Allur sá fjöldi Íslendinga sem verið hefur í Laugarvatnsskóla frá stofnun hans 1928 ætti erfitt með að hugsa sér Laugarvatn án húss héraðsskólans sem brugðið hefur stórum svip á staðinn í 70 ár. Margar byggingar, sumar stórar, hafa síðan risið á Laugarvatni, en þær eru yfirleitt lítt eftirminnilegar.

LAUGARVATNSSKÓLINN 70 ÁRA

EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Hús Héraðsskólans á Laugarvatni er ein af merkari byggingum þessa lands, viðamesta tilraun Guðjóns Samúelssonar til endurvakningar á burstabæjarstílnum. Skólinn er að vísu ári eldri en húsið og hafði átt sér langa forsögu sem einkenndist af hreppapólitík. Því miður er þessi merka bygging nú aðeins í aukahlutverki á staðnum og þyrfti að finna henni nýtt hlutverk.





Allur sá fjöldi Íslendinga sem verið hefur í Laugarvatnsskóla frá stofnun hans 1928 ætti erfitt með að hugsa sér Laugarvatn án húss héraðsskólans sem brugðið hefur stórum svip á staðinn í 70 ár. Margar byggingar, sumar stórar, hafa síðan risið á Laugarvatni, en þær eru yfirleitt lítt eftirminnilegar. Gamla Laugarvatnsskólahúsið drottnar yfir staðnum enda þótt héraðsskólinn væri lagður niður 1991 þegar eftirspurn eftir skólavist var ekki lengur nægileg. Sem betur fer er húsið notað, en æskilegra væri að geta fundið því virðulegra hlutverk.

Menntaskólinn, sem er til húsa í annarri byggingu, nýtir kennslustofur á aðalhæð fyrir bókasafn og tölvukennslu. Borðsalur heimavistarinnar í kjallara hússins er notaður fyrir myndmennt, sem er valgrein í Menntaskólanum.

Þrjár íbúðir í héraðsskólahúsinu eru í notkun, en heimavistarherbergin í burstunum nýtast skólanum ekki. Að sumarlagi hefur þó stundum verið boðið upp á gistingu þar og í einni burstinni er handavinnustofa, aðallega fatasaumur, sem einnig er valgrein. Eldhúsið í kjallara hússins er í lagi, en ekki notað. Sundlaugin í sérstakri útbyggingu, sem síðar var gerð, er tóm og gamla íþróttahúsið, sem þar er áfast, er nú einungis notað fyrir leiksýningar.

Menntaskólinn á Laugarvatni nýtir gamla skólahúsið og Kristinn Kristmundsson skólameistari hefur fullan skilning á menningarlegri þungavikt þess. Það er samt úr vöndu að ráða ef brýnar þarfir Menntaskólans kalla ekki á notkun gamla hússins. Einnig er þess að gæta, að talsverða fjármuni kostar að halda við þessari stóru byggingu. Þá má spyrja hvort það sé hlutverk Menntaskólans, ef hann hefur ekki beinlínis not fyrir hana. Spurningin er; Hver á þá að koma til skjalanna? Að því kem ég síðar.

Margir tóku eftir því að burstabæir nutu sín betur undir hlíðum en á jafnsléttu. Umhverfi Reykholts í Borgarfirði og Laugarvatns er afar ólíkt, en Guðjón Samúelsson vann um svipað leyti að teikningum skólanna á þessum stöðum og kaus að aðhæfa klassík að íslenzkri steinsteypuhefð í Reykholti; þá með flötu þaki. Hann hafði glímt við að finna íslenzku burstabæjarhefðinni stað með byggingarefnum hins nýja tíma og honum hefur þótt staðhættir á Laugarvatni kalla á þá útfærslu.

Guðjón varð síðar fráhverfur þessari hugmynd, enda hefur hún sína annmarka frá praktísku sjónarmiði; talsvert húsrými nýtist alls ekki í stórum burstum. Þar verður alltaf hluti af húsnæðinu undir súð og til verða hanabjálkar sem notast alls ekki. Hinsvegar er kosturinn sá að brött þökin á burstunum halda vatni.

Hús Laugarvatnsskólans hefur verið vel byggt; steypan laus við alkalískemmdir sem síðar lögðust á hús. Guðjón hannaði bygginuna þannig, að fjórar burstir í miðju rísa hæst, en til hliðanna eru tvær lægri og sú þriðja, sem er jafnhá, er yfir inngangi. Með því að forsalur framan við kennslustofur skagar út fyrir burstirnar, urðu til svalir út frá inngangsbursinni sem setja svip á bygginuna að norðanverðu og samtengja húsið frá þessu sjónarhorni. Í rauninni er arkitektúr hússins tilbreytingarríkari á bakhliðinni, en forhliðina einkennir hreinleiki sem hefur þó verið skemmdur með trjám sem plantað var framan við húsið. Þau væru betur á bak og burt og yrði þá frekar hægt að sjá fegurð hússins og jafnvel að taka af því skammlausa ljósmynd.



Stríðið um staðinn

Ekki er það tilgangur þessa pistils um hús Héraðsskólans á Laugarvatni að rekja þá löngu og sumpart dapurlegu sögu sem orðin var af aðdraganda byggingarinnar. Sé stiklað á henni í örfáum orðum má geta þess að um 1880 var farið að tæpa á þeirri hugmynd að koma upp "lýðskóla" eða "alþýðuskóla" á Suðurlandi. Málið var heilmikið rætt í upphafi aldarinnar, en hreppapólitíkin kom þá strax til sögunnar; fyrst milli Rangæinga og Árnesinga og síðar á milli einstakra hreppa í Árnessýslu. En það var síður en svo að allir fögnuðu hugmyndinni; menn vildu eins og áður halda í vinnukraftinn heima og það var bagalegt að "missa" ungt fólk í skóla. Um skólamálafund á Þjórsártúni var þetta skráð:

"Í tugatali mættu á þessum fundi feður barna og unglinga, sem börðust fyrir því með glampandi augum af geðshræringu, að unnt yrði að eyða málinu, svo unglingarnir austanfjalls yrðu jafn skólalausir og áður, en Vestmannaeyjar og togararnir þeirra uppeldisstöð í viðbót við heimilin."

Eftirtektarvert er einnig að 1936 gengu í gildi "lög um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög til að starfrækja lýðskóla með skylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum." Samkvæmt lögunum skyldu ungir menn vinna 7 vikur án kaups í þarfir bæjar eða sýslu gegn tveggja vetra dvöl í skóla og fá þar ókeypis húsnæði og kennslu.

Þegar ljóst var að samstaða náðist ekki við Rangæinga var hafizt handa um að finna heppilegan stað í Árnessýslu fyrir alþýðuskóla. Jónasi Jónssyni frá Hriflu þóttu heitin alþýðuskóli og lýðskóli hafa neikvæðan hljóm; vera undirlægjuleg. Eiríkur Einarsson frá Hæli á hinsvegar heiðurinn af því að hafa fyrstur talað um héraðsskóla.

Sumir af forkólfum Árnesinga vildu láta byggja skólann á stað sem heitir Hveraheiði í Hrunamannahreppi. Aðrir stóðu með Ólafsvöllum á Skeiðum, en Skálholt, Reykholt, Haukadalur og Laug í Biskupstungum þóttu ekki síður koma til greina, svo og Laugarvatn sem að lokum varð fyrir valinu.

Við þá ákvarðanatöku beitti Jónas Jónsson mjög áhrifum sínum og það heyrði ég hann segja sjálfan, að ef hann hefði ekki beitt brögðum og klókindum til þess að Laugarvatn yrði ofaná, þá hefði héraðsskólinn ekki verið byggður þar og Laugarvatn að líkindum aldrei orðið skólastaður.

Laugarvatn hefði þó ef til vill aldrei orðið fyrir valinu ef bóndinn á jörðinni, Böðvar Magnússon, hefði ekki verið einn helzti hvatamaður Árnesinga að stofnun skóla og þessum áhuga var fylgt eftir með því að hjónin á Laugarvatni, Böðvar og Ingunn, létu jörðina af hendi í þessu augnamiði.

Sama ár og unnið var að skólabygginunni varð Jónas Jónsson kennslumálaráðherra í stjórn Tryggva Þórhallssonar og meðan á byggingunni stóð á Laugarvatni fór hann margar ferðir þangað, stundum með Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Á þeim tíma var ekki kominn sími austur að Laugarvatni og á kaflanum frá Svínavatni í Grímsnesi upp að Laugarvatni var aðeins ruddur vegarslóði sem varð ófær í bleytu.

Í ræðu sinni við vígslu skólahússins 4. október 1929, má sjá að Jónas Jónsson gerði þátt Ólafs Ketilssonar, hins frækna bílstjóra á Laugarvatnsrútunni, að umtalsefni. Taldi hann að án dugnaðar hans hefði ekki verið hægt að flytja allt byggingarefni sem flytja þurfti. Þá rifjaðist upp saga sem var húsgangur eystra, sönn eða login, og er á þá leið að Jónas tók sér far með Ólafi sem oftar til Laugarvatns. Þetta var í sláturtíðinni og á suðurleið fermdi Ólafur hálfkassann með gærum og öðrum sláturafurðum. Einhversstaðar meðfram Lyngdalsheiðini stóð bíllinn fastur í forarvilpu og þá var það bílstjórans en ekki ráðherrans að gefa fyrirskipanir: "Taktu gærupokann Jónas. Hér verða allir að vinna." Sögunni fylgir að ráðherrann hafi tekið sinn gærupoka steinþegjandi og borið hann yfir bleytuna.



Nemandinn tók að sér pípulagningarnar

Byggingarframkvæmdir við Laugarvatnsskólann hófust 1928 og var þá unnið fyrir fjárframlög frá hreppunum í sýslunni, svo og einstaklingum, alls um 30 þúsund krónur. Tveir Eyrbekkingar tóku að sér að byggja: Arinbjörn Þorsteinsson og Sigurður Bjargmundsson. Þeim tókst fyrsta sumarið að reisa tvær burstir og anddyri og ennfremur var lögð vatnsveita og hitaveita frá hvernum. Það var tímans tákn og gæti ekki gerzt núna, að nemandi á þessu fyrsta ári skólans, Grímur Ögmundsson frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum, setti sig inn í rörlagningar og tók þátt í þeim af miklum áhuga. Hann varð síðan í marga áratugi hinn eini og sanni pípulagningameistari staðarins þótt ófaglærður væri og hélt áfram að sinna því verki löngu eftir að hann var orðinn gróðurhúsabóndi á Syðri-Reykjum.

Vorið 1929 var haldið áfram við skólabygginguna; þá bættust við fjórar burstir og opin sundlaug austan við húsið. Fyrsta veturinn hafði raunar verið útbúin sundlaug í kjallara hússins, þar sem matsalurinn varð síðar. Á aðalhæðinni voru fjórar kennslustofur, forsalur fyrir nemendur í frímínútum, svo og kennarastofa.

Nýja húsið var vígt og skólinn settur 4. október 1929. Jónas Jónsson hélt að sjálfsögðu aðalræðuna - ræður voru ekki sparaðar- en Eggert Stefánsson alheimssöngvari og Sigurður Skagfield óperusöngvari skemmtu með söng. Nú má líta svo á að þessi vígsla hafi verið ótímabær; betra hefði verið að bíða með hana í eitt ár. En mönnum lá á og ekki stóð á því að skólinn fengi nemendur.

Í burstunum voru innréttuð 23 heimavistarherbergi og þrjú salerni með böðum. Í októberlok var húsið fokhelt, en allt ódúklagt og ófrágengið. Skólinn tók samt til starfa í húsinu eins og það var, og komu 83 nemendur til Laugarvatns haustið 1929. Stúlkurnar fengu herbergin sem til voru frá fyrra ári, en strákarnir urðu að gera sér að góðu að sofa í flatsæng í óinnréttuðu rými. Kennarar urðu að búa í fokheldu húsi, svo og Bjarni Bjarnason sem varð skólastjóri 1929 eftir að séra Jakob Ó. Lárusson í Holti hafði gegnt stöðunni fyrsta veturinn. Ferill Bjarna varð langur og farsæll. Við skólastjórn af honum tók nýbakaður silfurverðlaunamaður frá Olympíuleikunum í Melbourne 1956, Vilhjálmur Einarsson, þó aðeins einn vetur, en síðasti skólastjóri héraðsskólans var Benedikt Sigvaldason.

Nem endur veturinn 1929-30 unnu sjálfir við að þilja af herbergi um veturinn og þeir gengu ásamt kennurum að vinnu við steypu og vatnsleiðslur. Sérstakt keppikefli var að koma upp sundlaug og að menn gætu fleytt sér fyrir jól. Það tókst með samstilltu átaki.

Árið eftir, sumarið 1930, var skólahúsið múrhúðað að utan og lokið við frágang innanhúss. Borðstofa var þá tilbúin í kjallara, svo og eldhús með gufusuðupottum. Lokið var við sundlaugina og hafin bygging fyrsta heimavistarhússins uppi við þjóðveginn. Það var Björkin, sem er nú orðin harla þreytuleg, en stendur enn. Ekki var lokið við húsið fyrr en á miðjum vetri og þar til urðu skólapiltar að sofa í flatsæng í þeirri kennslustofu sem þá og alla tíð síðan hefur verið kölluð Babýlon.

Fyrir skólann skipti sköpum að 1929 gengu í gildi ný lög um héraðsskóla og var þarmeð fenginn sá grunnur sem skólinn starfaði á. Til 1945 starfaði Laugarvatnsskólinn í tveimur deildum, Yngri og Eldri deild. Vísir að menntaskólanámi hófst þar með Skálholtsdeild 1947, en Menntaskólinn var stofnaður vorið 1953.

Rekstur gistihúss í Laugarvatnsskóla hófst 1933 undir forustu Vigfúsar Guðmundssonar gestgjafa, hins landskunna "Fúsa verts" í Hreðavatnsskála. Sá sumarrekstur stóð þar til eldsvoði varð síðsumars 1947. Þá brunnu burstirnar nema sú austasta, en sem betur fer var gengið í að endurbyggja þær í upprunalegri mynd; því verki var þó ekki lokið fyrr en 1958.



Nýtt hlutverk

Guðjón Samúelsson teiknaði síðar viðbyggingu fyrir sundlaugina og íþróttahúsið austan við skólahúsið. Mörgum hefur fundizt þessi álma stinga í stúf við burstabæjarstíl gamla skólahússins, en Guðjón hefur ekki litið svo á að ófært væri að hafa þarna tvær stíltegundir hlið við hlið; auk þess er varla rökrænt að hafa burstir yfir sundlaug og íþróttahúsi.

Nú stendur sundlaugin tóm, íþróttahúsið aðeins notað fyrir leiksýningar, og að utanverðu sér stórlega á því. Það kynni því að vera freistandi að dæma þessa álmu óþarfa og brjóta hana niður til þess að losna við kostnað af viðhaldi. En það væri óþarflega metnaðarlítið. Öll þessi heild er verk Guðjóns og gömlum Laugvetningum þætti áreiðanlega eitthvað vanta á þá heild ef íþróttaálman væri horfin.

Laugardalur hefur aldrei eignast félagsheimili og Menntaskólinn þarf betra hús til leiksýninga en gamla íþróttahúsið. Nýtt félagsheimili þyrfti á að halda öllu húsrými íþróttasalarins og sundlaugarinnar. Til þess að hrófla sem minnst við verki Guðjóns Samúelssonar ætti að halda eins og hægt er hinu upprunalega ytra útliti álmunnar. Þarmeð væri þessari álmu fundið hlutverk, en það er ekki nóg.

Þýðingarmest er vitaskuld að finna gamla skólahúsinu nýtt hlutverk. Segja má að nú sé hún Snorrabúð stekkur, en húsið er staðarprýði eins og áður og menningarsögulegt verðmæti. Eðlilegast væri að frumkvæði að því að finna húsinu nýtt hlutverk kæmi frá ríkisvaldinu og þá Menntamálaráðuneytinu.

Ýmislegt er hægt að sjá fyrir sér í því sambandi, án þess þó að þyrfti að umturna öllu að innan. Þar á meðal er einhverskonar menningarmiðstöð fyrir Árnessýslu og vissulega gæti bókasafn Menntaskólans orðið hluti af henni. Við vígslu skólahússins talaði Jónas Jónsson um að myndlistarmönnum yrði boðið að dvelja og starfa í skólahúsinu og að skólinn eignaðist með tímanum gott listasafn. Minna varð um efndir á því en til stóð, en íbúðir í vestur- og austurenda hússins mætti nýta í þá veru, að myndlistarmönnum og rithöfundum stæði til boða að dvelja þar um tíma. Aðstaða fyrir smærri ráðstefnur er vel hugsanleg, en þá verður að vera boðleg gisting á staðnum.

Heilsuræktar- og íþróttaaðstaða fyrir almenning er vanræktur möguleiki á Laugarvatni. Kæmi vissulega til greina að einhver hluti gamla skólahússins yrði nýttur í því augnamiði, en hluti af því dæmi yrði að vera stór útisundlaug niðri við bakka Laugarvatns, og önnur aðstaða til almenningsíþrótta svo sem frambærilegur golfvöllur. Vísir að slíkum velli var til í skötulíki á Laugarvatnstúninu fyrir nokkrum árum, en í honum endurspeglaðist það metnaðarleysi sem loðað hefur við staðinn í flestu sem lýtur að því að gera hann áhugaverðan fyrir gesti að sumarlagi.



Önnur leið er vissulega til og áreiðanlega fær, ef áhugi er á því að finna hinu sjötuga Laugarvatnsskólahúsi nýtt hlutverk. Hún er sú að húsið yrði selt einhverjum sprækum og fjáðum athafnamönnum, sem hefðu kraft og hugmyndir til að gera þar eithvað við hæfi um leið og höfundarréttur Guðjóns Samúelssonar væri virtur og í engu hróflað við útliti hússins. Kristinn Kristmundsson skólameistari vildi láta það koma fram, að í fljótu bragði hugnaðist sér ekki sú framtíðarsýn.





Laugarvatnsskólinn á 70 ára afmælinu. Enn sem fyrr er hann fegursta húsið á staðnum, en nyti sín betur ef trén væru farin. Hér er hús með margháttaða möguleika sem þarf að finna nýtt hlutverk.

Ljósm.Lesbók/Gísli.





Bakhlið Laugarvatnsskólans snýr að þjóðveginum og hún er sú hlið sem flestir sjá og þekkja. Myndin er tekin skömmu eftir að húsið var fullgert.





Forsalur á aðalhæð. Hér var líf og fjör þegar nemendur þyrptust fram í forsalinn í frímínútum. Nú standa þarna sem einskonar minnismerki skápar með uppstoppuðum fuglum frá Guðmundi Ólafssyni, kennara á Laugarvatni í áratugi og óþreytandi náttúrufræðara.

Ljósm.Lesbók/Gísli.



Tvær kennslustofur héraðsskólans hafa nú verið teknar undir bókasafn menntaskólans og þetta húsrými kemur þannig að fullum notum. Bókasafnið mætti hugsa sér að yrði hluti af miklu stærri menningarmiðstöð í húsinu.

Ljósm.Lesbók/Gísli.



Borðsalur héraðsskólans. Þar er nú aðeins aðstaða fyrir myndmennt sem er valgrein í menntaskólanum. Þar er allt undarlega kyrt og rótt á móti kliðnum sem varð þegar nemendur fylltu salinn á matmálstímum.

Ljósm.Lesbók/Gísli.



"Á Laugarvatni er líf og fjör/ þar fara menn úr hverri spjör" var einu sinni sungið í revíu. Í húsi héraðsskólans mætti vera meira líf og fjör og einn hugsanlegur möguleiki væri að koma þar upp heilsuræktarstöð með margháttaðri íþrótta- og æfingaaðstöðu fyrir almenning. Sem stendur er einungis aðstaða fyrir Íþróttakennaraskólann niðri á túninu og á myndinni sést hópur nemenda þaðan á fótboltaæfingu.

Ljósm.Lesbók/Gísli.





Guðjón Samúelsson húsameistari t.v. og arkitekt Laugarvatnsskólans í gönguför á ísi lögðu Laugarvatni ásamt Jónasi Jónssyni, þá ráðherra kennslumála. Á myndinni sést að búið er að byggja skólann.