RÚMLEGA tvítugur maður var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í gær fyrir að hafa keypt geislaspilara í gegnum Netið með greiðslukorti fullorðinnar konu. Upphæðin nam rúmum 35 þúsund krónum og sagði ákærði fyrir dómi að greiðslukortanúmer konunnar hefði legið á glámbekk hjá fyrirtæki sem hann vann hjá sem og kortanúmer annarra viðskiptavina fyrirtækisins.
Dæmdur fyrir Netviðskipti

RÚMLEGA tvítugur maður var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í gær fyrir að hafa keypt geislaspilara í gegnum Netið með greiðslukorti fullorðinnar konu. Upphæðin nam rúmum 35 þúsund krónum og sagði ákærði fyrir dómi að greiðslukortanúmer konunnar hefði legið á glámbekk hjá fyrirtæki sem hann vann hjá sem og kortanúmer annarra viðskiptavina fyrirtækisins. Því hefði hann jafnt sem aðrir starfsmenn fyrirtækisins og viðskiptavinir getað komist í númerin.

Ákærði neitaði sök fyrir dómi og bar fram skýringar sem dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þóttu með miklum ólíkindum. Var ákærði því fundinn sekur um fjársvik og brot gegn 248. grein almennra hegningarlaga og dæmdur í fangelsi og til að greiða 50 þúsund krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun.