Með því lága orkuverði sem Landsvirkjun fær frá stóriðju, segir Þorsteinn Siglaugsson, er einfaldlega tap á sölunni.
Fljótsdalsvirkjun er óarðbær fjárfesting

Virkjanir Með því lága orkuverði sem Landsvirkjun fær frá stóriðju, segir Þorsteinn Siglaugsson , er einfaldlega tap á sölunni.

FORSTJÓRI Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, gagnrýnir í viðtali við Morgunblaðið fimmtudaginn 9. september sl., útreikninga mína á væntanlegu tapi af Fljótsdalsvirkjun, sem birtust í blaðinu 4. sama mánaðar. Það sem Friðrik lætur hafa eftir sér í umræddu viðtali eru að mestu órökstuddar fullyrðingar, sem ekki verður frekar fjallað um hér, ásamt útúrsnúningi og rangfærslum, sem ég ætla ekki að elta ólar við hér. Að því litla leyti sem gagnrýni hans er efnisleg er hún einfaldlega röng.

20% neikvæð ávöxtun á eigið fé Fljótsdalsvirkjunar

Friðrik segir það rangt að Landsvirkjun geri 3,9% ávöxtunarkröfu á framkvæmdir frá 1966­1997. Hið rétta er, að umrædd ávöxtunarkrafa kemur fram í tilvitnaðri skýrslu um arðsemi af orkusölu til stóriðju, sem gefin var út af Landsvirkjun árið 1997. Segir þar orðrétt: "Raunvextir af lánum Landsvirkjunar á tímabilinu 1971­1997 voru 3,9%. Þannig hafa tekjur af stóriðju staðið undir þeim lánum sem ætla má að Landsvirkjun hafi þurft að taka vegna hennar og gott betur. Ef miðað er við 4% reiknivexti þýða niðurstöðurnar að Landsvirkjun var ríflega 6 milljörðum króna betur sett í lok árs 1997 með stóriðju en hún hefði verið án hennar." Skýrslan gerir sem sagt ráð fyrir því, að það að standa undir lánum nægi til að réttlæta fjárfestinguna. Þetta hefur hingað til heitið ávöxtunarkrafa. Það er ekki við undirritaðan að sakast þótt hún sé byggð á vitlausum forsendum.

Friðrik afneitar þessari ávöxtunarkröfu og gefur í skyn að hún sé hærri. Samt sem áður ítrekar hann niðurstöðu skýrslunnar um 6 milljarða arðsemi af umræddum fjárfestingum. Þessi arðsemi grundvallast á sömu ávöxtunarkröfu og hann afneitar í viðtalinu! Það er erfitt að lesa annað út úr þessari mótsögn en að forstjórinn þekki ekki samhengið milli ávöxtunarkröfu og núvirðis, að því hærri sem ávöxtunarkrafan er, þeim mun lægra er núvirðið. Meðfylgjandi línurit (línurit 1) sýnir núvirði Fljótsdalsvirkjunar miðað við mismunandi ávöxtunarkröfu. Eins og sjá má þarf að minnsta kosti að fara niður í 0,5% meðalávöxtun (WACC) til að fjárfestingin standi á sléttu, sé fjárfestingin látin njóta vafa um framtíðartekjur, en -2,5% er þó raunhæfari tala. Það jafngildir um 20% neikvæðri ávöxtun á eigið fé miðað við 6% ávöxtun á lánsfé.

Þyrfti svipað orkuverð og almenningsveitur greiða

Friðrik bendir á að álverð 1998 hafi verið lágt og því séu 88 aurar pr. kwst. ekki raunhæf viðmiðun þegar spá á fyrir um tekjur af Fljótsdalsvirkjun. Árið 1997 var álverð hins vegar með hæsta móti og þá var raforkuverðið ein króna pr. kwst. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðherra í Morgunblaðinu í ágúst sl. er spáð 1% lækkun álverðs árlega í náinni framtíð. Það er því ljóst að 88 aura meðaltekjur eru alls ekki of lágt áætlaðar, þvert á móti. Meðfylgjandi stöplarit (stöplarit 1) sýnir núvirði Fljótsdalsvirkjunar miðað við mismunandi orkuverð. Til að fjárfestingin standi nokkurn veginn á núlli þarf að fá 2,20 krónur fyrir kílówattstundina. Mér er það satt að segja hulin ráðgáta hvernig Friðrik Sophusson ætlar að fara að því að selja orku til stóriðju á nánast sama verði og til almenningsveitna.

Álverið verður óhagkvæmt á 15 árum

Friðrik hefur eftir undirrituðum að líftími virkjana sé 15 ár. Það er rangt. Ég geri ráð fyrir 40 ára líftíma í útreikningum mínum. Iðnaðarráðherra benti hins vegar á það á dögunum, að væntanlegt álver á Reyðarfirði verði óhagkvæmt eftir 15 ár. Það segir sig því sjálft að ekki er hægt að gera ráð fyrir öruggri orkusölu lengur en sem því nemur. Að þeim tíma liðnum geri ég ráð fyrir 50% líkum, eða algerri óvissu, um frekari orkusölu á upphaflegu verði. Friðrik telur það óraunhæft þar sem orkuna megi selja almenningsveitum eða öðrum stórum kaupendum hætti álverið rekstri, sem óneitanlega er líklegt þegar það er orðið óhagkvæmt. Hann virðist ekki átta sig á því, að til að selja vöru eða þjónustu, þarf markaður fyrir hana að vera fyrir hendi.

Línurit 3 sýnir núvirði Fljótsdalsvirkjunar, annars vegar miðað við örugga orkusölu í 40 ár og hins vegar miðað við örugga sölu í 15 ár og óvissu í 25 ár eftir það. Eins og sjá má er munurinn ekki mikill. Fyrri möguleikinn leiðir til 19 milljarða taps, sá síðari til 22 milljarða taps. Ég tel síðari töluna réttari, enda aldrei skynsamlegt að láta fjárfestingar njóta vafans þegar hann er til staðar á annað borð.

Þjóðhagfræðilegir loftfimleikar ekki grundvöllur fjárfestinga

Forstjóri Landsvirkjunar vitnar til fyrrnefndrar skýrslu um orkusölu til stóriðju og nefnir, réttilega, að meginhlutinn af þeirri arðsemi sem skýrslan sýnir stafi af þjóðhagslegu hagræði af stóriðjunni. 70% af meintum þjóðhagslegum ávinningi felast í ávinningi af framkvæmdum í efnahagslægðum. Nú vill hins vegar svo til að uppsveifla er í efnahagslífinu. Við þær aðstæður er erfitt að tala um viðbótarávinning af sama tagi og í efnahagslægðum, öfug formerki ættu raunar frekar við. Þær þjóðhagslegu forsendur sem lagðar eru til grundvallar í umræddri skýrslu eiga því engan veginn við um Fljótsdalsvirkjun.

Almennt talað er það ekki góð latína að grundvalla ákvarðanir um fjárfestingar á vangaveltum um þjóðhagslega hagkvæmni enda alkunna að þær geta leitt til margra misvísandi niðurstaðna. Fyrsta skilyrðið fyrir því að hefjast handa um nýja fjárfestingu er að hún sé arðbær sem slík. Það skortir verulega á að það eigi við um fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun. Mun hagkvæmara væri að leggja einfaldlega nokkra milljarða beint í atkvæðakaupasjóð fyrir þingmenn Austurlands en að ráðast í þessa fjárfestingu.

Tap niðurgreitt með öðru tapi?

Skilja má á orðum Friðriks Sophussonar, að orkusala til stóriðju hafi gert Landsvirkjun kleift að selja orku til almenningsveitna á lægra verði en annars væri mögulegt. Vissulega er það rétt, að stórar virkjanir eru hagkvæmari en smáar. Það breytir hins vegar ekki því, að með því lága orkuverði sem Landsvirkjun fær frá stóriðju, er einfaldlega tap á sölunni. Ég hef ekki heyrt um það fyrr, að hægt sé að nota rekstrartap á einum vettvangi til að niðurgreiða tap á öðrum vettvangi.

Er nú ekki kominn tími til að menn átti sig á því að orkusala til stóriðju á Íslandi er einfaldlega ekki arðbær atvinnugrein? Þurfum við ekki að fara að átta okkur á því, að nýting auðlinda sem slík á ekki að vera markmið í sjálfri sér? Auðlindir á ekki að nýta nema það sé arðbært. Fljótsdalsvirkjun er óarðbær fjárfesting. Það er grundvallaratriði og viðbárur Friðriks Sophussonar breyta engu þar um.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Þorsteinn Siglaugsson