Handknattleikstímabilið á Akureyri hófst í gær þegar KA-menn tóku á móti HK og má segja að byrjunin lofi góðu fyrir heimamenn því KA sigraði örugglega, 28:21, eftir mikinn baráttuleik. Þar með hefur KA sigrað í tveimur fyrstu leikjum sínum með talsverðum mun og ljóst að liðið mun blanda sér í toppbaráttuna enda með sterka menn í hverri stöðu og það yfirleitt fleiri en einn.


KA-sigur í

kraftaleik Handknattleikstímabilið á Akureyri hófst í gær þegar KA-menn tóku á móti HK og má segja að byrjunin lofi góðu fyrir heimamenn því KA sigraði örugglega, 28:21, eftir mikinn baráttuleik. Þar með hefur KA sigrað í tveimur fyrstu leikjum sínum með talsverðum mun og ljóst að liðið mun blanda sér í toppbaráttuna enda með sterka menn í hverri stöðu og það yfirleitt fleiri en einn. Lið HK barðist vel en varð að láta undan síga er líða tók á seinni hálfleik. Mikill kraftakarladans var stiginn í fyrri hálfleik og varnir liðanna firnasterkar, sérstaklega þó vörn KA. Heimamenn komust í 3:0 og það var ekki fyrr en eftir 9,30 mín. sem gestirnir skoruðu fyrsta mark sitt. Leikurinn var harður og ekki langt frá því að teljast grófur, enda var leikmönnum vísað af velli í samtals 18 mínútur í hálfleiknum, 6 brottvísanir á KA-liðið og 3 á HK. Þarna voru líka mikil hörkutól að stíga dans og var t.d. gaman að fylgjast með átökum Helga Arasonar og Sverris Björnssonar, fyrrum KA-manna, í vörn HK, við gamla félaga sinn Þorvald Þorvaldsson á línunni. Þarna voru 300 kílógrömm á fullri ferð og gólfið í KA-heimilinu bókstaflega nötraði. HK-tókst að jafna og komast 2 mörkum yfir, 8:10, en eftir miklar sviptingar stóðu leikar 13:13 er flautað var til kærkomins leikhlés. Alexander Arnarson kom HK marki yfir í upphafi seinni hálfleiks en hann átti mjög góðan leik. Eftir það náðu heimamenn smám saman undirtökunum og ekki bætti það úr skák fyrir HK að Helgi Arason fékk sína þriðju brottvísun strax á 5. mín. hálfleiksins. Þá náði Sverrir sér ekki á strik gegn sínum gömlu félögum sem mættu honum af fullri hörku og hlaut Sverrir skurð á augabrún í átökunum. Kópavogsbúar fóru að missa tökin, göt komu á vörnina, þeir misnotuðu 3 vítaskot, m.a. eftir glæsilega innkomu Harðar Flóka í marki KA og heimamenn fögnuðu öruggum sigri. Vart var að finna veikan blett í liði KA. Markverðirnir vörðu bærilega, vörnin var afar sannfærandi og allir sóknarmennirnir sem fengu að spreyta sig skoruðu. Það var aðeins Hreinn Hauksson, efnilegur leikmaður úr 3. flokki, sem fékk ekki að koma inn á. Lars Walther skoraði mörg glæsimörk, Heimir Árnason og Jónatan Magnússon sýndu skemmtileg tilþrif og Þorvaldur var sterkur á línunni. Hjá HK var Alexander yfirburðamaður og Hlynur stóð sig vel í markinu. Vörnin var sterk framan af en hún bilaði í seinni hálfleik sem og sóknarleikurinn. Stefán Þór Sæmundsson skrifar