Ég sé fyrir mér framtíð þar sem háskólaahverfið tengist Öskjuhlíðinni, segir Agnar Þórðarson, óskalandi menningar og fagurra lista, með fögrum byggingum.
Háskólinn og Öskjuhlíðin Háskólahverfi Ég sé fyrir mér framtíð þar sem háskólaahverfið tengist Öskjuhlíðinni, segir Agnar Þórðarson , óskalandi menningar og fagurra lista, með fögrum byggingum. ÞAÐ VAR mikil eftirvænting í lofti sólríkan vordag 1940, þegar vígsluhátíð Háskóla Íslands fór fram.

Allt frá stofnun hans 1911 hafði Háskólinn haft til umráða þrjár skólastofur á neðri hæð Alþingishússins, auk bókasfns norrænu deildarinnar. Það var mest fyrir atorku og eldmóð prófessors Alexanders Jóhannessonar að ráðist var í það stórvirki að koma upp byggingu fyrir Háskólann sem sæmdi metnaði þjóðarinnar. Langþráður draumur varð að veruleika á þessum dögum. Gestir sem komu til fagnaðarins gerðu sér vonir um að byggingin myndi fullnægja húsnæðisþörfum Háskólans um marga áratugi, menn áttuðu sig ekki á þeim þrótti sem þessi athöfn hafði leyst úr læðingi. Það var eins og þjóðin hefði vaknað til fullrar vitundar um mátt sinn og megin.

Háskólinn óx og dfanaði hröðum skrefum, hver byggingin af annarri reis í námunda við hann og myndaði háskólahverfi með mörgum deildum. Og fyrr en varði var Háskólinn orðinn aðkrepptur með byggingalóðir á þrjár vegu, aðeins í austurátt var opið svæði sem breski herinn hafði lagt undir flugvöll sinn í stríðinu. Þar liggur nú sá þröskuldur fyrir dyrum Háskólans sem ekki verður komist yfir. Handan hans er Öskjuhlíðin, sígræn af skógi upp um hlíðarnar, þar sem stundum hefur gilt frekar kapp en forsjá, því hávaxin barrtré skyggja nú á marga bolla og lautir þar sem áður var hægt að sleikja sólskinið og njóta útsýnis vestur yfir flóann og víðar.

Stjórn Háskólans hefur gripið til þess úrræðis í kröggum sínum að fá aðstöðu til fyrirlestrahalds í félagsheimili knattspyrnufélagsins Vals, vestur undir Öskjuhlíðinni. Loftlínan er ekki nema rúmlega steinsnar frá byggingum Háskólans, en eina leiðin þangað liggur úr norðri meðfram hlíðinni til suðurs.

Ég sé fyrir mér framtíð þar sem háskólahverfið tengist Öskjuhlíðinni, óskalandi menningar og fagurra list, með fögrum byggingum við rætur hlíðarinnar með skjólgóðan skóg allt í kring. Þar gæti orðið unaðsstaður fyrir komandi kynslóðir, þar sem fagrar byggingar tengjast umhverfi sínu á smekklegan hátt.

En fyrsti áfangi þyrfti að verða að fjarlægja þessa ljótu bragga við veginn undir Öskjuhlíðinni sem virðast hafa gleymst fyrir löngu. Enginn virðist lengur veita því eftirtekt hvað braggarnir eru mikil óprýði og stinga vegfaranda í augu, nema flestir séu orðnir svo vanir þessum ósóma og hirðuleysi að þeir í sljóleika sínum taki ekki eftir þessu lýti.

Höfundur er rithöfundur. Agnar Þórðarson