Óljós framtíð DVD-hljómdiska GEISLADISKURINN var plötufyrirtækjum mikil himnasending, því ekki var bara að framleiðsla hans er mun auðveldari og ódýrari en vínylplötunnar, heldur þurftu allir að kaupa upp á nýtt gömlu plöturnar og mikill kippur kom í sölu á áður óútgefinni tónlist.
Óljós framtíð

DVD-hljómdiska GEISLADISKURINN var plötufyrirtækjum mikil himnasending, því ekki var bara að framleiðsla hans er mun auðveldari og ódýrari en vínylplötunnar, heldur þurftu allir að kaupa upp á nýtt gömlu plöturnar og mikill kippur kom í sölu á áður óútgefinni tónlist. Enn jók það á gleði útgefenda að snældur hurfu nánast af markaði líka, sem sparaði mikinn pening í lagerhaldi og sölukerfum. Á seinni árum hefur aftur dregið úr sölu á tónlist, en margir treysta á að ný tækni muni enn koma þeim til bjargar, nú DVD-hljómdiskar. DVD-hljómdiskar hafa verið í mótun alllengi, en meðal annars hafa menn deilt um staðla á gagnasniði á þeim og leiðum til að hindra ólöglega afritun diskanna. Ekki er langt síðan samkomulag náðist um öll helstu deilumál og því virtist ekkert að vanbúnaði að hefja stífa sókn inn á markaðinn, en annað kom á daginn; það virðist einfaldlega enginn áhugi fyrir nýrri gerð hljómdiska, ekki síst þegar venjulegt fólk heyrir ekki mun á nýju diskunum og þeim gömlu sem þeir leystu af. Geisladiskurinn hefur margt fram yfir vínylplötuna, ekki síst að hann er endingarbetri, slitnar ekki við venjulega notkun, rúmar mun meira af tónlist og hljómar betur að flestra mati, þó margir fagurkerar kunni lítt að meta stafrænan hljóminn. DVD-hljómdiskurinn hefur alla sömu kosti og hefðbundinn geisladiskur og það til viðbótar að hann rúmar tasvert meira af gögnum í meiri hljómgæðum og á hann er hægt að setja mikið magn af annars konar upplýsingum, til að mynda texta, tónlistarmyndbönd eða hvaðeina sem á annað borð er hægt að koma í tölvutækt form. Hljómar vissulega vel, en svo virðist sem plötukaupendur séu ekki ginnkeyptir fyrir nýjungunum, finnst fyrirhöfn af því að þurfa að setja diskinn í tölvu til að nálgast upplýsingarnar á honum, þykir nóg að hafa 80 mínútur af tónlist á einum geisladisk og, það sem virðist verða erfiðasti hjallinn, almennir tónlistarunnendur virðast ekki heyra mun á DVD-hljómdiskum og venjulegum geisladiskum þó munurinn sé talsverður á pappírnum. Síðasta hálmstrá útgefenda virðist vera aukinn áhugi á umhverfishljómi og hátalarafjöld, en DVD-hljómdiskar eru bráðvel til þess fallnir að setja á þá tónlist sniðna fyrir umhverfishljómkerfi. Á DVD-hljómdiskum er tónlist vistuð á 96 kHz tíðnisviði með 24 bita smölun, en á hefðbundnum geisladisk 44 kHz og 16 bita smölun. Hægt er að hafa á DVD- disknum tónlist í fleira en einu sniði, einu fyrir tveggja hátalara 96 kHz hljóm, öðru fyrir sex hátalara 48 kHz hljóm og enn öðru í fjögurra hátalara 48 KHz hljóm, en alls geta samsetningar á disknum verið tuttugu. Mismikið kemst af tónlist á DVD-hljómdiska eftir upplausninni, almennt rúmast 85 mínútur á 96 kHz 24- bit víðómshljómi, en einnig mætti nota sextán bita smölun og koma á diskinn 160 mínútum af tónlist. Enn má auka geymslurýmið með frekari tæknivinnslu og ná allt upp í 516 mínútum, hálfri níundu klukkustund, af tónlist í geisladisksgæðum. Almennt heyrir fólk varla mun á því hvort verið sé að nota 96 kHz og 24 bita smölun eða 44 kHz og 16 bita smölun, en þjálfuð eyru heyra muninn og þeir sem lengst ganga tala um byltingu í þessum efnum; loks sé kominn á markað geisladiskur sem slái vínylplötunni við í hljómgæðum. Ekki er búist við að DVD- hljómdiskaspilarar komi á markað á næstunni, en líklegra að DVD-mynddiskaspilarar verði með stuðningi við DVD-hljóm þegar á þessu ári. Það á svo eftir að koma í ljós hvort tekst að telja nógu marga á að kaupa allar Bítlaplöturnar upp á nýtt, eða hvort DVD-hljómur verður bara fyrir sérvitringa og furðufugla.