Til 10. október. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 12­18. Aðgangur kr. 300. KRAFTUR og áræði hafa einkennt vinnubrögð Ólafs Lárussonar frá því hann fór að sýna um miðjan áttunda áratuginn. Ólíkt svo mörgum löndum sínum sem velja yfirvegun frekar en óbeislaðan hamagang hefur hann gefið sig út fyrir að vera maður hendingar, stundlegra athafna og útrásar.
Bárujárn og gaddavír MYNDLIST Listasafn Kópavogs SKIPAN ÓLAFUR LÁRUSSON Til 10. október. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 12­18. Aðgangur kr. 300. KRAFTUR og áræði hafa einkennt vinnubrögð Ólafs Lárussonar frá því hann fór að sýna um miðjan áttunda áratuginn. Ólíkt svo mörgum löndum sínum sem velja yfirvegun frekar en óbeislaðan hamagang hefur hann gefið sig út fyrir að vera maður hendingar, stundlegra athafna og útrásar. Á tímabili var sem eitthvað hefði dregið úr þessum eiginleikum; Ólafur hefði glatað einhverju af fyrri þrótti sínum eða ætti erfitt með að finna sér grundvöll sem byði upp á slík vinnubrögð. Í Listasafni Kópavogs er sem hann hafi endurheimt það sjálfsprottna verklag sem forðum einkenndi bestu verk hans. Ólafur er nefnilega kominn í beinan karllegg frá aksjónlistamönnum fimmta og sjötta áratugarins ­ Pollock og Allan Kaprow ­ með viðkomu í gjörningamönnum áttunda áratugarins ­ Marinu Abramovic, Gordon Matta-Clark og Chris Burden. Eftir svipuðu ferli og áðurnefndir listamenn rataði Ólafur veg hinnar líkamlegu útrásarlistar þar sem sprengikraftur, glerbrot og tættur efniviður lá eftir sem vitnisburður stundlegs æðis. Slík tjáning lýsir brotinni heimsmynd, sem framkvæmdagríð mannsins hefur splundrað enn frekar, með sterkum dramatískum og tilfinningaþrungnum hætti. Hafi Ólafur dregið sína eigin líkamlegu nærveru út úr verkum sínum stendur eftir sem áður hin harkalega ásýnd menningarinnar og mannlegra athafna í líki efniviðar sem hvarvetna setur svip sinn á íslenskan veruleik. Gaddavír og bárujárn eru táknmyndir íslenskrar menningar til sjávar og sveita. Hvergi komumst við undan almætti þessa efniviðar, sem annars vegar markar okkur landfræðilegan bás til sveita, eða hylur hýbýli okkar svo rausnarlega að hver ferðalangur sem hingað leggur leið sína bryddar upp á umræðu um þetta augljósasta sérkenni íslenskrar húsagerðar? Með léttleika sem honum einum er lagið breiðir Ólafur úr bárujárni sínu og gaddavír í vestursal Listasafns Kópavogs, og bætir við lífrænum efniviði; torfi, grjóti og hríslum. Þannig endurskapar hann manngert, íslenskt landslag í safninu og minnir okkur á órjúfanleg tengsl menningar okkar við þjóðlegan efnivið. Með best heppnuðu einingum þessarar sérstæðu skipanar má nefna gaddavírinn á suðurvegg salarins. Þar leiðir listamaðurinn saman teiknarann í sér og gjörningamanninn með óvenjulega frjóum hætti. Það er óhætt að mæla með þessari óvenjulegu sýningu Ólafs. Betur hefur hann ekki gert í fjölda ára. Halldór Björn Runólfsson Frá sýningu Ólafs Lárussonar í Listasafni Kópavogs.