Í ÞJÓÐHAGSÁÆTLUN fyrir árið 2000, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra lagði fram við upphaf Alþingis í gær, er komist að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt sé að hægja á efnahagsstarfseminni til að koma í veg fyrir að verðbólga fari úr böndum.
Þjóðhagsáætlun fyrir árið 2000 lögð fram

Stefnt að því að ná "mjúkri

lendingu" í efnahagslífinu

Í ÞJÓÐHAGSÁÆTLUN fyrir árið 2000, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra lagði fram við upphaf Alþingis í gær, er komist að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt sé að hægja á efnahagsstarfseminni til að koma í veg fyrir að verðbólga fari úr böndum. Segir í áætluninni að markmiðið sé að ná "mjúkri lendingu" í efnahagslífinu en í því felist að vaxtarhraðinn fari úr 5% í 2,5%-3% sem sé svipaður hagvöxtur og gert er ráð fyrir að meðaltali í iðnríkjunum.

Í þjóðhagsáætlun segir að takmörk séu fyrir því hversu lengi hagvöxtur geti verið jafn mikill og hann hefur verið hér á landi undanfarin fjögur ár án þess að stöðugleika sé teflt í tvísýnu. Enginn vafi sé á því að 5% vöxtur og þar yfir sé umfram jafnvægisvöxt til lengri tíma í þróuðu hagkerfi. Nú þegar sýnt er að verðbólga er byrjuð að grafa um sig þurfi að bregðast við með markvissum hætti og þess vegna verði lögð áhersla á að hægja á efnahagsstarfseminni, m.a. með því að reka ríkissjóð með verulegum afgangi á næsta ári og stjórn peningamála verði miðuð við það að tryggja stöðugleikann.

Með aðhaldssamri efnahagsstefnu er stefnt að hægari vexti þjóðarútgjalda á næsta ári og jafnframt er því spáð að útflutningur aukist minna en á þessu ári. Fyrir vikið verði hagvöxtur umtalsvert minni eða 2,7% borið saman við 5,8% eins og stefnir í fyrir þetta ár. Gangi þessar áætlanir stjórnvalda eftir dragi úr þenslu í þjóðarbúskapnum og verðbólga hjaðni á ný. Vísitala neysluverðs ætti því ekki að hækka um nema 2 % frá upphafi til loka næsta árs borið saman við 5% á þessu ári.

Þótt lögð sé mikil áhersla á það í þjóðhagsáætlun fyrir árið 2000 að nú þurfi að sýna aðhald í efnahagsmálum er engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að mikill árangur hafi náðst í íslenskum þjóðarbúskap á undanförnum árum. Á þessum grunni muni ríkisstjórnin byggja með frekari markaðsumbótum og hagstjórn sem miði að stöðugleika og jafnvægi. Í því skyni verði áfram unnið að sölu ríkisfyrirtækja, eflingu samkeppni og ríkisfjármálum og peningamálum verði beitt til að draga úr eftirspurn og umsvifum. Þannig megi framlengja hagvaxtarskeiðið á sama tíma og stöðugleikinn sé festur í sessi.