KÍNA ­ eða réttar sagt Kínverska alþýðulýðveldið ­ fagnaði í gær þjóðhátíðardegi sínum í 50. sinn. Það er rétt hálf öld liðin frá því kommúnistaleiðtoginn Maó Tse- tung heitinn lýsti hinn 1. október 1949 á Torgi hins himneska friðar yfir með hátíðlegum hætti, að "hið nýja Kína" væri fætt.
Kínverjar fagna þjóðhátíðardeginum ­ heima í stofu

Hálfrar aldar afmæli Kínverska alþýðulýðveldisins var haldið hátíðlegt í gær með risavaxinni fjöldagöngu með hálfri milljón þátttakenda og gríðarlegri skrautsýningu. Niels Peter Aarskog , fréttaritari Morgunblaðsins í Peking, fylgdist með. KÍNA ­ eða réttar sagt Kínverska alþýðulýðveldið ­ fagnaði í gær þjóðhátíðardegi sínum í 50. sinn. Það er rétt hálf öld liðin frá því kommúnistaleiðtoginn Maó Tse- tung heitinn lýsti hinn 1. október 1949 á Torgi hins himneska friðar yfir með hátíðlegum hætti, að "hið nýja Kína" væri fætt.

50 ár eru langur tími í ævi manns ­ á þeim tíma var meðalaldur Kínverja aðeins 35 ár! ­ en í lífi þjóðar er hálf öld ekki meira en smákafli. Einkum og sér í lagi þegar um ræðir eins gamla þjóð og Kínverja, sem geta rakið sögu sína að minnsta kosti 5.000 ár aftur ­ og það eru að minnsta kosti 500.000 ár frá því Pekingmaðurinn svokallaði, sem fornleifafræðingar hafa grafið upp leifarnar af, bjó hér og lifði, þar sem höfuðborgin Peking er nú.

En þessu fimmtugsafmæli var í gær fagnað eftir öllum kúnstarinnar reglum. Ekkert var til sparað, og það ekki aðeins í Peking heldur um allt Kína. Landsmenn stóðu á haus í margar vikur að undirbúa daginn.

Í Peking sem og öðrum stórborgum Kína var tekið ærlega til og drifið í allsherjarhreingerningu. Hús, hreysi, heilu markaðirnir voru fjarlægðir til að rýma fyrir grænum svæðum og blómabeðum. Eftir endilangri aðalbrautinni inn að miðborg Peking, Chang An eða Breiðstræti hins eilífa friðar, voru öll auglýsingaskilti fjarlægð og þess í stað sett upp marglit ljósker, blómaskreytingar, þjóðfáninn, borðar með pólitískum slagorðum og risastórar myndir af stofnanda alþýðulýðveldisins, Maó Tse-tung, og eftirmönnum hans, Deng Xiaoping og Jiang Zemin. Öll íbúðarhverfi voru hreinsuð og skreytt og opinberar byggingar, verzlunarmiðstöðvar, veitingahús og hótel voru lýst upp með skrautlýsingum. Já, öll borgin eins og hún lagði sig var færð í hátíðarbúning.

Fyrsta hersýningin í 15 ár

Haldið er upp á þjóðhátíðardaginn á ári hverju og fyrstu 35 árin í lífi alþýðulýðveldisins var hersýning uppistaðan í hátíðahöldunum. Að hefðbundnum sið leiðtoga kommúnistaríkja fylgdust leiðtogar Kína með endalausum fylkingum hermanna ganga fylktu liði eftir Breiðgötu og Torgi hins himneska friðar. Þennan sið afnam Deng Xiaoping, hönnuður Kína nútímans. Upp frá því hafa hátíðahöldin á þjóðhátíðardeginum verið með öllu hæverskara sniði. Kínverjar hafa alltaf átt frí í tvo daga, 1. og 2. október, og eftirlátið það stjórnmálaleiðtogunum að minnast dagsins með móttökum, hástemmdum ræðum, tónleikum og því um líku. Fimmtán ár eru liðin frá því höfuðborgin varð síðast vitni að annarri eins hersýningu og sjá mátti í gær. En eftirmaður Dengs, Jiang Zemin, vildi endurupplifa stórfengleik fjöldagangna fortíðarinnar ­ að minnsta kosti þegar annað eins tilefni gafst og 50 ára afmæli lýðveldisins.

Hálf milljón manns tók fyrri part dagsins þátt í þaulskipulagðri fjöldagöngu, sem tók tvær klukkustundir að ganga hjá leiðtogunum sem röðuðu sér upp uppi á hliðinu að Hinni forboðnu borg, aðsetri keisaranna. Fylkingarnar mjökuðust í gegnum miðborgina með 70 m hraða á mínútu. Herinn sýndi með nýjustu eldflaugum sínum, skriðdrekum og öðrum hátæknistríðstólum hvers Kína nútímans er megnugt á því sviði, og himininn yfir Peking var vettvangur gríðarlegrar flugsýningar með nýjustu orrustu-, sprengju- og flutningavélum flughersins.

En það voru líka verkamenn frá útvöldum vinnustöðum, skólabörn, kvennahópar, fulltrúar þjóðernisminnihlutahópa ­ já, meira að segja fatlaðir í hjólastólum báru vott um þá þróun sem átt hefur sér stað í landinu á síðustu 50 árum. Hver hinna 34 héraða Kína og stjórnsýslueininga skipaði eigin sveit í fjöldafylkingunni, þar sem þau reyndu að sýna hve langt þau væru komin á þróunarbrautinni að nútímalegu velferðarþjóðfélagi.

Allan undanfarinn mánuð hafa kínverskir fjölmiðlar ­ dagblöð, útvarp og sjónvarp ­ borið lof á framfarirnar. Einkum hefur athyglin beinzt að þróun undanfarinna tveggja áratuga, eftir að ákveðið var að opna Kína fyrir viðskiptum við Vesturlönd og þar með fjárfestinar og áhrif þaðan.

Og það verður að segjast, á síðustu 20 árum hefur Kína gerbreytzt. Lífskjörin hafa batnað til mikilla muna. Þær 275 milljónir landsmanna, sem árið 1979 áttu í erfiðleikum með að taka þátt í að halda þjóðhátíðardaginn hátíðlegan vegna áhyggna af því hvaðan næsta máltíð ætti að koma, eru nú skroppnar saman í um 40 milljónir, sem enn lifa undir hinum opinberlega skilgreindu mörkum um lágmarksframfærslu.

Í gær var það hið opinbera Kína sem óskaði sjálfu sér til hamingju með framfarir og frækna framtíð. Fyrir hinn venjulega kínverska borgara ­ þeir eru hátt í 1.300 milljónir talsins ­ var fimmtugsafmælið vissulega áhugavert og hátíðlegt, en sumir áttu erfitt með að sýna því skilning að nauðsyn væri á að fagna honum með öðru eins umstangi. Opinberlega segir ríkisstjórnin að hátíðahöldin kosti um 300 milljónir króna, en heyrzt hefur að raunverulegur kostnaður sé allt að 6­7 milljarðar króna.

Þessum upphæðum væri betur varið til að bæta hversdagslíf almennings. Opinberlega eru 18 milljónir atvinnulausra hér, en auk þeirra eru margar milljónir manna sem hafa ekkert að gera á vinnustöðum sínum og fá því aðeins lágmarkslaun greidd, og yfir 100 milljónir landbúnaðarverkamanna, sem ekki er lengur þörf fyrir í landbúnaðinum og reyna því að sjá sér farborða með íhlaupaverkum í stórborgunum, þangað sem þeir flykkjast í leit að nýrri framtíð. Þetta segir hin 42 ára gamla Xiang Xiao Jing, sem sjálf er með allt sitt á þurru. Hún er útibússtjóri í einu fjölmargra nýrra einkafyrirtækja Kína, sem sprottið hafa upp á liðnum 20 árum. Og hún er stolt af hagvexti og efnahagsþróun Kína, en allt umstangið í kringum 50 ára afmælið fer í taugarnar á henni.

Aðeins fyrir útvalda

Burtséð frá sérlegum boðsgestum, sem urðu vitni að fjöldagöngunni og skrautsýningunni á Torgi hins himneska friðar, settist kínverskur almenningur við sjónvarpið heima hjá sér og lagði mat á borð, bauð vinum og vandamönnum í heimsókn og naut hins fyrsta af 3­4 vel þegnum frídögum.

"Við höfum lokað fram á þriðjudag," segir Pu Zheng Fang, sem rekur matvörubúð. Hann er stoltur af landi sínu, þeim framförum sem hin 50 ár alþýðulýðveldisins hafa þýtt fyrir þjóðina. En rétt eins og allir aðrir viðmælendur Morgunblaðsins er það einkum og sér í lagi sú þróun sem átt hefur sér stað á síðustu 20 árum, sem hann á við. Fyrstu þjáningarárin eftir að kommúnistar tóku við völdum virðast gleymd, og á hin tíu ár menningarbyltingarinnar (1966­1976) er helzt ekki minnzt. "Ég held það sé ekki ein einasta fjölskylda í Kína, sem ekki leið fyrir martröð menningarbyltingarinnar," er það eina sem Pu Zheng Fang fæst til að segja aðspurður um minningar hans frá þeim tíma. Hann er 55 ára.

Það var hinum almenna Kínverja löngu orðið ljóst að hátíðahöldin á Torgi hins himneska friðar væru aðeins fyrir útvalda. Og þrátt fyrir að flestir væru í hátíðarskapi varð almenningur að gera sér að góðu að fylgjast með á sjónvarpsskjánum. Dagskrá dagsins lauk með geysimikilli flugeldasýningu, sem send var upp í næturhimininn frá 10 mismunandi stöðum í höfuðborginni og því gátu fleiri upplifað hana milliliðalaust.

Fram til 6. október verður áfram fagnað með stórum sýningum í 10 almenningsgörðum í Peking, sem almenningi er frjáls aðgangur að.

Reuters Jiang Zemin, leiðtogi kínverska Kommúnistaflokksins og forseti Kína, ekur framhjá heiðursverði hermanna á Torgi hins himneska friðar í Peking í gær.

Morgunblaðið/Niels Peter Aarskog Fylking hermanna ber tákn um stofnár og fimmtugsafmælisár alþýðulýðveldisins inn á Torg hins himneska friðar.