HÓPUR vopnaðra ungra manna frá Búrma tók um þrjátíu starfsmenn sendiráðs landsins í Bangkok, höfuðborg Taílands, í gíslingu í gær. Kröfðust mennirnir þess að allir pólitískir fangar í heimalandi þeirra yrðu látnir lausir úr fangelsi og að þar yrðu haldnar lýðræðislegar kosningar, en herforingjastjórn ræður ríkjum í Búrma.
Gíslataka í sendiráði Búrma í Bangkok

Uppreisnarmenn slitu samningaviðræðum

Bangkok. AFP, AP, Reuters.

HÓPUR vopnaðra ungra manna frá Búrma tók um þrjátíu starfsmenn sendiráðs landsins í Bangkok, höfuðborg Taílands, í gíslingu í gær. Kröfðust mennirnir þess að allir pólitískir fangar í heimalandi þeirra yrðu látnir lausir úr fangelsi og að þar yrðu haldnar lýðræðislegar kosningar, en herforingjastjórn ræður ríkjum í Búrma.

Mennirnir segjast tilheyra samtökum námsmanna, er vilji knýja á um stjórnarfarsumbætur í Búrma. Síðdegis í gær, eða snemma laugardagsmorguns að taílenskum tíma, slitu þeir samningaviðræðum við yfirvöld í Taílandi. Þeir hafa krafist þess að fá þyrlu til að komast undan til landamæra Búrma, en því hefur verið hafnað, þar sem ekki sé mögulegt að lenda slíku farartæki á sendiráðslóðinni. Hótuðu mennirnir því síðdegis í gær að frá og með deginum í dag myndu þeir skjóta einn gísl til bana á hálfrar klukkustundar fresti, yrði kröfum þeirra um þyrluna ekki mætt.

Símasamband náðist við gíslana í gær og kváðust þeir vera óttaslegnir en heilir á húfi. Flestir gíslanna eru frá Búrma, en talið er að einnig sé fólk frá Taílandi, Kanada, Frakklandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Malasíu og Singapúr í hópnum.

Bandaríkjastjórn fordæmir gíslatökuna

Yfir eitt hundrað lögreglumenn umkringdu sendiráðsbygginguna í gær, auk sérsveita og lögregluhunda. Innanríkisráðherra Taílands og háttsettir lögreglumenn reyndu að ná samkomulagi við mennina. Einn leiðtogi stúdenta frá Búrma hefur reynt að fá þá til að gefast upp, og annar stúdentaforingi kvaðst í gær aldrei hafa heyrt minnst á samtökin sem þeir kenna sig við.

Bandaríkjastjórn, sem hefur gagnrýnt stjórnvöld á Búrma harðlega undanfarin ár, fordæmdi gíslatökuna í gær. Í yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að jafnvel þótt hópurinn berjist fyrir góðum málstað séu hryðjuverk aldrei réttlætanleg.

Reuters

Vopnaðir lögreglumenn umkringja sendiráð Búrma (Myanmar) í Bangkok í gær.