KALIFORNÍUBÚAR velja skyndimat æ oftar framyfir mat sem samsettur er úr öllum fæðuflokkunum, þ.e.a.s. korni, mjólkurmat, kjöti og fiski og grænmeti og ávöxtum. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var kunn fyrir skömmu af heilbrigðisyfirvöldum Kaliforníuríkis.
Skyndimatur framyfir hollt fæði

Sacramento, Kaliforníu, AP.

KALIFORNÍUBÚAR velja skyndimat æ oftar framyfir mat sem samsettur er úr öllum fæðuflokkunum, þ.e.a.s. korni, mjólkurmat, kjöti og fiski og grænmeti og ávöxtum. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var kunn fyrir skömmu af heilbrigðisyfirvöldum Kaliforníuríkis.

Um helmingur þeirra Kaliforníubúa sem fóru út að borða á venjulegum degi árið 1997 valdi skyndibitastað en 33% á árinu 1989, samkvæmt niðurstöðunum.

Of þungum fullorðnum einstaklingum í Kaliforníu hefur fjölgað úr 17,8% árið 1984 í 26,7% árið 1996. Á árinu 1984 voru 4,3% íbúanna með sykursýki en 5,5% árið 1996. Ef farið er eftir heilsustöðlum heilbrigðisyfirvalda, sem nýlega voru endurskoðaðar, má gera ráð fyrir að innan fárra ára verði nærri helmingur íbúanna skilgreindur of feitur.

Slæmar matarvenjur og hreyfingarleysi segja til sín í hverjum einasta þjóðfélagshópi í ríkinu. Offita er þó algengust meðal kvenna sem ættaðar eru frá Rómönsku Ameríku og kvenna með lágar tekjur, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Flestir þeirra sem voru spurðir skelltu skuldinni á það hversu þungir þeir væru orðnir á það að framleiðendur skyndifæðis og snarls auglýstu svo grimmt í sjónvarpinu.

Biðröðin lengst við óhollustuna

Niðurstöður rannsóknarinnar komu Dan Best, lögfræðingi markaðssamtaka bænda í Kaliforníu, ekki á óvart. Segir hann að á ákveðnum markaði sem samtökin reki myndist hvað lengsta biðröðin við sölubás þar sem Kettle Corn sé selt en það er "bara sykur og poppkorn". "Fólk sem á þess kost að kaupa ávexti velur snakk-fæði í staðinn," segir hann.

Einungis 30% Kaliforníubúa, sem spurðir, voru borða fimm skammta af ávöxtum eða grænmeti, sem manneldisfræðingar ráðleggja að menn borði dag hvern. Einnig kom í ljós að fólk hirðir ekki mikið um að fara að ráðum fróðra manna um að borða kornmat, mjólkurmat og baunir sem og stunda líkamsrækt.

Heilbrigðisyfirvöld í Kaliforníu rannsaka matarvenjur í ríkinu annað hvert ár með því að spyrja 1.700 einstaklinga um matarvenjur og líkamsrækt. Úr niðurstöðunum reikna þeir m.a. svokallaðan líkamsþyngdarstuðul (e. Body Mass Index, BMI), en hann er t.d. notaður til að skilgreina offitu. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er fullorðin manneskja of þung ef stuðullinn er 25 kg/m eða hærri og með offitu ef stuðullinn er 30 kg/m eða hærri.

Til að reikna líkamsþyngdarstuðulinn út er líkamshæð (í metrum) sett í annað veldi og þeirri tölu síðan deilt upp í þyngd (í kílógrömmum).

Reuters

Diedra Daley mótmælir misrétti sem hún og fleiri feitlagnir Bandaríkjamenn telja sig beitta.

Fram kemur í nýútkominni meistaraprófsritgerð Hólmfríðar Þorgeirsdóttur matvæla- og næringarfræðings að meðalþyngd Íslendinga á aldrinum 45-64 ára er áþekk því sem hún var í Bandaríkjunum fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi. Bandaríska þjóðin hefur fitnað síðan þá rétt eins og margar aðrar vestrænar þjóðir.