GOLFSTRAUMURINN hefur breytt um stefnu í Norður-Atlantshafi en stefnubreytingin þarf þó ekki að tákna að ný ísöld sé í aðsigi. Kemur þetta fram í frétt Reuters-fréttastofunnar sem vitnar í frásögn danska verkfræðiritsins Ingeniøren af niðurstöðum rannsókna sem danski haffræðingurinn Erik Buch hjá dönsku veðurfarsstofnuninni hefur tekið þátt í.
Golfstraumurinn breytir um stefnu í Norður-Atlantshafi

Engin merki þess að

ný ísöld sé í uppsiglingu

GOLFSTRAUMURINN hefur breytt um stefnu í Norður-Atlantshafi en stefnubreytingin þarf þó ekki að tákna að ný ísöld sé í aðsigi. Kemur þetta fram í frétt Reuters -fréttastofunnar sem vitnar í frásögn danska verkfræðiritsins Ingeniøren af niðurstöðum rannsókna sem danski haffræðingurinn Erik Buch hjá dönsku veðurfarsstofnuninni hefur tekið þátt í.

Rekja má stefnubreytingu Golfstraumsins til austurs til stífari vestlægra vinda yfir Norður-Atlantshafi á undanförnum árum, að því er Buch segir í Ingeniøren .

Stefnubreytingin hefur ekki dregið úr heitsjávarmagninu sem berst með Golfstraumnum til norðurhafa. Straumurinn liggur nú nær Noregi en áður var, að sögn Buchs. Hann segir engin merki sjást er bent geti til þess að kólnun lofthjúpsins og þar með ný ísöld sé yfirvofandi.

Vestlægir vindar hafa sótt í sig veðrið á Norður-Atlatnshafi, að sögn Buchs, vegna aukinn þrýstingsmunar milli lægðaskila umhverfis Ísland og háþrýstisvæða við Azoreyjar. Hann sagði að enn hefði ekki tekist að skýra þann breytta þrýstingsmun.

"Kalda hjartað" hvarf í Grænlandshafi

Fyrirbæri sem vísindamenn nefna "kalt hjarta heimshafanna" og lýsa sem risastórri pumpu er viðhaldið hefur Golfstraumnum með því að draga árlega 30.000 rúmkílómetra af köldu vatni niður á botn Grænlandshafs hvarf snemma á þessum áratug.

Ýmsir vísindamenn óttuðust að hvarf hjartans myndi draga máttinn úr Golfstraumnum og leiða til nýrrar ísaldar í Evrópu er drægi úr heitavatnsflæði til Norður-Atlantshafs.

Nýjar rannsóknir sýna hins vegar að eftir hvarf kalda hjartans í Grænlandshafi hafi fyrirbæri af sama tagi orðið til, annars vegar í Norður-Íshafi og hins vegar í Labradorhafi. Drægju þessi nýju köldu hjörtu jafnmikinn kaldsjó niður að hafsbotni og Grænlandshjartað áður.