AÐGERÐASTIGI 2 vegna olíuleka úr El Grillo er lokið og munu kafarar skila umhverfisráðherra skýrslu um ástand skipsins á mánudag. Köfunaraðgerðum við birgðaskipið lauk á fimmtudag, en komið hefur verið í veg fyrir olíuleka sem vart varð úr einum af hliðartönkum skipsins.
Köfunaraðgerðum lokið

AÐGERÐASTIGI 2 vegna olíuleka úr El Grillo er lokið og munu kafarar skila umhverfisráðherra skýrslu um ástand skipsins á mánudag.

Köfunaraðgerðum við birgðaskipið lauk á fimmtudag, en komið hefur verið í veg fyrir olíuleka sem vart varð úr einum af hliðartönkum skipsins. Kafararnir fóru frá Seyðisfirði í gær og sagði Kjartan Hauksson, sem hafði ásamt Árna Kópssyni yfirumsjón með köfunaraðgerðum, að þokkalega hefði gengið að kanna skipið. Töluvert hefði þó verið um tóg í kringum El Grillo og hefði það tafið vinnu kafaranna.

Kjartan sagði að skýrslu um ástand skipsins yrði skilað til umhverfisráðherra á mánudag. Í framhaldi mun stýrihópur um frekari aðgerðir vegna El Grillo vinna að tillögum um næstu aðgerðastig. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sagði í vikunni að hún mundi vinna að því að byrjað yrði að hreinsa olíu úr El Grillo á næsta ári.