SAMKEPPNISRÁÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfyrirtækið Ármannsfell hafi með yfirlýsingum í auglýsingabæklingi um fasteignir á Kirkjusandi 1, 3 og 5 veitt tilvonandi kaupendum fasteignanna rangar og villandi upplýsingar og þannig brotið gegn ákvæðum 21. greinar samkeppnislaga.
Samkeppnisráð telur að Ármannsfell hafi brotið gegn 21. gr. samkeppnislaga Villandi upplýsingar í auglýsingabæklingi

SAMKEPPNISRÁÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfyrirtækið Ármannsfell hafi með yfirlýsingum í auglýsingabæklingi um fasteignir á Kirkjusandi 1, 3 og 5 veitt tilvonandi kaupendum fasteignanna rangar og villandi upplýsingar og þannig brotið gegn ákvæðum 21. greinar samkeppnislaga.

Í erindinu til Samkeppnisstofnunar, sem er frá einum íbúa húsanna, er kvartað yfir auglýsingabæklingi um fasteignirnar sem gefinn er út af Ármannsfelli og að með yfirlýsingum í honum hafi verið brotið gegn 20. og 21. grein samkeppnislaga.

Kvörtunin beinist annars vegar að Ármannsfelli, sem var bygginga- og söluaðili fasteignanna, og hins vegar að VSÓ Ráðgjöf ehf., sem samkvæmt umræddum bæklingi, sá um eftirlit með framkvæmdinni. Telur Samkeppnisráð að ekki hafi verið sýnt fram á að framlag VSÓ Ráðgjafar til innihalds bæklingsins væri með þeim hætti að fyrirtækið ætti beina aðild að máli þessu. Þannig sneri mál þetta fyrir samkeppnisyfirvöldum eingöngu að Ármannsfelli sem útgefanda bæklingsins og seljanda fasteignanna.

Frávísunarkröfu vísað á bug

Samkeppnisráð vísar á bug frávísunarkröfu og segir að bæklingurinn sem hér sé til skoðunar hafi verið gefinn út af Ármannsfelli þegar fasteignirnar voru til sölu. Bæklingnum hafi þannig verið ætlað að hafa áhrif á eftirspurn þeirrar þjónustu sem fyrirtækið bjóði í atvinnustarfsemi sinni, en í 21. gr. laganna sé sérstaklega greint að undir þá grein falli upplýsingar sem séu til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn fasteigna.

Auglýsinganefnd komst að þeirri niðurstöðu að yfirlýsingar Ármannsfells í bæklingnum um fyrirhuguð umferðarljós á gatnamót Sæbrautar og Kirkjusands; að þvottahús væri að finna á hverri hæð; að hægt væri að komast um íbúðir og húsin í hjólastól; hvað varðaði aðstöðu til flokkunar sorps og framsetningu á hlutverki VSÓ Ráðgjafar hafi veitt tilvonandi kaupendum fasteignanna rangar og villandi upplýsingar. Ármannsfell hafi þannig brotið gegn ákvæðum 21. gr. samkeppnislaga og segist samkeppnisráð að öllu leyti sammála niðurstöðu auglýsinganefndar hvað þessi atriði varðar.

"Samkeppnisráð telur að með yfirlýsingum í umræddum bæklingi um þróað gæðakerfi, háan gæðaflokk, eftirlit og vönduð vinnubrögð hafi Ármannsfell skapað væntingar hjá fasteignakaupendum sem ekki hafi að fullu staðist sbr. niðurstöðu auglýsinganefndar og það sem fram hefur komið hér að framan. Með vísan til þess sem fyrr er sagt um að ríkar kröfur verði að gera til alls kynningarefnis sem sett er fram til þess að hafa áhrif á eftirspurn fasteigna, telur samkeppnisráð að Ármannsfell hafi með yfirlýsingum í auglýsingabæklingi um fasteignir að Kirkjusandi 1, 3 og 5 veitt tilvonandi kaupendum fasteignanna rangar og villandi upplýsingar og þannig brotið gegn ákvæðum 21. greinar samkeppnislaga," segir ennfremur í ákvörðun samkeppnisráðs.