ENDURBÓTUM á húsinu í Amsterdam sem Anna Frank faldist í meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð er lokið eftir tíu ára framkvæmdir. Beatrix Hollandsdrottning og Claus prins, Richard von Weizsaecker, fyrrverandi forseti Þýskalands, og Miep Gies, konan sem hjálpaði Önnu og sjö öðrum að felast, voru á meðal gesta.
Endurbætur á húsi Önnu Frank

Angar

aftur af

kryddi

ENDURBÓTUM á húsinu í Amsterdam sem Anna Frank faldist í meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð er lokið eftir tíu ára framkvæmdir. Beatrix Hollandsdrottning og Claus prins, Richard von Weizsaecker, fyrrverandi forseti Þýskalands, og Miep Gies, konan sem hjálpaði Önnu og sjö öðrum að felast, voru á meðal gesta.

Anna skrifaði fræga dagbók sína meðan hún, fjölskylda hennar og fjórir aðrir gyðingar földu sig fyrir hersetuliði nasista í þröngum bakherbergjum húss við Prinsengracht- skurðinn þar til þau voru svikin og handtekin í ágúst árið 1944. Endurnýjunin á safninu, sem var gerð án þess að safninu væri lokað, fór ekki fram á felustað Önnu heldur öðrum hlutum hússins.

Rætist þar með ósk föður Önnu um að framhluti hússins, þar sem krydd- og sultufyrirtæki hans var til húsa, væri endurbyggður í upprunalegt horf. Otto Frank var sá eini af þeim átta gyðingum sem földust í húsinu til að lifa stríðið af og lést árið 1980.

Með stuðningi ljósmynda, upphaflegrar gólfteikningar af húsinu og minnis Miep Gies hefur Önnu Frank-stofnunin endurskapað andrúmsloftið á skrifstofu fyrirtækisins eins og það var á fimmta áratugnum, - að kryddlyktinni meðtalinni.

Jafnvel þótt Anna hafi eytt mestum tíma í felum gegndu fremri herbergin einnig hlutverki í lífi Önnu, segir Hans Westra, stjórnandi safnsins. "Við vonum að gestir verði ráðvilltir þegar þeir ráfa um fremri hlutann. Þeir verða að fá það á tilfinninguna að einhvers staðar séu falin herbergi." Áður gátu gestir gengið beint inn í felustaðinn.

Felustaðurinn er nánast alveg tómur, alveg eins og hann leit út rétt eftir handtöku og brottflutning Önnu Frank, vegna þess að nasistar fjarlægðu húsgögnin. Aðeins bókaskápurinn sem hylur inngönguleiðina varð eftir.

En sérfræðingar hafa verið fengnir til að stuðla að varðveislu fölnandi mynda og póstkorta af kvikmyndastjörnum sem Anna festi á svefnherbergisvegginn. "Bakvið sumar myndirnar fundum við aðrar sem Önnu hefur líklega þótt of barnalegar eftir nokkra hríð," segir einn sérfræðinganna.

Á safninu er að fá upplýsingar um líf Önnu í Bergen-Belsen vinnubúðunum þar sem hún lést úr flekkusótt nokkrum vikum áður en fangarnir voru frelsaðir. Í nýrri byggingu við hlið safnahússins er hægt að leita almennra upplýsinga um helförina.

Kaffihúsi og sýndarveruleikaferð um húsið á tölvu hefur einnig við bætt við. Með stækkuninni verður auðveldara að taka á móti miklum fjölda gesta, sem voru 822 þúsund í fyrra. "Við erum stolt af því að hafa aldrei þurft að loka safninu meðan á endurnýjuninni stóð. Við vitum hversu mikla þýðingu heimili Önnu Frank hefur fyrir gesti," segir Westra.

Skápurinn sem gengið var um í felustað Önnu Frank.

Forvitinn gestur skoðar upprunalega dagbók Önnu.

Dagbók Önnu hefur verið gefin út á ótal tungumálum.