SJÚKLINGAR hafa meiri áhyggjur af því að þeir fái röng lyf á sjúkrahúsunum en af verkjum eða meðferðarkostnaðinum, ef marka má nýja bandaríska könnun. Félag lyfjafræðinga í bandaríska heilbrigðiskerfinu (ASHP), samband lyfjafræðinga sem starfa flestir á sjúkrahúsum, stóð fyrir könnuninni. Hún byggðist á símaviðtölum við 1.
Margir óttast

ranga lyfjagjöf

Medical Tribune News Service.

SJÚKLINGAR hafa meiri áhyggjur af því að þeir fái röng lyf á sjúkrahúsunum en af verkjum eða meðferðarkostnaðinum, ef marka má nýja bandaríska könnun.

Félag lyfjafræðinga í bandaríska heilbrigðiskerfinu (ASHP), samband lyfjafræðinga sem starfa flestir á sjúkrahúsum, stóð fyrir könnuninni. Hún byggðist á símaviðtölum við 1.008 fullorðna sjúklinga og um 61% þeirra sagðist hafa "miklar áhyggjur" af því að fá röng lyf.

58% þátttakendanna sögðust einnig hafa "miklar áhyggjur" af því að fá tvö eða fleiri lyf sem verka hvert á annað og jafnmargir höfðu áhyggjur af meðferðarkostnaðinum.

Bruce Scott, formaður ASHP, sagði að könnunin sýndi að lyfjagjafirnar yllu sjúklingum of miklum kvíða.

Alan C. Horowitz, deildarstjóri ISMP, bandarískrar stofnunar sem veitir fræðslu um öryggi í lyflækningum, sagði að áhyggjur sjúklinga af hugsanlegum mistökum við lyfjagjafir væru réttmætar. Læknar og lyfjafræðingar væru orðnir mjög meðvitaðir um þessa hættu, ekki síður en almenningur.

Á meðal annarra atriða sem sjúklingarnir sögðust hafa "miklar áhyggjur" af voru: hugsanlegir fylgikvillar meðferðarinnar (56%), ónógar upplýsingar um lyfin sem þeir fá (53%) og sýkingar eða smit meðan á sjúkrahúsdvölinni stendur (50%).

49% þátttakendanna báru kvíðboga fyrir hugsanlegum aukaverkunum lyfjanna og jafnmargir höfðu áhyggjur af of mikilli lyfjagjöf. 49% sjúklinganna kviðu verkjum.

Þá sögðust tveir þriðju þátttakendanna hafa miklar áhyggjur af því hvort þeir myndu nota lyfin með öruggum hætti eftir að þeir útskrifast af sjúkrahúsi.

Presslink

Það getur valdið ruglingi ef maður þarf að taka inn mörg lyf, ekki síst ef lyfin eru í keimlíkum umbúðum eða heita áþekkum nöfnum.