HEILDARVELTA með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands í september nam 4.715 milljónum króna og er hann þar með veltuhæsti mánuður þingsins frá upphafi. Velta með hlutabréf fyrstu níu mánuði ársins á VÞÍ er orðin 26,8 milljarðar sem er tæplega tvöfalt meira en veltan var allt árið í fyrra en þá nam hún um 13,3 milljörðum króna.
Met í hlutabréfaviðskiptum í september

HEILDARVELTA með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands í september nam 4.715 milljónum króna og er hann þar með veltuhæsti mánuður þingsins frá upphafi. Velta með hlutabréf fyrstu níu mánuði ársins á VÞÍ er orðin 26,8 milljarðar sem er tæplega tvöfalt meira en veltan var allt árið í fyrra en þá nam hún um 13,3 milljörðum króna. Fyrstu níu mánuði síðasta árs nam velta með hlutabréf 8,2 milljörðum á Verðbréfaþingi og er veltan því rúmlega þrefalt meiri fyrstu níu mánuði þessa árs en á sama tímabili í fyrra.

Helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað mikið síðustu þrjá mánuði, eða frá því í byrjun júlí, rétt áður en milliuppgjör fyrirtækja tóku að birtast. Í morgunkorni Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á fimmtudag kemur fram að þvert ofan á spár sumra, um að viðskipti myndu minnka og verð hætta að hækka strax í kjölfar birtingar milliuppgjöra, hefur það ekki gerst.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur Úrvalsvísitala aðallista hækkað um 25,23% en um 18% frá því í júlíbyrjun. Heildarvísitala aðallista hefur hækkað um 25,19% fyrstu níu mánuði ársins en um 15% frá því í byrjun júlí.

Í morgunkorni FBA kemur fram að þegar grannt er skoðað þá er það einkum vísitala fjármála og trygginga sem hefur leitt hækkunina enda vegur hún tæplega þriðjung af vísitölu aðallista.

Um 2 milljarða viðskipti í gær

Viðskipti á Verðbréfaþingi Íslands námu alls um 2 milljörðum króna í gær, mest með hús- og húsnæðisbréf fyrir 927 milljónir króna og hækkaði markaðsávöxtun húsbréfa um 1-4 punkta.

Viðskipti með hlutabréf námu 258 milljónum króna, mest með bréf Íslandsbanka fyrir 69 milljónir króna og Flugleiða fyrir 26 milljónir króna og lækkaði gengi bréfa Flugleiða um 1% en engar verðbreytingar urðu á bréfum í Íslandsbanka.

Mest hækkaði verð bréfa Jarðborana um 5,3% en einungis ein viðskipti upp á 2,4 milljónir voru að baki hækkuninni. Verð hlutabréfa í Þormóði ramma-Sæberg hækkaði um 5% í tæplega 14 milljón króna viðskiptum.

Úrvalsvísitala aðallista hækkaði lítillega og er nú 1.375 stig.