ALÞINGI Íslendinga, 125. löggjafarþing, var sett í gær að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti þingið og ítrekaði í ræðu sinni mikilvægi Alþingis sem æðstu stofnunar í lýðræðisskipan Íslendinga. Að því loknu tók Páll Pétursson félagsmálaráðherra, við stjórn þingsins, en hann hefur lengsta þingreynslu þingmanna.
Alþingi Íslendinga var sett við hátíðlega athöfn í gær

Róttækar breytingar á fyrir komulagi þinghalds til umræðu

ALÞINGI Íslendinga, 125. löggjafarþing, var sett í gær að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti þingið og ítrekaði í ræðu sinni mikilvægi Alþingis sem æðstu stofnunar í lýðræðisskipan Íslendinga. Að því loknu tók Páll Pétursson félagsmálaráðherra, við stjórn þingsins, en hann hefur lengsta þingreynslu þingmanna. Þegar þingfundi var fram haldið var Halldór Blöndal endurkjörinn þingforseti og sagði hann þá m.a. að rætt hefði verið um róttækar breytingar á fyrirkomulagi þinghalds í forsætisnefnd Alþingis. Að afloknu ávarpi þingforseta voru kosnir fjórir varaforsetar þingsins og einnig fulltrúar í fastanefndir þingsins.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði að umtalsefni í ræðu sinni við þingsetninguna hversu mjög Alþingi hefði skipað öndvegi í stjórnskipan og sögu Íslendinga. Sagði hann að Alþingi væri og yrði örlagavaldur á öllum sviðum mannlífs í breiðum byggðum landsins, setti mark á lífshætti og búsetu, framfarir og sóknarfæri með þeim lagaramma sem smíðaður væri á Alþingi.

Ólafur Ragnar sagði hins vegar að nú um stundir bæri nokkuð á því að hallað væri á Alþingi þegar hlutverk framkvæmdavaldsins og markaðarins væru sett í æðra veldi. "Þá gleymist það oft að uppspretta þess umboðs sem framkvæmdavaldið fær er hjá Alþingi einu, þingheimi sem fólkið í landinu hefur falið trúnað um tiltekinn tíma í anda þess lýðræðis sem er aðal íslenskrar stjórnskipunar," sagði forsetinn.

"Hvorki flokksagi né forystuvald getur fært framkvæmdavaldinu þá ábyrgð sem Alþingi ber," bætti Ólafur Ragnar við. "Né heldur er hægt að afsaka ástand eða erfiðleika með því að ætla markaðinum hlutverk og valdsvið sem í okkar lýðræðisskipan á heima í höndum Alþingis."

Sagði Ólafur Ragnar mikilvægt að finna sambúð lýðræðis og markaðar þann farsæla farveg sem best félli sögu Íslendinga og menningu, samfélagsgerð og lífsháttum.

Halldór Blöndal endurkjörinn þingforseti

Eftir að þingheimur hafði minnst forseta Íslands og ættjarðarinnar með húrrahrópum bað Páll Pétursson, aldursforseti Alþingis, þingheim velkominn og gerði grein fyrir dagskrá fundarins. Jafnframt lagði hann fram bréf þar sem greint var frá því að Helga Guðrún Jónasdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, myndi taka sæti á Alþingi í fjarveru Þorgerðar K. Gunnarsdóttur sem er í fæðingarorlofi. Ennfremur var upplýst að vegna veikinda Árna R. Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi, myndi Sturla Þorsteinsson taka sæti á Alþingi.

Halldór Blöndal var þessu næst endurkjörinn þingforseti og sagði hann í ávarpi sínu að ný viðhorf og breyttir þjóðfélagshættir kölluðu á ýmsar breytingar á skipulagi þingsins. Greindi hann frá því að rætt hefði verið um róttækar breytingar á fyrirkomulagi þinghalds í forsætisnefnd Alþingis. "Slíkar breytingar verða að taka mið af því að þingmenn þurfa að hafa betri tíma til að sinna samskiptum við umbjóðendur sína, ekki síst í ljósi þess að landsbyggðarkjördæmi munu stækka verulega á þessu kjörtímabili. Þá verður ekki horft framhjá því að alþjóðavæðingin er farin að hafa veruleg áhrif á starfsemi Alþingis, m.a. með því að þingmenn taka æ meiri þátt í alþjóðlegu þingmannastarfi. Óhjákvæmilegt er að meira tillit verði tekið til þeirrar þátttöku í skipulagi þinghaldsins."

Sagði Halldór að þær hugmyndir að breytingum, sem ræddar hefðu verið í forsætisnefnd, fælust í því að þingstörfin gengju fyrir sig í lotum, þar sem skiptust á þingfundavikur, nefndavikur og kjördæmavikur eftir nánari útfærslu.

Kjósa þarf nýjan umboðsmann Alþingis

Þingforseti ræddi einnig um húsnæðismál Alþingis, samskipti við Vestur-Íslendinga í Kanada, útgáfu kristnisögu á næsta ári, í tilefni þess að þúsund ár verða þá liðin frá kristnitöku á Íslandi, og einnig greindi hann frá því að forsætisnefnd Alþingis hefði ákveðið að verða við þeirri ósk framkvæmdanefndar ráðstefnunnar Konur og lýðræði að gefa nokkrum konum frá Eystrasaltslöndunum og Rússlandi kost á að kynna sér störf Alþingis og þá lýðræðishefð sem íslensk stjórnmál byggjast á.

Að endingu þakkaði Halldór Gauki Jörundssyni vel unnin störf sem umboðsmaður Alþingis en Gaukur, sem kjörinn var til setu í Mannréttindadómstóli Evrópu fyrir ári, mun láta formlega af störfum um næstu áramót. Bíður nýs Alþingis það verkefni að kjósa eftirmann Gauks.

Þá var kosið um fjóra varaforseta Alþingis. Guðmundur Árni Stefánsson var kosinn fyrsti varaforseti, Guðjón Guðmundsson sem annar varaforseti, Ísólfur Gylfi Pálmason sem þriðji varaforseti og Árni Steinar Jóhannsson sem fjórði varaforseti. Ennfremur voru fulltrúar kjörnir í fastanefndir þingsins og að lokum úthlutað sætum í þingsalnum. Að því búnu var þingsetningarfundi slitið en Davíð Oddsson forsætisráðherra mun flytja stefnuræðu sína á mánudagskvöld.

Morgunblaðið/Golli Þingmenn gengur til kirkju ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands, og sr. Skúla Ólafssyni sem predikaði.

Vel fór á með þingmönnum við þingsetninguna í gær.