HANNA Birna Kristjánsdóttir stjórnmálafræðingur hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hún gengdi áður starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hefur Gréta Ingþórsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokksins í stað hennar.
Nýir starfsmenn Sjálfstæðisflokksins

HANNA Birna Kristjánsdóttir stjórnmálafræðingur hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hún gengdi áður starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hefur Gréta Ingþórsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokksins í stað hennar.

Starf aðstoðarframkvæmdastjóra er nýtt starf hjá flokknum. Aðstoðarframkvæmdastjóri mun meðal annars vinna að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsemi og skipulagi Sjálfstæðisflokksins á næstu árum, ekki síst í ljósi nýrrar kjördæmaskipunar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og mastersprófi í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún hefur undanfarin fjögur ár gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokksins. Hanna Birna er 32 ára, gift Vilhjálmi Jens Árnasyni heimspekingi og eiga þau eina dóttur.

Gréta Ingþórsdóttir er 33 ára gömul og hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og útgáfustjóri aðalnámskráa í menntamálaráðuneytinu.

Eiginmaður hennar er Gísli Hjartarson, verktaki. Þau eiga tvö börn.