STÖÐ 2 og Bylgjan munu í sameiningu hefja útsendingu á morgunsjónvarpi 1. nóvember og verður dagskrá Stöðvar 2 því samfelld frá klukkan 7 á morgnana fram yfir miðnætti alla daga vikunnar. Hreggviður Jónsson, forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, sagði að ákveðið hefði verið að ráðast í verkefnið, þar sem kannanir hefðu sýnt fram á aukinn áhuga fólks á morgunsjónvarpi.
Stöð 2 og Bylgjan hefja útsendingu á morgunsjónvarpi Fimm fréttatímar á morgnana

STÖÐ 2 og Bylgjan munu í sameiningu hefja útsendingu á morgunsjónvarpi 1. nóvember og verður dagskrá Stöðvar 2 því samfelld frá klukkan 7 á morgnana fram yfir miðnætti alla daga vikunnar. Hreggviður Jónsson, forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, sagði að ákveðið hefði verið að ráðast í verkefnið, þar sem kannanir hefðu sýnt fram á aukinn áhuga fólks á morgunsjónvarpi.

"Niðurstöður kannananna benda til þess að við höfum gott land til þess að byggja á," sagði Hreggviður. "Sjónvarpseign landsmanna hefur aukist og nú er sjónvörp til dæmis að finna í eldhúsum fólks."

Morgunsjónvarpið verður sent út í opinni dagskrá frá klukkan 7 til 9 og að sögn Páls Magnússonar, fréttastjóra Stöðvar 2, mun það koma til með að heyra undir fréttastofuna. Í morgunþættinum, sem verður einnig sendur út á Bylgjunni, verða fimm fréttatímar, þ.e. klukkan 7, 7.30, 8, 8.30 og 9.

Fréttatíminn klukkan 22.30 lagður niður

Að sögn Páls er um að ræða ákveðna áherslubreytingu hjá fréttastofunni, þar sem fréttatíminn klukkan 22.30 verður lagður niður. Páll sagði að ástæðan fyrir þessari áherslubreytingu væri sú að kannanir hefðu sýnt að meiri áhugi væri fyrir fréttum á morgnana og að fólk kysi í auknum mæli að horfa á eitthvað annað en fréttir á kvöldin.

"Þetta hefur verið á teikniborðinu í að minnsta kosti fimm ár, og menn hafa dustað rykið af þessu árlega, en eru nú tilbúnir," sagði Páll. "Ég geri mér miklar væntingar um þetta, en það getur verið að það taki tíma að vinna þessu sess. Tilkoma morgunsjónvarpsins þýðir að íslenskt efni í sjónvarpi eykst um tvær klukkustundir á dag."

Að sögn Páls er ekki komið í ljós hvort ráða þurfi fleira fólk vegna aukinna umsvifa. Hann sagði að í flestum tilvikum yrði um tilfærslur á fólki að ræða frekar en viðbætur.

Hreggviður vildi ekki gefa upp hvað það kostaði að koma á morgunsjónvarpi.

"Þetta er ekki ódýrt, heldur er um umtalsverðan viðbótarkostnað að ræða," sagði Hreggviður. "Við erum hinsvegar búnir að skoða þetta vel og tökum ákvörðunina í því ljósi. Við erum meðal annars búnir að prófa þetta á auglýsingamarkaðnum og höfum fengið jákvæð viðbrögð þar, en morgunsjónvarp hefur verið vænlegur auglýsingamiðill erlendis og því vonumst við til þess að svo verði hér einnig."