Þrívíddarhönnun í sýndarveruleikanum er nýtt svið innan hönnunargeirans sem komið hefur fram á síðustu árum. Rafheimar Netsins eru orðnir gífurlega stórir og íbúar þeirra fjölmargir. ÞÓRHALLUR MAGNÚSSON ræddi við Sigrúnu Guðjónsdóttur arkitekt en hún hefur að undanförnu fengist við að hanna sýndarháskóla sem starfræktur verður inni á Netinu.
VERK:: SAFN'MENNINGARBLAD DAGS.:: 991002 \: SLÖGG:: samhengi við hvort a STOFNANDI:: HELGAG \: \:

ARKITEKT Í

RAFHEIMUM

Þrívíddarhönnun í sýndarveruleikanum er nýtt svið innan hönnunargeirans sem komið hefur fram á síðustu árum. Rafheimar Netsins eru orðnir gífurlega stórir og íbúar þeirra fjölmargir. ÞÓRHALLUR MAGNÚSSON ræddi við Sigrúnu Guðjónsdóttur arkitekt en hún hefur að undanförnu fengist við að hanna sýndarháskóla sem starfræktur verður inni á Netinu.

RAFHEIMARNIR gefa kost á að hanna sýndarheima þar sem setja má fram allt milli himins og jarðar ­ frá stærðfræðilíkönum til tölvuleikja ­ á myndrænan hátt. Kóðinn sem notaður er til að skrifa þrívíða heima er algildur kóði sem heitir VRML (Virtual Reality Modeling Language) og því geta allir komist inn á þessi svæði, sama hvaða tölvugerð er notuð. Inni á Netinu má finna fjölmörg samfélög eins og Cybertown og Active Worlds þar sem fólk getur valið um yfir 300 mismunandi heima, verslað í sýndarkringlum, numið land, byggt hús og ræktað garða, hitt fólk í formi rafgervinga, boðið því í heimsókn og spjallað saman, eða spilað leiki sem gerðir eru fyrir marga þátttakendur sem geta verið staðsettir hvar sem er í mannheimum.

Þrívíðir sýndarheimar Netsins eru ekki eingöngu leikvöllur tölvunörða og leikjaáhugamanna. Upplýsingasamfélög nútímans krefjast að fólk sé í stöðugri endurmenntun alla ævina. Hér koma rafheimarnir inn sem góð staðsetning fyrir háskóla og aðrar menntunarstofnanir þar sem fólk hefur ekki alltaf kost á því að taka sér frí úr vinnu til að sækja tíma í háskólum. Í Evrópu hafa háskólarnir gert sér grein fyrir nauðsyn endurmenntunar og að sýndarveruleikinn sé ákjósanlegur staður fyrir háskóla framtíðarinnar. Sumum kann að þykja þetta óheillandi tilhugsun en ef kostirnir eru skoðaðir þá sést að þeir eru mun fleiri og sterkari en gallarnir. Öll upplýsingaleit verður til dæmis mun auðveldari, textar í stafrænu formi eru aldrei í útláni á bókasöfnum, svo að biðlistar, týndar bækur eða skjöl og önnur slík taugastrekkjandi fyrirbæri falla úr sögunni. Listasöfn hafa einnig tekið þrívíddartæknina í sínar hendur og til eru söfn þar sem hægt er að brima um í sýndarheimum og skoða verk eftir þekkta listamenn.

Arkitektinn Sigrún Guðjónsdóttir hefur undanfarið staðið í smíðum á háskólasvæði sex þýskra háskóla sem staðsettir verða á sama háskólasvæðinu inni á rafheimum Netsins. Sigrún stundaði nám í arkitektúr við háskólann í Karlsruhe í Þýskalandi og lokaverkefni hennar var að hanna, forrita og setja upp háskólasvæði sem heitir ViKar (Virtueller Hochschulverbund Karlsruhe) og mun verða samstarfsverkefni háskólanna sex, þar sem nemendur geta sótt tíma í öðrum skólum en þeim sem þeir eru skráðir í. Háskólinn sameinar krafta hinna háskólanna og kemur fram sem eigin stofnun á Netinu. Allt nám fer að sjálfsögðu fram í gegnum tölvur og símalínur, kennarinn og samnemendur eru í formi rafgervinga en að öðru leyti er um hefðbundna háskólakennslu að ræða.

En hversvegna að setja upp háskóla inni í rafheimum? Í Þýskalandi hafa háskólarnir gert sér grein fyrir þeim breyttu kröfum sem nútímasamfélög setja um símenntun í öllum geirum mannlífsins. Stóru iðnfyrirtækin hafa verið afar hugfangin af verkefnum sem þessum og stjórnvöld hafa veitt mikið fjármagn í þróunarvinnu á sýndarveruleikanum. Hagræðingin fyrir stóru fyrirtækin ­ t.d. BMW og Mercedes Benz ­ er fólgin í því að nú þurfa þau ekki lengur að senda starfsmenn sína langar vegalengdir til að sækja tíma í háskólum eða sjálf að halda endurmenntunarnámskeið með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Nú geta þau sent starfsmenn sína í vinnutímanum í háskóla til að læra nýjustu tækni og vísindi og aukið þekkingu og þarmeð hagsæld fyrirtækjanna. Félagslegi þátturinn er einnig mikilvægur en honum eru gerð góð skil í þrívíðum heimi sýndarháskólans. Fjarnám í gegnum Netið tíðkast í dag hjá háskólunum en þar er ekki möguleiki að hitta samnemendur sína og mynda tengsl við fólk með sama áhugasvið.

Hvað leiddi til þess að Sigrún fór að hanna háskólasvæði með byggingum, torgum og götum í þrívíðu rými rafheimanna?

"Fyrsta tilraun mín með arkitektúr á Vefnum var í skólanum fyrir rúmum tveimur árum þegar ég fékk hönnunarverkefni sem átti að skila í formi heimasíðu. Þá fór ég að fást við arkitektúr á Netinu með AutoCAD-teikningum og þrívídd. Ég fór að hugsa um hvernig maður gæti notað Netið og tölvur fyrir arkitektúr almennt en var þó ekki farin að stefna á þrívíddarhönnun á þeim tíma. Eitt leiddi af öðru og ég fór að fást sífellt meira við tölvur. Að lokum gerðist það að mér var boðið að hanna þennan sýndarháskóla sem lokaverkefni. Í verkefninu fólst að hanna sýndarheim sex háskóla á einu háskólasvæði, formgerð hans og útlit. Ég kynnti mér hvernig staðið hafði verið að fjarnámi hjá háskólunum og sá að það skorti á félagslega þáttinn og því hafði ég hann í huga er ég hannaði umhverfi háskólans.

Ég eyddi miklum tíma í að hugsa um hvernig heimur þetta ætti að vera, því í rafheimum sleppum við að hugsa um svo margt sem hefðbundinn arkitektúr þarf að fást við. Í rafheimum eru engin þyngdarlögmál, það blæs hvorki né rignir og í raun gilda allt önnur lögmál á öllum sviðum en í raunveruleikanum. Samt sem áður verður fólk að finna sig í þessum heimum og skilja þá. Þessvegna ákvað ég að nota götur, torg og einhverskonar byggingar þó að þær séu stundum bara línur eða ­ eins og í tilfelli fyrirlestrarýmanna ­ hljómur. Ég ákvað að hafa heiminn á einum fleti þó að möguleikinn á að hafa hann á mörgum hæðum sé að sjálfsögðu fyrir hendi. Allan tímann þurfti ég að passa mig á að verða ekki of abstrakt og halda í raunveruleikatilfinninguna. Þannig notaði ég ekki alla möguleika miðilsins. Ég stillti til dæmis þyngdarlögmálið þannig að fólk er alltaf á jörðunni en það er að sjálfsögðu ekki nauðsynlegt. Það væri eflaust of framandi fyrir fólk sem einungis ætlar sér í háskóla að þurfa allt í einu að læra að fljúga um á milli bygginga. Líklega myndi ég hanna heiminn allt öðruvísi eftir þrjú ár, en það verður að taka tillit til þess að í dag eru sýndarheimar of framandi fyrir fólk og það tekur vissulega tíma að læra lögmál nýs veruleika. Þeir sem hafa verið mikið í tölvuleikjum eiga hinsvegar ekki í neinum vandræðum með að skilja þessa heima og hér er því um visst kynslóðabil að ræða." Arkitektúrinn á sér langa og viðburðaríka sögu sem tengist listasögunni og hugmyndaheimi samfélagsins almennt. Eru straumar og stefnur í arkitektúr sýndarheimanna?

"Nei, það er enginn einkennandi stíll fyrir þessa heima. Í raun og veru er um fullkomna óreiðu að ræða. Þar sem almenningur á eftir að hanna hús sín sjálfur, án hjálpar arkitektsins, tel ég að hann eigi eftir að líkja ósjálfrátt eftir húsum úr raunveruleikanum. Ég held að fólk sé bara að þreifa sig áfram, en það er enginn viss stíll í gangi. Hinsvegar sér maður vissar hneigðir í átt að gífurlegu raunsæi og nákvæmar eftirlíkingar af hlutum úr raunveruleikanum. Hversvegna gerum við þetta? Byggingar geta verið svífandi, á hreyfingu, of stórar eða of litlar ­ hvað er "of" í þessu sambandi? ­ og ég tel að í framtíðinni munum við venjast allt öðrum hlutum í sýndarveruleikanum en tíðkast í dag. Við þurfum til dæmis ekki að skipuleggja upplýsingar í myndrænu formi skrifborðs, með skjölum, möppum og slíku, heldur má þróa allt annað kerfi. Þetta er bara sá raunveruleiki sem við þekkjum í dag og hann tökum við með okkur inn í sýndarveruleikann.

Hérna komum við inn á hitt sviðið sem ég hef mikinn áhuga á. Það er að búa til heim þar sem maður getur safnað upplýsingum sínum saman og skipulagt þær sjónrænt þannig að maður er ekki bara með möppur og skjöl, eins og fólk þekkir úr Windows- umhverfinu, heldur þrívíddarheim þar sem hægt er að tengja skjöl með öllum mögulegum hætti og skipuleggja þannig hugmyndaheim sinn á allt annan hátt en við eigum nú að venjast. Þetta er því þrívíddarheimur tengdur persónulegum gagnabanka. Slíkir myndrænir upplýsingaheimar geta svo þróast út í að vera fjölnotendaumhverfi þar sem fólk getur boðið hvert öðru inn í sinn upplýsingaheim eða a.m.k. hluta af honum."

Aftur að sýndarháskólunum. Hvernig fer kennslan fram í þessum háskólum?

"Í raun er þetta ekki svo ólíkt venjulegum háskólum. Hver háskóli býður upp á námskeið sem "raunverulegir" prófessorar halda inni í sölum sýndarbyggingarinnar. Nemendur skrá sig á námskeið og fá aðgang að rafgerving sem er staðgengill þeirra inni í heiminum. Þeir sækja svo tíma í ákveðnum fögum í ákveðnum skólastofum, rétt eins og í raunveruleikanum. Þar inni getur prófessorinn sem er líka í formi rafgervings sýnt myndbönd, kyrrmyndir, kallað upp gröf, líkön og teikningar eða texta. Allt eru þetta skjöl sem nemandinn getur svo tekið með sér heim og skoðað þar. Þar sem um margnotendaumhverfi er að ræða, þá geta samræður orðið jafn stór hluti kennslunnar og í hefðbundnum háskólum. Nemendur geta einnig hist í salarkynnum háskólans og rætt námið eða bara um daginn og veginn."

Í rafheimum eru allir hlutir ritaðir með tölvukóðum. Er því ekki einfalt að breyta t.d. háskólasvæðinu eftir því hvernig kennsluhættir háskólans breytast?

"Jú, því inni í stafrænum heimum er auðvelt að hafa alla hluta staka. Hvert hús getur verið stakur kóði sem er sóttur í hvert skipti sem heimurinn er hlaðinn. Þannig má á mjög auðveldan hátt breyta stökum hlutum án þess að breyta sjálfum heiminum í aðalkóðanum. Þetta notaði ég þegar ég forritaði háskólaheiminn og því verður mjög auðvelt að aðlaga hann að breyttum aðstæðum. Þetta er líka notað í flestöllum heimum eins og Colonycity eða Active Worlds á Netinu. Þessir heimar eru vinsælir margnotendaheimar þar sem maður getur hannað eða valið sitt eigið hús af heimasíðu heimsins."

Sérð þú fyrir þér að fólk eigi eftir að eyða sífellt meiri tíma í rafheimum og ef svo er, hvaða afleiðingar telur þú að það hafi á samfélag manna?

"Í framtíðinni munu örugglega flestir í hinum vestræna heimi verða nettengdir og fara að byggja sér hús og önnur umráðasvæði inni á Netinu. En við erum enn að bíða eftir byltingunni. Ef tæknin og mannleg hugsun þróast í samhengi við hvort annað, þá má búast við því að menningin fari að taka við sér mjög fljótlega, því við erum að verða tilbúin með nauðsynlegustu tæknina. Töluvert hefur verið skrifað um breytt hátterni fólks inni í rafheimum, bæði af sálfræðingum og félagsfræðingum og margt af þessum skrifum hefur verið mjög athyglisvert. Ég man til dæmis eftir einu dæmi þar sem manni var refsað fyrir að hafa eytt barþjóni og herbergjum í einhverjum heiminum með því að forrita hlutina burt og það átti að refsa honum með því að neita honum um aðgöngu að heiminum. Þetta var svo skelfileg tilhugsun fyrir viðkomandi að hann bað um að verða refsað frekar í raunveruleikanum þannig að hann gæti haldið áfram að vera til í sýndarheiminum. Mér fannst mjög merkilegt að heyra þetta og ég er ekki viss um að allir sem eru að hanna þrívíddarheima geri sér grein fyrir því hvaða sálfræði liggur hér að baki."

(Heimasíða Sigrúnar er: www.sigrun.com og þaðan má komast inn á aðra vefi, t.d. inn á háskólasvæðið.)

Morgunblaðið/Jim Smart Hér sjáum við mynd úr lofti þar sem horft er niður á aðaltorg háskólans. Ef glöggt er gáð má sjá bláan rafgerving standa á torginu, en hann getur leitt mann um háskólasvæðið. Vinstra megin á myndinni má sjá yfirlitsteikningu af háskólasvæðinu með hinum mismunandi einingum sýndarháskólans.

Sigrún Guðjónsdóttir