ALÞJÓÐLEGU friðargæslusveitirnar, sem reyna nú að ná Austur- Tímor á sitt vald, hófu í gær erfiðasta hluta verkefnisins til þessa með sókn í vesturhluta landsins, þar sem vopnaðir hópar andstæðinga sjálfstæðis hafa verið öflugastir. Foringi um 12.000 austur-tímorskra vígamanna, sem hafa safnast saman á Vestur-Tímor, varaði við því að þeir myndu hefja sókn yfir landamærin á mánudag.
Friðargæsluliðar hefja nýja sókn á Austur-Tímor Vígamenn hóta árás um yfir landamærin

Dili. AP.

ALÞJÓÐLEGU friðargæslusveitirnar, sem reyna nú að ná Austur- Tímor á sitt vald, hófu í gær erfiðasta hluta verkefnisins til þessa með sókn í vesturhluta landsins, þar sem vopnaðir hópar andstæðinga sjálfstæðis hafa verið öflugastir. Foringi um 12.000 austur-tímorskra vígamanna, sem hafa safnast saman á Vestur-Tímor, varaði við því að þeir myndu hefja sókn yfir landamærin á mánudag.

Um 700 ástralskir hermenn voru komnir til vesturhlutans í gær og mættu engri mótspyrnu. Hermennirnir sáu nokkra vígamenn en þeir flúðu áður en þyrlur friðargæsluliðsins lentu á svæðinu.

Talið er að vígamenn úr röðum Austur-Tímora, sem vilja að landið verði áfram hluti af Indónesíu, hafi myrt þúsundir manna frá því íbúar landsins samþykktu sjálfstæði með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu í síðasta mánuði. Flestir vígamannanna hafa flúið til Vestur- Tímors, sem tilheyrir Indónesíu, eftir komu alþjóðlegu friðargæslusveitanna, Interfet, til Austur- Tímors.

Hóta að tortíma friðargæsluliðinu

Foringi vígamannanna, Joao da Silva Tavares, kvaðst hafa safnað 12.000 manna liði til árása yfir landamærin. "Interfet-sveitirnar hafa engan rétt til að hrekja mig frá heimalandi mínu. Ef þær dirfast að ráðast á mig tortímum við þeim strax," sagði hann.

Hann hélt því einnig fram að 6.500 indónesískir hermenn, sem hafa verið fluttir frá Austur-Tímor, hafi gengið til liðs við vígamennina á Vestur-Tímor.

Vígamennirnir hafa hingað til forðast átök við friðargæsluliðana, sem eru vel vopnum búnir. Embættismenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins hafa þó varað við þeim möguleika að vígahóparnir ráðist á friðargæsluliðana.

Talið er að hóparnir geti valdið usla á Austur-Tímor með skæruhernaði og sprengjutilræðum en fréttaskýrendur telja þá ekki eiga mikla möguleika komi til átaka milli þeirra og friðargæsluliðanna.

Rannsókn SÞ hefst í næstu viku

Talsmaður Mary Robinson, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að fimm manna nefnd, sem skipuð hefur verið til að rannsaka ódæðisverkin á Austur-Tímor, eigi að hefja störf í næstu viku og ljúka verkinu fyrir lok ársins. Stjórn Indónesíu hefur hafnað rannsókninni en getur ekki komið í veg fyrir hana.

Robinson skoraði á Indónesa að hefja eigin rannsókn á málinu á Vestur-Tímor, þar sem allt að 250.000 austur-tímorskir flóttamenn hafast við í bráðabirgðabúðum. "Ég hef heyrt mjög uggvekjandi ásakanir ­ ég legg áherslu á að þetta eru aðeins ásakanir á þessu stigi ­ um að jafnvel í bátunum sem fluttu fólkið til Vestur-Tímor hafi konum verið nauðgað aftur og aftur og að ekkert lát sé á þessu í flóttamannabúðunum."