SERBNESKA lögreglan umkringdi höfuðstöðvar stjórnarandstæðinga í Belgrad í gær, er hún reyndi að handtaka Cedomir Jovanovic, einn forystumanna Lýðræðisflokksins. Óeinkennisklæddir lögreglumenn mynduðu hring um skrifstofur regnhlífarsamtaka stjórnarandstæðinga, Bandalags um breytingar, sem hefur skipulagt mótmælin í Belgrad undanfarna daga.
Mótmæli í Belgrad Miðstöð stjórnarandstæðinga umkringd

Belgrad. AP, Reuters.

SERBNESKA lögreglan umkringdi höfuðstöðvar stjórnarandstæðinga í Belgrad í gær, er hún reyndi að handtaka Cedomir Jovanovic, einn forystumanna Lýðræðisflokksins.

Óeinkennisklæddir lögreglumenn mynduðu hring um skrifstofur regnhlífarsamtaka stjórnarandstæðinga, Bandalags um breytingar, sem hefur skipulagt mótmælin í Belgrad undanfarna daga. Síðdegis í gær hafði lögreglan ekki enn freistað inngöngu í bygginguna.

Jovanovic hefur verið í fylkingarbrjósti í mótmælunum gegn stjórnvöldum og ritstýrði hann bæklingi sem dreift hefur verið mótmælenda. Ritsjóri óháða dagblaðsins Glas Javnosti sagði fréttamönnum í gærmorgun að lögreglan hefði stöðvað útgáfu blaðsins, þar sem bæklingurinn hefði verið prentaður í prentsmiðju þess.

Hart tekið á mótmælendum

Serbneska óeirðalögreglan dreifði mótmælendum með valdi á fimmtudagskvöld, en leiðtogar mótmælenda eru hvergi bangnir og hyggjast halda mótmælunum áfram. "Í þetta sinn förum við alla leið," sagði Zoran Djindjic, formaður Lýðræðisflokksins, sem sjálfur mátti þola högg lögreglu á fimmtudagskvöldið.

Bandaríkjastjórn og Javier Solana, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, fordæmdu í gær aðferðir lögreglunnar og hvöttu yfirvöld í Serbíu til að tryggja að ekki verði tekið á friðsömum mótmælendum með ofbeldi.

Mótmæli stjórnarandstæðinga hófust rólega fyrir einni og hálfri viku, en síðan hafa æ fleiri tekið þátt, og á fimmtudag er talið að tugir þúsunda manna hafi mætt á mótmælafundi um alla Serbíu.

AP

Kona reynir að koma í veg fyrir að óeirðalögregla berji á eiginmanni hennar í Belgrad á fimmtudagskvöld.