SÍF kynnti í gær nýtt merki fyrirtækisins. Nýja merkið er hannað af Hany Hadaya og auglýsingastofunni Yddu, og á að sögn Gunnars Arnar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra SÍF, rætur í gamla merkinu, enda hlýtur fyrirtæki sem byggir verslun sína á sjávarfangi að þurfa merki sem minnir á hafið.
SÍF tekur upp nýtt merki Endurspeglar

hreinleika

SÍF kynnti í gær nýtt merki fyrirtækisins. Nýja merkið er hannað af Hany Hadaya og auglýsingastofunni Yddu, og á að sögn Gunnars Arnar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra SÍF, rætur í gamla merkinu, enda hlýtur fyrirtæki sem byggir verslun sína á sjávarfangi að þurfa merki sem minnir á hafið. Hann sagði liti nýja merkisins og lýsandi náttúruform endurspegla hreinleika og draga upp mynd af litbrigðum og hreyfingum hafsins.

SÍF er í dag stærsta fyrirtækjasamstæða í heiminium í sölu og markaðssetningu á söltuðum fiskafurðum og rekur samstæðan í dag starfsemi í níu löndum. SÍF stóð áður fyrir Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda en sú nafngift verður nú lögð niður og verður SÍF aðalnafn samsteypunnar. Fyrir skemmstu samþykktu stjórnir SÍF hf. og Íslenskra sjávarafurða hf. að sameina félögin undir heitinu SÍF hf. með fyrirvara um samþykki hluthafafunda beggja félaganna. Að sögn Friðriks Pálssonar, stjórnarformanns SÍF, þótti stjórn fyrirtækisins við hæfi að taka upp nýtt merki í tilefni ört vaxandi alþjóðavæðingar og í takt við breyttar áherslur og nýja framtíðarsýn. "Sem fyrr mun SÍF hafa gæði afurða sinna að leiðarljósi og með nýju merki er áherslan lögð á gæði án landamæra, öflugt alþjóðlegt starf með íslenskan uppruna í farteskinu," sagði Friðrik.

Morgunblaðið/Golli

Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri SÍF, Friðrik Pálsson, stjórnarformaður SÍF, Hany Hadaya, hönnuður nýja merkisins, Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður ÍS og Finnbogi Jónsson, forstjóri ÍS. Efst má sjá hið nýja merki SÍF.