UPPSAGNIR 15 starfsmanna hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. tóku gildi nú um mánaðamótin, og að sögn Gunnars Svavarssonar, forstjóra SH, er um að ræða átta starfsmenn SH hf. og sjö starfsmenn dótturfélagsins Sæmarks sem hefur verið lokað, en það annaðist kaup á hráefni frá öðrum en SH-framleiðendum.
Endurskipulagning á starfsemi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf.

Fimmtán starfsmönnum sagt upp hjá SH og Sæmarki

UPPSAGNIR 15 starfsmanna hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. tóku gildi nú um mánaðamótin, og að sögn Gunnars Svavarssonar, forstjóra SH, er um að ræða átta starfsmenn SH hf. og sjö starfsmenn dótturfélagsins Sæmarks sem hefur verið lokað, en það annaðist kaup á hráefni frá öðrum en SH-framleiðendum.

Uppsagnirnar voru boðaðar um síðustu mánaðamót og eru liður í endurskipulagningu á starfsemi SH í kjölfar breytinga sem kynntar voru síðastliðið vor. Meginbreytingarnar á rekstrarfyrirkomulagi félagsins fólust í ákvörðunum þar sem kveðið er á um að falla megi frá þeirri afurðasöluskyldu sem ríkti milli SH og íslenskra framleiðenda.

Í framhaldi af breyttu hlutverki SH á Íslandi var hafist handa um skipulagsbreytingar hjá félaginu, og var 19 manns sagt upp störfum fyrr í sumar. Skrifstofuhald á Akureyri var lagt af og hæð í aðalstöðvunum í Aðalstræti 6 seld. Starfsemi SH hf. á Íslandi verður framvegis í tveimur félögum, annars vegar í SH hf., eignarhaldsfélagi þar sem starfa munu um 4 starfsmenn, og hins vegar í félagi sem gengið hefur undir vinnuheitinu SH þjónusta ehf. Hjá því félagi verður framleiðendum og dótturfélögum þjónað með rekstri 5 þjónustudeilda og er reiknað með að starfsmenn þess fyrirtækis verði 35-40 á næsta ári. Heildarstarfsmannafjöldi mun því losa 40 manns, en til samanburðar var hann 90 á síðasta ári.