SAKURA-bankinn í Japan og Deutsche Bank í Þýzkalandi hafa gengið í verðbréfabandalag, sem mun fela í sér að bankarnir taka að sér að vera ábyrgðaraðili á skulda- eða verðbréfaútgáfu viðskiptavina víða um heim.
Deutsche í bandalag með Sakura



Tókýó. Reuters,

SAKURA-bankinn í Japan og Deutsche Bank í Þýzkalandi hafa gengið í verðbréfabandalag, sem mun fela í sér að bankarnir taka að sér að vera ábyrgðaraðili á skulda- eða verðbréfaútgáfu viðskiptavina víða um heim.

Bankarnir sögðu í sameiginlegri tilkynningu að verðbréfadeildir þeirra í Tókýó mundu taka upp samstarf í október.

Bandalagið mun gera okkur kleift að hagnýta okkur yfirgripsmikla þekkingu Deutsche Bank Group á sviði skulda- og verðbréfa og þar að auki alþjóðlegt sölunet bankans," sagði bankastjóri Sakura, Akishige Okada, í yfirlýsingu.

Bandalagið veitir stærsta banka Þýzkalands aðgang að japönskum stórfyrirtækjum, sem eru meðal viðskiptavina Sakura, og gerir honum kleift að eiga við þau ábatasöm viðskipti. Sum þessara fyrirtækja tilheyra Mitsui-samsteypunni.