MIKIÐ fjölmenni var við formlega opnun hins nýja stórhýsis B&L á Grjóthálsi 1 síðdegis í gær. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður B&L, bauð gesti velkomna og Gísli Guðmundsson, forstjóri B&L, gerði grein fyrir hinni nýju byggingu. Séra Þórir Stephensen blessaði húsið, starfsmenn fyrirtækisins og viðskiptavini þess.
Fjölmenni við formlega opnun stórhýsis B&L

MIKIÐ fjölmenni var við formlega opnun hins nýja stórhýsis B&L á Grjóthálsi 1 síðdegis í gær. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður B&L, bauð gesti velkomna og Gísli Guðmundsson, forstjóri B&L, gerði grein fyrir hinni nýju byggingu. Séra Þórir Stephensen blessaði húsið, starfsmenn fyrirtækisins og viðskiptavini þess.

Í ávarpi sínu rakti Guðmundur Gíslason tildrögin að stofnun fyrirtækisins og nefndi þar að stofnun þess hefði komið til vegna frumkvæðis Sovétmanna að viðskiptum milli landanna, þegar Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk vegna útfærslu Íslendinga á fiskveiðilögsögu sinni úr 3 mílum í 4 mílur. Hefði ákvörðun Breta verið sem rothögg á íslenskt efnahagslíf, en Sovétmenn buðust þá til að skipta á ýmsum vörum fyrir íslenskan fisk og fiskafurðir og settu það sem kröfu fyrir viðskiptasamningnum að Íslendingar keyptu einnig bifreiðar af sér. Var í kjölfar samnings landanna stofnað félag til að annast sölu og þjónustu við bifreiðarnar og hófst þar með saga B&L.

Meðal gesta í gær var einn af stofnendum B&L, Bergur G. Gíslason ræðismaður. Sæmdi Guðmundur Gíslason Berg gullmerki félagsins sem lítinn þakklætisvott fyrir störf hans í þágu fyrirtækisins.

Morgunblaðið/Kristinn Bergur G. Gíslason, einn stofnenda B&L, og Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður B&L, á góðri stund.

Fjölmenni var við opnun húss B&L í gær á 45 ára afmæli fyrirtækisins.