Fimm félög, sem leika í efstu deild í knattspyrnu karla næsta sumar, hafa ekki fullnægt skilyrðum Knattspyrnusambands Íslands um skipulögð áhorfendastæði við velli sína. Félögin sem um ræðir eru ÍBV, Grindavík, Leiftur, Stjarnan og Fylkir. Þau eru misjafnlega langt á veg komin að vinna að úrbótum.


KNATTSPYRNA Úrbætur nauðsynlegar á fimm völlum í efstu deild Fimm félög, sem leika í efstu deild í knattspyrnu karla næsta sumar, hafa ekki fullnægt skilyrðum Knattspyrnusambands Íslands um skipulögð áhorfendastæði við velli sína. Félögin sem um ræðir eru ÍBV, Grindavík, Leiftur, Stjarnan og Fylkir. Þau eru misjafnlega langt á veg komin að vinna að úrbótum.

Lúðvík Georgsson, formaður mannvirkjanefndar Knattspyrnusambands Íslands, sagði að í reglum KSÍ um knattspyrnuvelli, sem samþykktar voru á ársþingi sambandsins fyrir nærri sjö árum, væri þess krafist að félög hafi yfir að ráða skipulögðum stæðum eða stúku fyrir fimm hundruð manns. Hann sagði að undirlag aðstöðunnar yrði að vera varanlegt, annað hvort úr steypu, malbiki eða tré. Hann sagði að þau félög, sem ekki uppfylltu þessi skilyrði, hefðu verið hvött til þess að framfylgja reglugerðinni.

Lúðvík sagði að félög í efstu deild hefðu fengið sex ára aðlögunartíma sem lauk í vor og að þeim tíma liðnum urðu félög að sækja sérstaklega um undanþágu, rökstudda beiðni og framkvæmdaáætlun, til KSÍ. "Það má gera ráð fyrir að kostnaðarætlun fyrir slíkri aðstöðu sé á bilinu 1,5 til 3 milljónir króna," sagði Lúðvík. Hann taldi að tekin yrði upp harðari afstaða af hálfu KSÍ næsta sumar sem þýddi að félög yrðu að gera upp við sig hvað þau ætluðu sér að gera í þessum málefnum.

Kjartan Daníelsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Fylkis, sagði að félagið hefði ekki tekið ákvörðun um hvort það hygðist hefja framkvæmdir við heimavöll liðsins. Páll Bragason, formaður rekstrarnefndar knattspyrnuvalla í Garðabæ, sagðist fullviss að vilji væri hjá bæjaryfirvöldum að taka á þessu máli og að fundað yrði um það á næstunni. Hann sagði að rekstrarnefndin hygðist láta kanna hvar hægt yrði að staðsetja stúku á vellinum og hvernig hún gæti litið út, en af slíkum framkvæmdum yrði ekki á næstunni.

Þorsteinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Leifturs, sagði að hugmynd Ólafsfirðinga væri að koma fyrir aðstöðu í brekku við völlinn og að hafin væri skoðun á þeirri hugmynd af fullri alvöru. Bjarni Andrésson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði að félagið og bæjaryfirvöld hygðust vinna að því að búa til lágmarks aðstöðu fyrir næsta vor og í framtíðinni væru hugmyndir um að byggja stúku við völlinn. Ekki náðist í Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum í gær vegna málsins.