SUNNUDAGINN 3. október verður haldin guðsþjónusta í Krýsuvíkurkirkju. Hefst guðsþjónustan kl. 14. Er það orðin hefð að halda þar guðsþjónustu að vori, þegar kirkjan er tekin í notkun fyrir sumarið, og eins að hausti, en þá er altaristaflan sem Sveinn Björnsson málaði tekin niður og færð til Hafnarfjarðarkirkju.
Safnaðarstarf

Krýsuvíkurhátíð

SUNNUDAGINN 3. október verður haldin guðsþjónusta í Krýsuvíkurkirkju. Hefst guðsþjónustan kl. 14. Er það orðin hefð að halda þar guðsþjónustu að vori, þegar kirkjan er tekin í notkun fyrir sumarið, og eins að hausti, en þá er altaristaflan sem Sveinn Björnsson málaði tekin niður og færð til Hafnarfjarðarkirkju.

Krýsuvíkurkirkja hefur í sumar verið klædd nýrri hurð og tjörguð og er í fegursta búningi eins og umhverfið allt.

Að þessu sinni verður sungin gregorísk guðsþjónusta án undirleiks, eins og tíðkaðist í íslenskum kirkjum til forna. Í tilefni þess að guðsþjónustan er haldin á þessum stað er þema guðsþjónustunnar "umhverfissiðfræði". Eftir guðsþjónustuna býður Krýsuvíkurskóli kirkjugestum til kaffisamsætis í skólanum.

Rúta fer til Krýsuvíkurkirkju frá Hafnarfjarðarkirkju kl. 13.15 og heim aftur eftir kaffisamsætið í Krýsuvíkurskóla. Kórfélagar úr kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju annast söng en prestur er sr. Þórhallur Heimisson.

Messað á ný í Dómkirkjunni

SUNNUDAGINN 3. október kl. 11 kemur söfnuður Dómkirkjunnar saman í kirkju sinni á ný. Endurbætur á kirkjunni eru nú svo langt komnar að hægt er orðið að messa þar um helgar. Upp á þennan áfanga verður haldið með hátíðlegri messu þar sem dómkirkjuprestarnir báðir þjóna. Sr. Hjalti Guðmundsson byrjar messuna og býður söfnuðinn velkominn og sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson prédikar og þjónar ásamt honum að altarissakramentinu. Dómkórinn leiðir söng undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar, dómorganista.

Enn er mörgu ólokið við endurbætur kirkjunnar og verklok ekki áætluð fyrr en undir aðventu. Tryggir kirkjugestir munu því fylgjast með framvindu verksins á haustmánuðum. Vegna framkvæmdanna verður ekki hægt að hafa útfarir né aðrar athafnir á virkum dögum fyrr en að verklokum. Byggingamennirnir hafa starfað af einstökum ötulleik og leyst flókin vandamál við bygginguna og er það dug þeirra og snilli að þakka að söfnuðurinn skuli nú aftur vera kominn til síns heima.

Á útlegðartímanum hefur Dómkirkjusöfnuðurinn notið stakrar velvildar Fríkirkjusafnaðarins og er honum þakklátur. Þakklæti hans mun nú söfnuður Landakotskirkju njóta, en hann mun hafa guðsþjónustur sínar í Dómkirkjunni í Reykjavík meðan þeirra dómkirkja verður máluð og lagfærð.

Að lokinni messu á sunnudaginn mun Safnaðarfélag Dómkirkjunnar hafa fyrsta félagsfund vetrardagskrárinnar. Þar mun Þorsteinn Gunnarsson arkitekt greina frá endurbótum þeim sem nú standa yfir á kirkjunni. Nýir félagsmenn sem eldri eru velkomnir á fundinn.

Fyrirlestur og fræðslukvöld í Langholtskirkju

FYRIRLESTRAR og hópstarf tengt missi verður í vetur líkt og síðustu ár í Langholtskirkju. Nú á haustdögum verður tekin fyrir úrvinnsla sorgar og sorgarviðbragða í tengslum við skilnað. Séra Þórhallur Heimisson mun flytja fyrirlestur sunnudaginn 3. október kl. 20, í safnaðarheimili Langholtskirkju, um stöðu einstaklinga eftir skilnað eða sambúðarslit. Fyrirlestur séra Þórhalls er öllum opinn en þau sem hafa staðið í þessum sporum eru sérstaklega boðin velkomin. Eftir fyrirlesturinn gefst tími til umræðna yfir kaffibolla.

Í framhaldi af fyrirlestrinum verður þeim er vilja gefinn kostur á því að taka þátt í hópstarfi um úrvinnslu skilnaðar sem Jón Helgi Þórarinsson sóknarprestur og Svala Sigríður Thomsen djákni hafa umsjón með og annast. Sorgarhópar koma saman einu sinni í viku í 10 vikur. Í sorgarhópunum eða nærhópunum eins og þeir eru einnig nefndir, eru einstaklingar sem velja að hittast í 8-10 manna hópi, gera með sér samning og mynda trúnaðarsamband. Þar fer fyrst og fremst fram jafningjafræðsla, auk innleggs stjórnenda. Hópstarfinu lýkur með fyrirlestri um hvernig horft sé til framtíðar.

Á fundinum 3. október geta einstaklingar skráð sig í hópstarfið. Hópurinn kemur saman í fyrsta skipti fimmtudaginn 7. október kl. 20-21.30. Einstaklingar í hópnum geta einnig átt trúnaðarviðtöl við sóknarprest eða djákna um lengri eða skemmri tíma. Beðið er með og fyrir þeim sem þess óska.

Nánari upplýsingar veitir Svala Sigríður Thomsen djákni í síma 520 1314 eða 862 9162.

Fundur í Safnaðarfélagi Dómkirkjunnar

FYRSTI fundur Safnaðarfélags Dómkirkjunnar verður haldinn sunnudaginn 3. október nk., að lokinni árdegismessu í Dómkirkjunni, en þennan dag verður fyrsta almenna messan haldin í viðgerðri og endurbættri kirkjunni eftir mánaðalanga lokun. Í tilefni þessa mun Þorsteinn Gunnarsson arkitekt verða gestur á fundinum og ræða um hinar umfangsmiklu endurbætur, sem gerðar hafa verið á kirkjunni á undanförnum mánuðum.

Fundir Safnaðarfélags Dómkirkjunnar eru haldnir eftir árdegismessu fyrsta sunnudag hvers mánaðar og hefjast um kl. 12:00 á hádegi. Þeir eru haldnir á 2. hæð í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á horni Vonarstrætis og Lækjargötu og standa í rúma klukkustund. Fundirnir hefjast með léttum málsverði á vægu verði og að því loknu koma valdir gestir í heimsókn, sem halda stutt erindi um hin ýmsu málefni.

Stjórn safnaðarfélagsins vonast til að sjá sem flesta gesti á fundinum.

Lofgjörðarguðsþjónusta í Hjallakirkju

Næstkomandi sunnudag verður lofgjörðarguðsþjónusta í Hjallakirkju, Kópavogi, kl. 11. Slíkar guðsþjónustur verða að jafnaði einu sinni í mánuði fram að jólum, en í þeim er mikil áhesla lögð á lofgjörð til Drottins í söng og orði. Kór Snælandsskóla syngur og leiðir safnaðarsöng undir stjórn Heiðrúnar Hákonardóttur, og Lóa Björk Jóelsdóttir leikur undir á píanó. Fólk er hvatt til að mæta í kirkjuna og lofa Guð í tónum og tali.

Fræðslumorgnar í Hallgrímskirkju

Á MORGUN, sunnudag, kl. 10 f.h., hefjast að nýju fræðslumorgnar í Hallgrímskirkju. Í tilefni af þúsund ára kristni í landinu verður yfirskriftin á haustmisseri: Þættir úr þúsund ára sögu. Árni Bergmann rithöfundur mun fyrstur ríða á veðið og flytja fyrirlestur um Þorvald víðförla, sem fyrstur boðaði löndum sínum kristni að talið er. Næstkomandi sunnudag, 10. október, mun dr. Hjalti Hugason, prófessor, flytja erindi um upphaf kristni á Íslandi og sjálfa kristnitökuna. Fræðslumorgnarnir eru öllum opnir. Eins og áður sagði hefjast fyrirlestrarnir kl. 10 f.h. og að þeim loknum gefst færi á spjalli og kaffisopa áður en messa hefst kl. 11. Að lokinni messu á sunnudaginn ætla kvenfélagskonur að gefa kirkjugestum kost á að kaupa sér súpu og brauð, en þær eru nú að láta gera skírnarfont í kirkjuna.

Meðgöngumessa Dómkirkjunnar

KIRKJAN á að vera heimili. Kirkjan á að vera griðastaður. Kirkjan á að vera staður þar sem þú getur sest niður og andvarpað í bæn um allt það sem hvílir á sálinni. Í kirkjunni á maður að hafa full réttindi. Í kirkjuni á maður að geta verið einlægur. Þjónar kirkjunnar þrá ekkert meira en að kirkjan veiti það skjól. Kristin kirkja þráir að mæta fólki í öllum aðstæðum. Margir taka þátt í því undri að vera farvegur barns inn í veröldina. Hvert barn er kraftaverk. Dómkirkjan vill taka þátt í því verki að mæta fólki í aðstæðum þess.

Þess vegna verður haldin meðgöngumessea í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 3. október kl. 20.30. Prestarnir Jóna Hrönn Bolladóttir og Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Jóna ásamt Þórdísi K. Ágústsdóttur ljósmóður, Rannveigu Sigurbjörnsdóttur hjúkrunarfræðingi og Herdísi Finnbogadóttur líffræðingi. Birna Gerður Jónsdóttir ljósmóðir prédikar. Tónlist er í höndum Gróu Hreinsdóttur og Önnu Sigríðar Helgadóttur. Fyrirbæn verður fyrir foreldrum og ófæddum börnum.

Allir eru velkomnir í Fríkirkjuna af þessu tilefni og verðandi foreldrar alveg sérstaklega.

Fyrir hönd hinna,

Jóna Hrönn Bolladóttir.



Hjálpræðisherinn. Kl. 13 laugardagsskóli fyrir krakka.

Safnaðarheimilið í Sandgerði. Kirkjuskólinn kl. 11.

Útskálakirkja. Kirkjuskólinn kl. 13.30.

Hvammstangakirkja. Sunnudagaskóli kl. 11.

KEFAS, Dalsvegi 24. Samkoma laugardag kl. 14. Ræðumaður Björg R. Pálsdóttir. Allir hjartanlega velkomnir. Þriðjud: Bænastund og brauðsbrotning kl. 20.30. Miðvikud.: Samverustund unglinga kl. 20.30. Allir hjartanlega velkomnir.

Akraneskirkja. Kirkjuskóli laugardag kl. 11. TTT-starf (10-12 ára) kl. 13. Stjórnandi Elín Jóhannsdóttir. Unglingakórinn: Æfing í safnaðarheimilinu Vinaminni kl. 14. Stjórnandi Hannes Baldursson. Sóknarprestur.

Krýsuvíkurkirkja