SKELFISKUR ehf. hættir starfsemi eftir eina til tvær vikur, en þegar hefur 18 starfsmönnum fyrirtækisins verið sagt upp störfum. Þetta kom fram í samtali Morgunblaðsins við Jóhann Þór Halldórsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem sagði jafnframt að í bígerð væri að sameina fyrirtækið kúfiskvinnsludeild Hraðfrystistöðvar Þórshafnar.
Skelfiskur ehf. á Flateyri sameinast Hraðfrystistöð Þórshafnar Átján sagt

upp störfum

SKELFISKUR ehf. hættir starfsemi eftir eina til tvær vikur, en þegar hefur 18 starfsmönnum fyrirtækisins verið sagt upp störfum. Þetta kom fram í samtali Morgunblaðsins við Jóhann Þór Halldórsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem sagði jafnframt að í bígerð væri að sameina fyrirtækið kúfiskvinnsludeild Hraðfrystistöðvar Þórshafnar.

Af þeim 18 sem sagt hefur verið upp störfum, eru 7 sjómenn og þeir halda allir vinnunni. Þá eru 9 erlendir starfsmenn og þeim verður boðið að halda vinnunni og flytja til Þórshafnar, en það er þó háð samþykki félagsmálaráðuneytisins, að sögn Jóhanns.

Jóhann sagði að rekstur Skelfisks ehf., sem stofnaður var árið 1993, hefði frá upphafi gengið heldur skrykkjótt.

"Veiðarnar hafa gengið mjög illa í að verða eitt ár," sagði Jóhann. "Auk þess hefur fyrirtækið orðið fyrir miklum áföllum, eins og snjóflóði og skiptapa, sem hafa leikið það afar grátt. Þá hefur verið nokkurt basl með nýja skipið, sem var keypt til landsins frá Bandaríkjunum árið 1997."

Að sögn Jóhanns er búið að veiða mjög mikið á miðunum næst verksmiðjunni, þ.e. frá Horni og að Arnarfirði, og er veiðin núna komin niður fyrir hagkvæmnismörk. Hann sagði að svæðin sem veitt væri á þyrftu að vera úttekin og samþykkt af Fiskistofu til að flytja mætti út afurðina og því hefði fyrirtækið ekki getað veitt annars staðar. Hann sagði að hins vegar væri búið að taka út svæðið fyrir austan, í kringum Langanes, og það væri því tilbúið til veiða.

Sameinast á næstu vikum

"Sameiningin við Hraðfrystistöð Þórshafnar er háð samþykki hluthafa og lánardrottna félagana, en ef allt gengur að óskum ætti hún að geta gengið í gegn á nokkrum vikum.

Ýmsir kostir fylgja því að vera með verksmiðjuna fyrir austan. Þeir eru með stóra og mikla bræðslu og þessi skelvinnsla er að mörgu leyti lík bræðslustarfseminni. Hún er lík að því leytinu til að verið er að vinna mjög mikið magn af hráefni. Síðan í framhaldinu þá er ætlunin að nýta soðið sem kemur af skelinni og þá er mjög gott að sú þekking sé fyrir hendi á staðnum. Soðið er notað í bragðefni."

Jóhann sagði að veiðarnar á Flateyri hefðu verið tilraunaveiðar og menn hefðu lært mikið og mikillar þekkingar og reynslu verið aflað. Hann sagði að þetta væri erfiður veiðiskapur og að lítill markaður væri fyrir vöruna og fyrirtækin hefðu því séð hag sínum best borgið með að vinna þetta sameiginlega. Helsti markaðurinn fyrir vöruna er í Bandaríkjunum, en þar er varan vel þekkt og mikið notuð í súpur.

Einar Oddur Kristjánsson, einn af eigendum Skelfisks efh., sagði að það sem verið væri að gera nú væru neyðarráðstafanir. Hann sagði að þau mið sem fyrirtækið hefði fengið að veiða á hefðu verið að bregðast og því hefðu menn þurft að grípa í taumana. Hann sagði hinsvegar að mikið væri um gjöful mið við Vestfirði en að þau hefðu ekki verið tekin út og samþykkt af Fiskistofu.

"Við gerum okkur vonir um að geta hafið veiðar aftur fyrir vestan er fram líða stundir," sagði Einar Oddur.