SLYS eru alvarleg ógnun við heilbrigði barna og koma má í veg fyrir allt að 90% tilfella af minni háttar og sumum alvarlegum slysum, með því að sýna aðgæslu og átta sig á hverjir helstu slysavaldarnir eru. Þetta er niðurstaða Kristínar Pálsdóttur hjúkrunarforstjóra á Heilsugæslustöðinni á Sólvangi í Hafnarfirði.
Slysavarnir í Heilsugæslustöðinni á Sólvangi

Koma má í veg fyrir 90% slysa

Hafnarfjörður

SLYS eru alvarleg ógnun við heilbrigði barna og koma má í veg fyrir allt að 90% tilfella af minni háttar og sumum alvarlegum slysum, með því að sýna aðgæslu og átta sig á hverjir helstu slysavaldarnir eru. Þetta er niðurstaða Kristínar Pálsdóttur hjúkrunarforstjóra á Heilsugæslustöðinni á Sólvangi í Hafnarfirði. Starfsfólkið þar hefur lagt mikinn metnað í að fækka slysum og telur Kristín að verulegur árangur geti náðst með góðri samvinnu Heilsugæslustöðvarinnar, bæjaryfirvalda og skólanna sem byggi á upplýsingum um slys og slysavalda og hvernig eigi að bregðast við þeim. Dregið hefur verið úr bráðamóttöku á Sólvangi og að áliti Kristínar er slæmt að ekki sé hægt að taka við fleiri slösuðum á Heilsugæslustöðinni.

Heilsugæslustöðin flutti í núverandi húsnæði árið 1988. Þá var gert ráð fyrir að hægt væri að taka við öllum minni háttar slysum á svæðinu og segir Kristín að fljótlega hafi stöðin sinnt um 60% allra slysa í Hafnarfirði. Mikill metnaður var lagður í að byggja upp þessa slysaþjónustu og þá ekki síst til að geta komið til skila upplýsingum til bæjaryfirvalda og skólanna um slysavaldana, þannig að úrbætur gætu fengist sem fyrst. Kristín bendir t.d. á að tekist hafi að fækka alvarlegum slysum í skólum um 50% fyrir nokkrum árum, en sá árangur byggðist á því að slys í skólum hafa verið skráð síðan 1986. Á þeim grunni var hægt að meta hverjir væru helstu slysavaldarnir og vinna síðan markvisst að því að útrýma þeim.

Brettahjól valda ljótum meiðslum

Kristín segir að góður árangur hafi náðst í að meðhöndla minniháttar slys, eins og þau sem hjólabrettakrakkar lenda í. Á heilsugæslustöðina koma börn með mjög ljót meiðsl eftir að hafa dottið á hjólabrettum og línuskautum. Kristín telur að koma þurfi upp aðstöðu með eftirliti svo krakkar fái útrás fyrir þetta áhugamál, því ekki sé hægt að afnema hjólabretti eða línuskauta.

"Það er alveg skelfilegt að sjá þau. Þau velja sér brekkur þar sem þau bruna niður í umferðina og það er alveg skuggalegt að sjá hvernig krakkarnir þurfa að stunda þetta áhugamál. Þarna teljum við að hægt sé að koma til móts við þessi börn. Ég vil útrýma hjólabrettum og línuskautum af götunum, nema fólk sé með búnað og það sé sektað ef það er ekki með hjálma og hlífar alveg eins og þegar fólk spennir ekki á sig öryggisbelti," segir Kristín.

Nýlega fékk Heilsugæslustöðin útskrift frá slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur á umferðarslysum sem Hafnfirðingar lentu í á síðasta ári. Kristín telur að þetta séu alltof mörg slys. Þá er það sláandi að sjá hversu algeng slysin eru í aldurshópnum 14-25 ára. "Það eru aðallega einstaklingar á aldrinum 14-25 ára sem lenda í slysum og þá er ég ekki bara að tala um umferðarslysin," segir Kristín. Hún segir að beina verði fræðslunni að þessum hópi, enda dregur mjög úr slysatíðni eftir að 30 ára aldri er náð. Þá sé það líka alltof algengt að drengir á aldrinum 5-12 ára lendi í slysum í umferðinni.

Vantar lækna fyrir bráðamóttöku

Upphaflega var tekið á móti öllum sem komu á Heilsugæslustöðina og ævinlega einn læknir á bráðavakt. Þetta hefur breyst með færri stöðugildum lækna og nú sinnir hver og einn heimilislæknir meiðslum á sínum skjólstæðingum. Þetta hefur í för með sér að færri koma á Heilsugæslustöðina vegna slysa í Hafnarfirði og segir Kristín að starfsfólk hafi barist mikið fyrir því að fá aftur þetta aðgengi fyrir slasaða á svæðinu. Hún telur nauðsynlegt að upplýsingar um slys komi beint til þeirra, því það auðveldi vinnuna við forvarnir.

"Við erum búin að ræða við kjaranefnd um að líta á sérstöðu þessa samfélags hér og reynslu okkar hér til margra ára að sinna þessum minni háttar slysum og við vildum gjarnan halda því áfram. En þá þurfa að koma til fleiri læknastöður. Það var miklu betra aðgengi hér lengi og því miður er það ekki lengur," segir Kristín.

Morgunblaðið/Eiríkur P.

Kristín Pálsdóttir hjúkrunarforstjóri á Heilsugæslustöðinni við upplýsingastand sem komið hefur verið fyrir í móttökunni. Þar má sjá ýmsar tölur um slysatíðni hjá Hafnfirðingum ásamt ábendingum um hvernig fækka megi slysum.