Í DAG hefjast í Háskólabíói sýningar á tveimur stuttmyndum; Old Spice og Lost Weekendeftir Dag Kára Pétursson, sem unnu til verðlaun á heimilda- og stuttmyndahátíðinni Nordisk Panorama. Sýningarnar verða fjórar; í dag og á morgun kl. 20 og á mánudag og þriðjudag kl. 22, og er miðaverð 400 krónur.
Háskólabíó sýnir "Old Spice" og "Lost Weekend"

Tómleiki og æðri

máttarvöld

Dagur Kári tekur smáatriði fram yfir atburðarás, hengir ekki persónur upp á söguþráð og vill fyrst og fremst gera persónulegar myndir. Hildur Loftsdóttir skráði.

Í DAG hefjast í Háskólabíói sýningar á tveimur stuttmyndum; Old Spice og Lost Weekend eftir Dag Kára Pétursson, sem unnu til verðlaun á heimilda- og stuttmyndahátíðinni Nordisk Panorama. Sýningarnar verða fjórar; í dag og á morgun kl. 20 og á mánudag og þriðjudag kl. 22, og er miðaverð 400 krónur.

Old Spice, sem Canal+ veitti Degi Kára sérstök leikstjórnarverðlaun fyrir, gerist á rakarastofu hér í bæ þar sem framliðinn fastakúnni heldur áfram að koma í klippingu. Það eru Rúrik Haraldsson og Karl Guðmundsson sem fara með aðalhlutverkin. Lost Weekend, sem var valin besta stuttmynd hátíðarinnar, er hins vegar lokaverkefni hans frá Danska kvikmyndaskólanum og segir frá plötusnúð sem vaknar upp eftir mikla drykkju og hefur ekki hugmynd um hvar hann er.

Faldi sig á klósettinu

"Ég hafði lengi haft áhuga á kvikmyndum, en það var á fyrsta ári í menntaskóla að það rann upp fyrir mér að kvikmyndaleikstjórn gæti verið samnefnari fyrir það sem ég var að grúska, eins og t.d. tónlist, skriftir og ljósmyndadelluna sem ég var með á þessum tíma. Ég þyrfti ekki að einbeita mér að einu heldur gat ég frestað ákvörðuninni um hvað ég ætlaði verða þegar ég yrði stór.

Svo á kvikmyndahátíð Listahátíðar 1988 datt ég alveg inn í þennan heim. Ég borgaði mig inn á þrjú- sýningu, og faldi mig svo á klósettinu á milli sýninga og kom út eftir ellefu-sýningu. Ég sá í fyrsta skipti myndir eftir Jarmusch, Kaurismaki, Wenders og þær höfðuðu strax mjög sterkt til mín, þessar litlu ófullkomnu myndir sem beinast meira að smáatriðum heldur en einhverjum stórum atburðarásum."

Rakarinn hans afa

"Old Spice er gerð eftir handriti sem ég skrifaði þegar ég sótti um í skólann. Ég ætlaði upphaflega að gera stuttmynd en fékk rangar upplýsingar um skilafrestinn, og varð að láta handritið nægja. Ég bjóst ekki við að það yrði nokkurn tímann að mynd, en svo sendi ég það í Kvikmyndasjóð og fékk framleiðslustyrk og tókst að búa hana til.

Kveikjan að sögunni er sú að afi minn hafði sama rakara í áratugi, og þegar hann lá á spítala þá fór rakarinn líka þangað til að klippa hann. Þegar afi dó hélt rakarinn sambandi við fjölskylduna til að missa ekki alveg þennan þátt úr sinni tilveru.

Það var stór upplifun að vinna með Rúriki og Karli sem hafa fimmtíu ára leikreynslu að baki og ég ekki einu sinni skriðinn úr skóla. En þeir létu mig aldrei finna fyrir því, heldur unnum við allan tímann á jöfnum grundvelli."

Persónuleikinn byggist á göllunum

­ Þú hefur þá vent kvæði þínu í kross við það að fjalla um tilveru ungs fólks í "Lost Weekend"?

"Já, það er stórkostlegur munur á þessum tveimur myndum og varla hægt að sjá að þær séu eftir sama leikstjóra, enda allt annað uppi á teningnum þá.

Þessi lokamynd var búin að vofa yfir mér í fjögur ár, og fólk sagði að hún væri aðgöngumiði út í bransann. Ég hafði alltaf búist við að þegar að því kæmi yrði ég tilbúinn með sögu og allt, en það var ekki og ég lenti í dálítilli kreppu. En þá fengum við mjög góðan kennara sem fékk okkur til að hugsa um hvað okkur langaði til að sýna heiminum, hvað okkur langaði til að segja. Þetta reyndist einstakt tækifæri til þess að skilgreina fyrir sjálfum sér hvernig maður vill gera bíómyndir. Margir hefðu eflaust reynt að gera bíómynd sem yrði hnökralaus og höfðaði til breiðs hóps svo allir gætu séð eitthvað gott í því, en við reyndum að fara í gagnstæða átt við það. Kennarinn kom líka með ákveðna kenningu um að myndir ættu fyrst og fremst að vera persónulegar, og að persónuleiki hvers og eins væri byggður á göllum viðkomandi. Í staðinn fyrir að vera endalaust að slípa alla vankanta, voru þeir allt í einu orðnir gulls ígildi. Það var mjög gaman að gera þessa mynd, og það losnaði um stíflu hjá okkur öllum við það að beina verkefninu inn á þessa braut."

Myndstíllinn úr tímaritum

­ Hvað vildir þú sýna heiminum?

"Ég var þá mjög upptekinn af ákveðnum tómleika sem mér fannst vera í tilverunni. Og af þessari tilfinningu sem maður hefur að annars vegar séu æðri máttarvöld að stýra lífi manns, og á hinn bóginn að það sé ekki neitt. Þetta eru kannski dálítið hátíðleg efni, en fyrst og fremst vildi ég gera mynd sem yrði skemmtileg upplifun.

Ég var líka mjög heillaður af lífsstílsblöðum og tímaritum fyrir ungt fólk; ID, Dazed & Confused og Face. Myndstíllinn á sér fyrirmyndir í þessum blöðum sem eru mjög yfirborðskennd en ég vildi nota þessa fagurfræði án þess að vera yfirborðskenndur; vera með þyngri undirtón og meiri dýpt í sögunni."

­ Ertu meira þú en í Old Spice?

"Já, ég held það mætti segja það. Old Spice var svolítið hliðarspor. Lost Weekend er meira eftir þeim leiðum sem ég er að kanna núna." Þarf kvikmynd að ríghalda?

"Mér finnst skemmtilegra að sýna hvernig fólk er, og hvernig fólk bregst við, heldur en að hengja persónurnar upp á einhvern söguþráð sem maður verður svo að fylgja eins og hverju öðru járnbrautarspori. Það er stór spurning hvort kvikmynd þurfi að ríghalda frá upphafi til enda. Hvort hún megi ekki vera meira eins og geisladiskur, þar sem eitt lag er frábært, annað ballaða, eitt svolítið misheppnað og eitt stuðlag."

­ Og hvert atriði er þá eins og eitt lag?

"Já, mér finnst það mjög skemmtileg hugmynd að taka hvert atriði eins og sjálfstæða mynd, eða reyna það. Í staðinn fyrir að hver sena þurfi að þjóna sögufléttunni. Mér finnst að það megi aðeins losa um vissar formúlur í þessum heimi sem er orðinn ansi forsniðinn. En mér finnst það liggja í loftinu að það skapist bráðum meira svigrúm fyrir fólk til að sprengja þennan þrönga ramma svolítið utan af sér."

­ Ert þú plötusnúðurinn í "Lost Weekend"?

"Að mörgu leyti og að mörgu leyti ekki. Maður á líklega alltaf einhvern hluta í öllum persónunum. Reyndar, þegar við vorum í tökum á myndinni héldum við tvö partí í stúdíóinu. Og í bæði skiptin vaknaði ég í sama rúmi og söguhetjan, í sama herbergi, og hafði ekki hugmynd um hvar ég var staddur."



Morgunblaðið/Ásdís Dagur Kári Pétursson er leikstjóri stuttmyndanna "Old Spice" og "Lost Weekend".

Úr "Lost Weekend" sem var valin besta stuttmyndin á Nordisk Panorama.

Í "Lost Weekend" vaknar plötusnúður eftir langa drykkjunótt og hefur ekki hugmynd um hvar hann er staddur.

"Old Spice" gerist á rakarastofu í Reykjavík þar sem fastakúnni heldur tryggð við stofuna eftir dauðann. Hér eru Rúrik Haraldsson og Karl Guðmundsson í hlutverkum sínum.

Dagur Kári skrifaði handritið að "Old Spice" þegar hann sótti um inngöngu í kvikmyndaskóla í Kaupmannahöfn.