinelli segir að rík áhersla verði lögð á að laða almenna borgara að safninu. Borið hafi á ótta margra fullorðinna við hina hröðu tækniþróun upplýsingasamfélagsins, en með skipulagðri kynningu á kostum safnsins sé ætlunin að byggja upp breiðan hóp notenda. "Umberto Eco stýrir til að mynda áætlun sem nefnist "Súlnagöng fjarskiptanna", en súlnagöng eru einmitt einkenni arkitektúrs í Bologna og um þau er stöðug umferð fólks. Súlnagöngum boðskiptanna er ætlað að veita borgarbúum aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi og gera þá læsa ­ helst fluglæsa ­ í hinni nýju margmiðlunarveröld."

Fornleifar undir fótum gesta

Freskur frá 16. og 17. öld hafa verið afhjúpaðar við umbætur á kauphöllinni fyrrverandi, en við endurbæturnar hefur verið reynt að halda í upphaflega ásjónu og andrúmsloft byggingarinnar. Í sal sem um þrjátíu ára skeið gegndi hlutverki brúðuleikhúss verða nú barnabækur til útláns og gegnsætt gólf hefur verið lagt í aðalsalinn, sem í eina tíð var einmitt kenndur við kristal. Í gegnum glergólfið má svo sjá rómverskar rústir sem afhjúpaðar hafa verið og lýstar upp með flóðljósum, en rústirnar hafa um aldir hímt í myrkri og þögn í kjallara hússins.

Og þögnin verður að hluta til varðveitt, því gegnt rústunum í kjallaranum verður útbúin aðstaða fyrir fræðimenn og stúdenta sem þurfa næði til þess að vinna verk sín. Þar verður aðstaða fyrir 94 tölvur, þar af tengingar fyrir 30 fartölvur. "Í kjallaranum verður einnig aðstaða til sýningahalds, svo ekki verður skortur á upplyftingu fyrir þá sem kúra í þögninni," segir Brandinelli.

Hún útskýrir að þótt reynt sé að halda í horfinu þurfi ýmsu að breyta til þess að sníða sali hússins að hinni nýju starfsemi. "Til að mynda hefur verið byggt glerþak yfir miðrýmið sem hleypir inn mikilli dagsbirtu, auk þess sem mikill fjöldi kapla hefur verið lagður í loftstokka um allt húsið."

Að endingu útskýrir hún að fyrrnefndur aðalsalur með gólfinu gegnsæja sé hugsaður sem líflegt samkomutorg fyrir borgarana. "Þar verða kaffihús, bókabúðir og aðstaða til þess að fletta dagblöðum og tímaritum. Bókasafninu er nefnilega ætlað að vera í senn fræðasetur, upplýsingamiðstöð og lifandi vettvangur til félagslegra samskipta."

Morgunblaðið/Sigurbjörg Þrastardóttir Séð af þriðju hæð yfir aðalsalinn þar sem framkvæmdir eru í fullum gangi. Undir tréfjölunum leynist glergólfið.

Morgunblaðið/Sigurbjörg Þrastardóttir Súlur og mynstruð loft hússins eru nú máluð af kappi í upprunalegum stíl til þess að gleðja augu bókasafnsgesta.