UMFN sótti Þórsara heim á Akureyri í gærkveldi og fór með sigur af hólmi, lokatölur leiksins urðu 103:86. Sigurinn var mjög sanngjarn og í raun aldrei í hættu eftir fyrri hálfleik, en UMFN leiddi í hálfleik, 45:30.


Öruggt hjá

Njarðvík

UMFN sótti Þórsara heim á Akureyri í gærkveldi og fór með sigur af hólmi, lokatölur leiksins urðu 103:86. Sigurinn var mjög sanngjarn og í raun aldrei í hættu eftir fyrri hálfleik, en UMFN leiddi í hálfleik, 45:30.

Leikurinn var jafn framan af en Þórsarar áttu þó frumkvæðið í leiknum fram undir lok hálfleiksins. Þá skiptu gestirnir um gír án þess að Þórsarar næðu að svara og á skömmum tíma undir lok hálfleiksins breyttu þeir stöðunni verulega sér í hag og leiddu með fimmtán stigum þegar flautað var til leikhlés.

UMFN byrjaði seinni hálfleikinn af góðum krafti og jók forystu sína jafnt og þétt og um miðjan hálfleikinn var munurinn orðinn 27. Eftir þetta var aldrei spurning um það hver færi með sigur af hólmi heldur einungis hversu stór sigur UMFN yrði. Þórsarar náðu að klóra í bakkann undir lok leiksins, en þegar upp var staðið var munurinn 17 stig, 103-86 fyrir gestina frá Njarðvík.

Hjá Njarðvík lék Teitur Örlygsson mjög vel í þann tíma sem hann var inni á en einnig áttu þeir Páll Kristinsson og Prunell Perry góðan leik. Þórsara virtist skorta leikæfingu en liðið hefur á að skipa mörgum ungum og efnilegum leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér. Þeirra atkvæðamestur var Jason Williams, hann var mjög sterkur í seinni hálfleik en hann hvíldi megnið af þeim fyrri þar sem hann komst snemma í villuvandræði. Þá átti Óðinn Ásgeirsson mjög góðan leik.

Reynir B. Eiríksson skrifar